— AFP/Johnny Pedersen
Sannkallað vetrarríki er nú í norðurhluta Evrópu, einkum Skandinavíu. Í Lapplandi, nyrsta héraði Svíþjóðar, fór lofthiti niður í rétt tæpar mínus 43 gráður. Er það mesta kuldakast sem mælst hefur í Svíþjóð síðastliðin 25 ár

Sannkallað vetrarríki er nú í norðurhluta Evrópu, einkum Skandinavíu. Í Lapplandi, nyrsta héraði Svíþjóðar, fór lofthiti niður í rétt tæpar mínus 43 gráður. Er það mesta kuldakast sem mælst hefur í Svíþjóð síðastliðin 25 ár.

Í Danmörku eru ekki síður vetrarhörkur, líkt og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd sem tekin var á Jótlandi um miðjan dag í gær. Hafði þá ökumaður vörubifreiðar misst stjórn á ökutæki sínu í slæmri færð og þurfti stórvirkar vinnuvélar til að koma bifreiðinni burtu af vettvangi slyssins.

Í Rússlandi blæs einnig kaldur vindur – hitastig í Moskvu fór meðal annars niður í mínus 30 gráður. Er veðrið í vesturhluta Rússlands mun kaldara nú en vanalegt er í janúar, en á þessum tíma árs er hiti oft í kringum mínus tíu gráður. khj@mbl.is