Ragnheiður Gíslason, alltaf kölluð Heiða í Laxnesi, fæddist 30. júní 1942 í Reykjavík og var æskuheimili hennar á Laufásvegi 64a þar sem foreldrar hennar bjuggu til dauðadags. Hún lést á Borgarspítalanum í faðmi fjölskyldunnar 18. desember 2023 eftir stutt veikindi.

Foreldrar hennar voru Ingibjörg Jónsdóttir Gíslason húsmóðir, f. 30. apríl 1915, d. 22. apríl 2011, og Bergur G. Gíslason forstjóri, f. 6. nóvember 1907, d. 22. maí 2008.

Dætur þeirra voru fimm, Heiða var önnur í röðinni. Hinar eru: Þóra Sandholt, f. 1938, maður hennar var Hallgrímur Sandholt, f. 1936, d. 2005. Börn þeirra eru þrjú, Bergur, f. 1959, Kristín, f. 1960, og Ingibjörg, f. 1964. Á eftir Heiðu komu því næst tvíburarnir Gerður og Bergljót, f. 1943, en Gerður lést 1994, eftirlifandi maður hennar er Gísli Gestsson. Börn Gerðar eru Bergur, f. 1970, og Ragnheiður, f. 1969. Börn Bergljótar eru Páll Ottó Bernburg, f. 1964, og Jón Gunnar Bernburg, f. 1973, fyrrverandi maður Bergljótar var Gunnar Bernburg, f. 1942. Yngst er Ása Gíslason, f. 1950, maður hennar er Ólafur Magnússon, f. 1951, og eiga þau dótturina Hrafnhildi Ýri, f. 1984.

Eiginmaður Heiðu er Þórarinn Jónasson í Laxnesi, kallaður Póri í Laxnesi, f. 26. apríl 1942.

Börnin eru þrjú: 1) Dísa, sambýlismaður hennar Bjarni Grímsson. Eiga þau eina dóttur, Brynju, f. 2003. Börn Dísu eru þrjú: Christopher Þórarinn Anderiman, f. 1989, sambýliskona hans er Hilma Ýr Davíðsdóttir. Þau eiga tvö börn, Erlu Fanneyju, f. 2019, og Hilmi Orra, f. 2022. Ingibjörg Sóllilja Baltasarsdóttir, f. 1996, unnusti hennar er Birkir Georgsson, f. 1999. Skjöldur Kristjánsson f. 1999. 2) Þórunn Lára, f. 1968, sambýlismaður hennar er Jón Svan Grétarsson, f. 1963. Börn þeirra eru þrjú: Sunna (dóttir Jóns Svans), eiginmaður hennar er Christjan Marchant, eiga þau þrjú börn: Ágústu Rós, f. 2012, Jón Svan, f. 2016, og Þórarin, f. 2021. Þórarinn Jónsson, f. 1997, unnusta hans er Kayla Maureen Þorbjörnsson, f. 1999. Grétar Jónsson, f. 2001. 3) Haukur Hilmar, f. 1975. Börn Hauks eru Kristján Ari, f. 1999, og Júlíus Hrafn, f. 2001. Unnusta hans er Eydís Einarsdóttir, f. 1978.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 4. janúar 2024, klukkan 13.

Þú varst fyrirmyndin mín elsku besta mamma. Þú varst með hlutina á hreinu og hvílík drottning. Við vorum oft spurðar hvort við værum systur því þú varst svo ungleg og sæt, ég var alltaf stolt að eiga þig sem mömmu. Þú varst líka algjör nagli, stoð mín og stytta og alltaf til staðar fyrir mig og mína. Þegar ég hugsa til baka þá vorum við svo góðar saman og aldrei kom upp ósætti á milli okkar. Þú varst svo þægileg manneskja og með svo góða nærveru. Nú þegar þú ert farin frá mér get ég huggað mig við allar góðu samverustundirnar okkar. Þær voru mjög margar en í dag vildi ég óska að þær hefðu verið fleiri. Okkur leið alltaf svo vel saman, þú varst skemmtileg, aktív, líkamlega vel á þig komin og svo varstu alltaf til í allt. Við elskuðum að fara saman á hestbak, ferðast, fara á skíði, berjamó, sund, göngutúra, leikhús, hjólatúra og oft komstu með mér í vitjanir, sérstaklega ef ég þurfti að keyra langt svo við gætum eytt meiri tíma saman. Þú kenndir mér svo margt og það á svo sannarlega eftir að vera erfitt að lifa lífinu án þín en innst inni veit ég að þú átt eftir að fylgja mér. Elsku mamma, lífið með þér var dásamlegt.

