Ástand Sonja Henie og John Payne í hlutverkum sínum í hinni umdeildu kvikmynd Iceland.
Ástand Sonja Henie og John Payne í hlutverkum sínum í hinni umdeildu kvikmynd Iceland. — 20th Century Fox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Fast var að orðið kveðið í fyrirsögn fréttar sem birtist í Morgunblaðinu 19. september 1942: „Fáránleg kvikmynd, sem er látin gerast í Reykjavík.“ Heimildin var septemberhefti ameríska tímaritsins Modern Screen en þar var hermt af nýrri kvikmynd, Iceland, sem átti að gerast í Reykjavík eftir að amerísku landgönguliðssveitirnar komu hingað. Kvikmyndin, sem H. Bruce Humberstone leikstýrði, segir frá ástarævintýri bandarísks hermanns, sem John Payne lék, og íslenskrar stúlku, sem leikin var af norsku skautadrottningunni Sonju Henie, sem á þeim tíma hafði haslað sér völl í Hollywood. Myndin var ekki tekin upp á Íslandi.

„Samkvæmt frásögn ameríska tímaritsins um myndina og efni hennar, er hjer um að ræða fáránlega frásögn og efni myndarinnar þannig, að það á ekkert skylt við Ísland nema nafnið. – Verður myndin varla til annars, en að gefa þeim, sem hana sjá og ókunnir eru hjer á landi, allranga hugmynd um land og þjóð,“ sagði í frétt Morgunblaðsins.

Blaðinu þótti til að mynda nöfn persónanna líkleg til að vekja hlátur hér heima. Þannig heitir persóna Henie Katína Jónsdóttir og íslenski pilturinn, sem hún yfirgefur til að geta slegið sér upp með bandaríska dátanum, Sven. Þá koma þarna við sögu Herr Tegnar, Sverdrup Svenssen og Sophie frænka. Allt rammíslensk nöfn. Ekki hafa bandarísku kvikmyndagerðarmennirnir verið nægilega vel að sér í íslenskri nafnahefð en foreldrar Katínu heita þeim skemmtilegu nöfnum Helga Jónsdóttir og Papa Jónsdóttir.

Kvikmyndin gerist að miklu leyti á Hótel Jorg og þar gæða menn sér meðal annars á sextíu tegundum af „smjörogbrauði“. Svo er allt á kafi í snjó og Íslendingar vita fátt skemmtilegra en að stunda skautahlaup. „Hvernig skyldu höfundar kvikmyndarinnar hugsa sjer veðráttuna á Íslandi á Þorranum, þegar aðalskemtun landsbúa er skautahlaup seinast í júlí?“ spurði Morgunblaðið.

Vanþekking og kæruleysi

Þá munu þjóðbúningar hafa verið fengnir að láni frá Noregi og aðalhátíðin í myndinni kallast Ólafsvaka. „Sem sagt. Það verður ekki betur sjeð, en að mynd þessi sje gerð fyrst og fremst af mikilli vanþekkingu og fullkomnu kæruleysi fyrir því, að afla sjer rjettra upplýsinga um stað þann, sem hún á að gerast á. Fátt getur eins skaðað álit landsins út á við, eins og bjánalegar kvikmyndir, því flestir þeirra, sem kvikmyndina sjá erlendis, og þekkja ekki til lands og þjóðar, munu fá þær hugmyndir um landið, sem gefnar eru í kvikmyndinni,“ stóð í niðurlagi fréttarinnar.

Til að bæta gráu ofan á svart var á sömu blaðsíðu í blaðinu frétt þess efnis að íslensk kona hefði leitað til lögreglu með áverka á höfði eftir að bandarískur hermaður hafði ráðist á hana. Henni tókst að slíta sig lausa en hermaðurinn hafði ekki náðst.

