— Myndir/Landsvirkjun
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er orkuskortur á Íslandi. Því hefðu fáir trúað fyrir fáeinum misserum. Landsvirkjun vill bregðast við með því að reisa nýjar virkjanir. En það ferli tekur langan tíma. Einnig hyggst Landsvirkjun auka raforkuframleiðsluna með því að stækka orkuver sem þegar eru í rekstri

Fréttaskýring

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Það er orkuskortur á Íslandi. Því hefðu fáir trúað fyrir fáeinum misserum. Landsvirkjun vill bregðast við með því að reisa nýjar virkjanir. En það ferli tekur langan tíma. Einnig hyggst Landsvirkjun auka raforkuframleiðsluna með því að stækka orkuver sem þegar eru í rekstri. Þau áform sem lengst eru komin eru stækkun Sigöldustöðvar á Þjórsársvæðinu og stækkun Þeistareykja í Mývatnssveit.

Unnið er að stækkun Sigöldustöðvar um allt að 65 MW (megavött) til að auka afl í raforkukerfinu og jafna út sveiflur í vinnslu orku í vindorkuverinu Búrfellslundi, upplýsir Ragnhildur Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Sigölduvirkjun yrði þá 215 MW.

Sigöldustöð er rétt ofan við Hrauneyjafossstöð, sunnan við Þórisvatn. Uppsett afl stöðvarinnar er 150 megavött og því getur hún unnið 920 gígavattstundir á ári. Stöðin var gangsett í lok árs 1978. Frárennslisskurður tengir Sigöldu við Hrauneyjafossstöð. Þá hefur Umhverfisstofnun tilkynnt að skýrsla um umhverfismat uppfylli skilyrði laga, eins og fram kom hér í blaðinu fyrir jól. Eftir er að sækja um leyfi Fiskistofu, virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi. Vonast er til að stækkun Sigöldustöðvar verði lokið 2027.

Fyrirhugað er að stækka gufuaflsstöðina að Þeistareykjum úr 90 MW í 135 MW sem þýðir að virkjunin verður stækkuð um eina vélasamstæðu. Stækkun á Þeistareykjum verður vonandi lokið 2028, segir Ragnhildur. Þá er til skoðunar á sama stað verkefni sem gengur út á að bæta nýtni háþrýstrar gufu til orkuvinnslu.

Fyrir utan þessi tvö stækkunarverkefni er undirbúningur að Hvammsvirkjun og Búrfellslundi lengst kominn. Umhverfisstofnun tilkynnti skömmu fyrir jól áform um að veita heimild til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna 95 MW Hvammsvirkjunar. Þar kemur fram að öll skilyrði séu uppfyllt í samræmi við ákvæði vatnalaga. Í vatnalögum er vatnshlot skilgreint sem eining vatns, t.d. stöðuvatn eða mikið magn vatns á einu svæði.

Ragnhildur segir að Hvammsvirkjun í Þjórsá sé vonandi á lokametrum leyfisveitingaferlis. Hún verður áttunda aflstöðin á stærsta vinnslusvæði Landsvirkjunar, Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Virkjun neðan við núverandi aflstöðvar hámarki afraksturinn af orkuauðlindinni. „Við gerum okkur vonir um að hægt verði að hefja framkvæmdir næsta sumar og að hún taki til starfa 2028,“ segir Ragnhildur.

Búrfellslundur stefnir í að verða fyrsta vindorkuver Landsvirkjunar og verður vonandi kominn í gagnið undir lok árs 2026, að sögn Ragnhildar. Á svæði austan við Sultartangastöð eru áform um að reisa allt að 30 vindmyllur. Ragnhildur segir að niðurstöður rannsókna sýni að hagkvæmt sé að reka vindorkuver á þessu svæði. Veðurfar hefur verið rannsakað í tvo áratugi og vindmælingar framkvæmdar.

Þá sé það mikill kostur að hægt verður að nýta þá innviði sem þegar eru til staðar, s.s. vegi og háspennulínur sem dragi úr umhverfisáhrifum verkefnisins.