Þín

Þórunn Lára (Tóta).

Ég kynntist Heiðu minni, húsfreyjunni í Laxnesi, fljótlega eftir að við Tóta, heimasætan í Laxnesi, ákváðum að verða samferða í þessu lífi. Síðan eru liðin 34 ár og hefur aldrei borið skugga á okkar vináttu.

Við Tóta ásamt Sunnu dóttur minni bjuggum í „Kotinu“ í Laxnesi fyrstu misserin og fann ég ávallt fyrir velvilja Heiðu. Ekki minnkuðu samskiptin er við fluttum til Danmerkur til náms enda Heiða dugleg að koma og vera hjá okkur, dekra við dóttur sína, Sunnu og ömmustrákana.

Heiða var einstaklega þægileg í viðmóti, ávallt glöð og kát. Hún var glæsileg og sveif um, létt á fæti, á hlaðinu í Laxnesi að taka á móti ferðamönnum eða gera klárt fyrir næstu ferð. Dugnaðarforkur sem vann sjö daga vikunnar og kvartaði aldrei.

Heiða kom oft við að loknu dagsverki í kaffisopa og spjall og ef þjóðlegur réttur var í kvöldmatinn var hún alltaf til í að sitja aðeins lengur.

Þær eru ófáar hátíðirnar sem við höfum haldið saman og var hennar sárt saknað þessi jólin.

Það var sárt að horfa á huga og persónu hverfa síðasta misserið en huggun í harmi að gleðin hvarf aldrei og hún Heiða mín naut augnabliksins fram til hinstu stundar.

Jón Svan.

Hvernig á ég að skrifa um elskulega systur mína, það eru svo margar góðar minningar sem koma upp í hugann. Það er þó aðallega fallega brosið hennar og einstaklega létta lund. Ég gæti sagt að Heiða hafi verið eins og fallegt fiðrildi. Ég dáðist alltaf að þessari fallegu systur minni, sem átti stóran hóp vinkvenna og alltaf var það gaman þegar þær komu allar saman á æskuheimili okkar á Laufásvegi 64a. Þær voru ófáar veislurnar sem Heiða hélt þegar foreldrar okkar voru á ferðalögum, þá var hlustað á djass og dansað La Bamba í stofunni, þær allar í glæsilegum siffonkjólum, ég litlan mátti fylgjast með. Heiða giftist honum Póra sínum og saman ráku þau hestaleiguna í Laxnesi, en þar leið Heiðu best, enda ævintýraheimur. Við systurnar eigum eftir að sakna hennar mikið, það koma tár fram þegar ég hugsa um auða sætið hennar næst þegar við systur hittumst eins og við gerðum alltaf einu sinni í mánuði, þar sem tekið var vel á rjómakökum og öðru góðgæti. Hvíl í friði elsku systir.

Ása Gíslason.