Nokkrum dögum síðar birtist aðsend grein í Morgunblaðinu eftir bandarískan hermann, staðsettan á Íslandi, þar sem hann harmaði þá mynd sem dregin væri upp á landi og þjóð í Iceland. „Maðurinn, sem valinn hefir verið í hlutverk Íslendingsins, virðist vera fáfróður og durgslegur,“ skrifaði hermaðurinn. „En jeg hefi ennþá engan Íslending svo ræfilslegan og álappalegan sjeð, sem kvikmyndin vill vera láta.“

Um stúlkurnar hafði hann eftirfarandi að segja: „Hvað viðvíkur stúlkunum, sem elta hermennina á röndum til þess að fá hjá þeim súkkulaðibita eða brennivínssopa, þá er þetta hin mesta vitleysa, sem enn hefir ekki komið fyrir.“

Heimskuleg og hlægileg

Næst spurðist til kvikmyndarinnar Iceland upp úr miðjum október. Þá kom fram í Morgunblaðinu að helstu kvikmyndagagnrýnendur Bandaríkjanna væru sammála um að dæma myndina hart, en þá var nýbúið að frumsýna hana í New York.

„Gagnrýnendurnir segja ekki aðeins, að kvikmyndin sje „heimskuleg“ og „hlægileg“, heldur bæta því við, að hún gefi alrangar hugmyndir um Ísland og Íslendinga. Flestir gagnrýnendanna segja, að kvikmyndin sje einungis söngleikur í skemtistíl, sem hafi verið látinn gerast á Íslandi til þess að geta gefið skautaíþrótt Sonju Henie líklegra svið. Ekki hefir heyrst eitt einasta lofsorð um myndina,“ sagði Morgunblaðið.

Hinn kunni kvikmyndagagnrýnandi Bosley Crowther gekk í lið með Morgunblaðinu í The New York Times. Fyrst talaði hann almennt: „Svo að segja hver einasta kvikmynd, að örfáum undanteknum, sem gerð hefir verið undanfarin ár og hafa átt að gerast erlendis, hafa haft á sjer „Hollywood“-blæ. Afleiðingin hefir orðið sú að mvndirnar hafa ekki kent oss neitt um þjóðir þær, sem þær þykjast hafa verið að sýna og þær hafa stundum vakið andúð meðal þeirra þjóða, sem þær hafa ætlað sjer að „heiðra“.“

Svo ræddi hann sérstaklega um Iceland sem væri kvikmynd sem flestir kvikmyndahúsagestir í Bandaríkjunum kynnu að halda að væri jafn meinlaus í milliríkjamálum og koss. Svo væri þó ekki.

„Þessi ábyrgðarlausa kvikmynd sýnir ekki Íslendinga í réttu Ijósi. Þeim finnst síður en svo að þjóðinni séu nokkrir gullhamrar slegnir. Að minsta kosti eru Íslendingar ekki þjóð, sem við viljum móðga.“

Svo langt gekk málið að sendiherra Íslands í Washington gerði bandaríska utanríkisráðuneytinu grein fyrir gremju Íslendinga. Það skilaði þeim árangri að ráðuneytið snupraði kvikmyndaverið, 20th Century Fox. Í Morgunblaðinu 20. nóvember 1942 birtist eftirfarandi frétt. Heimildin var utanríkismálaráðuneytið. „Samkvæmt símskeyti frá sendiherra Íslands í Washington hefir utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna komið því til leiðar við kvikmyndafjelagið, er tók kvikmyndina „Iceland“, að breyta nafni kvikmyndarinnar í „Married on Ice“ og sleppa úr kvikmyndinni öllu, sem beinist að Íslandi undir eftirliti utanríkisráðuneytisins og sendiráðs Íslands þar, og verður útflutningur kvikmyndarinnar úr landi ekki leyfður fyrr en þetta hefir verið gert.“

Þetta hafði þær afleiðingar að myndin var sýnd undir nafninu Katina í Bretlandi og Marriage on Ice í Ástralíu.

Í Bandaríkjunum er hún þó enn þekkt sem Iceland.

Höf.: Orri Páll Ormarsson