Endurhanna Búrfellslund

Uppsett afl Búrfellslundar er 120 MW. Upphaflega var uppsett afl 200 MW. Lundurinn var endurhannaður í samræmi við athugasemdir og ábendingar og vindmyllum fækkað úr 67 í allt að 30. Þær verða að hámarki 150 metra háar. Ný útfærsla hefur í för með sér talsvert minni sýnileika frá ferðamannaleiðum og nærliggjandi ferðamannastöðum, að mati Landsvirkjunar.

Búrfellslundur er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Vindorkuverið er alfarið innan sveitarfélagsins Rangárþings ytra og unnið er að breytingum á aðal- og deiliskipulagi í samráði við sveitarfélagið. Landsvirkjun sótti um virkjunarleyfi til Orkustofnunar haustið 2022.

Norðan við Búrfell er hraunslétta sem kölluð er Hafið. Þar reisti Landsvirkjun tvær vindmyllur, þær fyrstu á landinu, í rannsóknarskyni. Þær voru gangsettar í febrúar 2013. Reksturinn hefur gengið vel og ljóst að staðsetningin er óvenju hagstæð fyrir raforkuvinnslu úr vindorku, segir á heimasíðu Landsvirkjunar.

„Á Íslandi er vindstyrkur mestur að vetri þegar lítið vatn rennur í miðlunarlón Landsvirkjunar. Þannig fer vinnsla raforku úr vindi og vatnsafli einkar vel saman,“ segir þar.

Loks nefndir Ragnhildur önnur áform í nýtingarflokki, sem ekki eru komin áleiðis. Það er Blöndulundur, 100 MW vindorkuver í nágrenni Blöndustöðvar eða um 25 vindmyllur í grennd við núverandi orkumannvirki. Þar hafa rannsóknir á vindauðlindinni og fuglalífi staðið yfir í nokkur ár. Loks eru það Blönduveitur, þrjár smærri virkjanir, samtals 31 MW, sem reistar yrðu á núverandi veituleið Blöndustöðvar og myndu þannig nýta núverandi innviði og lón betur. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að ráðast í Blönduveitur.

„Áður en til þessa tveggja verkefna kemur, Blöndulundar og Blönduveitna, þarf að styrkja flutningskerfi raforku á svæðinu. Öll áform eru að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að leyfisveitingar gangi eftir,“ segir Ragnhildur að lokum.

Þurfa að skerða orku

Vatnsstaða Þórisvatns er með alversta móti. Landsvirkjun þurfti að grípa til þess ráðs að skerða orku til stórnotenda á suðvesturhluta landsins, Elkem, Norðuráls og Rio Tinto og fjarvarmaveitna. Skerðingarnar hefjast 19. janúar nk. og gert er ráð fyrir að þær geti staðið allt til 30. apríl. Þetta var tilkynnt 19. desember.

Almennt nemur skerðingin um 10% á mánuði, en það er þó misjafnt eftir samningum, m.a. eftir því hversu hratt fyrirtækin geta dregið úr orkunotkun.

Mánuði áður þurfti að grípa til takmörkunar á afhendingu víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, auk gagnavera sem stunda rafmyntagröft.

„Orkan okkar er uppseld“

„Um þessar mundir er orkuvinnslukerfið okkar nýtt til hins ítrasta. Við náum þó að afhenda alla þá orku sem við höfum samið um, en við slíkar aðstæður koma hins vegar tímabil þar sem við náum ekki að afhenda öllum sem vilja alla þá orku sem óskað er eftir.“

Þetta sagði Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóra Vatnsafls hjá Landsvirkjun, í grein sem hann birti á heimasíðu fyrirtækisins í október síðastliðnum.

„Slíkar skerðingar hafa átt sér stað undanfarin misseri og þær verða tíðari, nú þegar eftirspurn er með þeim hætti að í raun er hægt að tala um að orkan okkar sé uppseld. Viðskiptavinir okkar vita af skerðingarmöguleikum, enda er kveðið á um slíkt í samningum þeirra,“ bætti Gunnar Guðni við.