Elsku Heiða mín. Það er svo innilega sárt og sorglegt að skrifa þessi orð. Litla flotta skvísan mín sem alltaf var svo smart, snaggaraleg og töff, ég trúi varla að þú sért farin frá okkur. Ég á svo margar góðar minningar um þig. Þú ert ein af fáum í mínu lífi sem hafa alltaf verið jákvæðir og séð það besta í aðstæðum, alltaf kom fallegt bros og hlátur, alveg sama hvað bjátaði á. Mikið var hann Póri minn heppinn maður að eiga þig að og börnin þín að eiga svona yndislega móður. Þú skilur eftir svo mikið gott í þessum heimi og ég er svo heppin að hafa þekkt þig alla mína ævi. Það var alltaf svo gaman að koma í Laxnes, alltaf eitthvað spennandi í gangi, hvort sem það var matarboð á þínum vegum eða partí eða að sjá þig skokka um eins og unglingur að vippa þér á hestbak. Aldrei kipptirðu þér upp við umganginn af öllum gestunum sem voru ansi margir, komandi alla daga á öllum tímum, heldur tókstu öllum fagnandi og með bros á vör. Og alltaf var ég velkomin og alltaf leið mér vel þar.

Heiða átti þrjú börn, Dísu, Þórunni og Hauk, sem eru mér kærari en hægt er að segja frá í orðum. Það er ómetanlegt hvernig þau hugsuðu um móður sína síðustu árin, voru klettarnir hennar. Eins hann elsku Póri, hennar elskandi eiginmaður, sem stóð sig eins og hetja og var aðdáunarverður í hennar umönnun fram á síðustu stund.

Heiða mín, mikið þakka ég þér fyrir síðustu 60 árin sem ég hef átt með þér, þú varst alltaf innilegur gleðigjafi, ekki bara í mínu lífi heldur í lífi allra sem þú þekktir. Þú varst ekki bara gullfalleg að utan heldur enn fallegri að innan.

„Skvísípæ“, takk fyrir mig, takk fyrir að vera þú, góða ferð, njóttu þess að vera frjáls til að gera allt sem þú vilt gera. Ég elska þig.

Þín

Ragnheiður Lára (Lalla).

Það var fyrir nokkrum árum á einum af þessum dýrðlegu dögum í Helgadal að mér var tilkynnt að komnir væru komnir góðir gestir en veðrið væri svo gott að þeir vildu ekki koma inni í kaffi. Það vildi svo til að undirritaður átti afmæli þennan dag án þess að það væri opinbert, en gestirnir voru svo sannanlega hjartanlega velkomnir. Í garðinum biðu mín tvær glæsilegar konur, húsmóðirin í Laxnesi og dóttir hennar, Þórunn (Tóta) dýralæknir. Það var að sjálfsögðu sett upp gott afmæliskaffiborð í garðinum, sem vel er minnst, enda konurnar hugljúfar og góðar.

Samvinna milli okkar í Dalsbúi ehf. og fjölskyldunnar í Laxnesi hefur ávallt verið góð og margar heimsóknir verið eftirminnilegar, enda hjónin góð að heimsækja. Sérstaklega þegar stórar uppákomur hafa verið, eins og stórafmæli í fyrirtæki þeirra, þá eru allir velunnar þeirra saman komnir og er vel tekið á móti öllum í mat og drykk og mikil skemmtun í boði. T.d. hefur Ólafur fv. forseti minnst á í ræðu að hann telji það vera hestaleigunni í Laxnesi til hróss að hann hafi ekki slasast á hesti hér. Þau hjón hafa rekið hestaleiguna með miklum ágætum í marga áratugi svo eftir hefur verið tekið og verið góð heim að sækja.

Eins og áður hefur komið fram taka þau hjón á móti gestum með mikilli ljúfmennsku og gestrisni og Heiða líður á milli gesta hugljúf og þægileg. Ég hef haft sérlega gaman að fylgjast með Heiðu þegar hún kemur út úr hesthúsinu með beisli í höndum til að aðstoða við að gera hestana tilbúna fyrir leigutúr. Þetta er fyrir mér eins og listrænn ballett, hún líður þarna um og hestarnir nutu greinilega þessa ljúfu atlota.

Nú er þessi hugljúfa húsmóðir fallin frá og ég veit að margir ættingjar og vinir munu sakna hennar mjög. En þeir geta huggað sig við góðar minningar og vita að góður andi hennar mun svífa yfir Laxnesi um ókomna tíð.

Guð blessi Heiðu, fjölskyldu hennar og vini.

Þorlákur Ásgeir
Pétursson, Dalsbúi 2.