Ógnvekjandi Leikararnir Myha’la og Mahershala Ali í Netflix-mynd Sam Esmail Leave the World Behind, eða Skildu heiminn eftir.
Ógnvekjandi Leikararnir Myha’la og Mahershala Ali í Netflix-mynd Sam Esmail Leave the World Behind, eða Skildu heiminn eftir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Netflix Leave the World Behind ★★★½· Leikstjóri og handritshöfundur: Sam Esmail. Byggt á skáldsögu Rumaan Alam. Aðalleikarar: Mahershala Ali, Julia Roberts, Ethan Hawke, Kevin Bacon, Myha’la, Farrah McKensie og Charlie Evans. Bandaríkin, 2023. 141 mín.

Kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Nýjasta stórmyndin á Netflix, Leave the World Behind, er metnaðarfull framleiðsla og mikið í hana lagt. Fyrir tíma Netflix hefði hún eflaust verið sýnd í kvikmyndahúsum því hún er mikið sjónarspil og leikarar vandaðir. Engu að síður ber að fagna því þegar vandaðar myndir og nýjar af nálinni eru í boði á Netflix því það er alltof sjaldgæft.

Julia Roberts og Ethan Hawke leika hjón, Amöndu og Clay, sem halda með börnum sínum í sumarfrí á Long Island í nágrenni New York. Börnin, Rose og Archie, eru á ólíkum aldri, hún að komast á táningsaldur en hann nokkrum árum eldri. Áhugamál þeirra eru býsna ólík, Rose virðist heltekin af gamanþáttunum Friends en Archie af hinu kyninu. Húsið sem þau hafa tekið á leigu er einkar glæsilegt og stórt, á þremur hæðum með sundlaug og greinilegt af öllu að eigendurnir eru vel stæðir.

En Adam var ekki lengi í paradís því Clay og Amanda fá óvænta heimsókn seint um kvöld, mann á miðjum aldri og dóttur hans fullorðna, þau GH Scott og Ruth, sem eru leikin af Maharshala Ali og Myha’la Herrold. Feðginin eru prúðbúin, segjast nýkomin af óperusýningu í stórborginni og vera eigendur hússins. En hvers vegna eru þau komin aftur heim til sín, í hús sem er nýbúið að leigja út? Jú, Scott gefur þá skýringu að rafmagnsleysið í New York hafi neytt þau til að snúa aftur. Clay virðist trúa þessu en ekki Amanda. Hún er tortryggin og grunar þetta ókunnuga fólk um græsku. Hefur það eitthvað með kynþátt þeirra að gera, að þau eru þeldökk? Þeirri spurningu er lætt í huga áhorfenda með viðbrögðum Amöndu og samskiptum hinna fullorðnu. Spurningin er svo hvort hefur rétt fyrir sér, Amanda eða Clay? Eru feðginin vel meinandi og heiðarlegt fólk eða þvert á móti hættuleg og mögulega glæpamenn?

Þetta er skrítið og verður skrítnara allt til loka myndar þegar einhvers konar skýring er gefin á öllu saman. Eða ekki.

Frá fyrstu mínútum ætti áhorfendum að vera ljóst að myndin er ráðgáta og bæði skrítin og dularfull. Tónlistin gefur það líka sterklega til kynna með glundroðakenndum píanóleik og óvenjuleg sjónarhorn í myndatöku ýta undir tilfinninguna fyrir því að ekki sé allt með felldu og ekki allt sem sýnist. Það á við um svo til alla myndina. Stundum virkar myndatakan dálítið tilgerðarleg, líkt og leikstjórinn hafi ekki treyst handritshöfundi og leikurum fyrir því að koma undarlegheitunum til skila. Það þarf ekki að snúa myndavélinni á hvolf til að sýna að allt sé á hvolfi, svo dæmi sé tekið.

Margt furðulegt á sér stað og sumt stenst dálítið illa frekari skoðun. Má til dæmis þar nefna mikið flutningaskip sem rekur á land á eyjunni án þess að nokkur skaði hljótist af. Leiðsögukerfi liggja öll niðri eða hafa gefið sig, bæði í skipum, flugvélum og bifreiðum. Er það trúlegt? Er ekki alltaf einhver öryggisventill, fari svo að kerfin klikki? Spyr sá sem ekki veit.

Í einu atriða kemur mikill fjöldi af hvítum Teslum við sögu og þar er ekki beinlínis jákvæð mynd gefin af bíltegundinni í þessu annars spennandi og eftirminnilega atriði. En hasarinn er fínn og margs konar farartæki notuð, líkt og sjálfur James Bond sé á ferðinni. Annað dularfullt atriði, ekki síður myndrænt, er þegar Clay brunar á bílnum sínum undan lítilli flugvél sem er að dreifa einhverju yfir hluta eyjarinnar. Hvaða efni þar er á ferð kemur síðar í ljós í myndinni og nokkuð á óvart, líkt og margt annað. Endirinn þar á meðal en hann er með þeim betri sem ég hef séð lengi í kvikmynd.

Heillandi og ógnandi í senn

Að öllu samanlögðu er þetta ekki gallalaus mynd en heldur athygli manns þó allan tímann og kemur hvað eftir annað á óvart. Hún situr í manni að áhorfi loknu og ég held að ég þurfi mögulega að horfa á hana aftur til að sjá hvort ég missti af einhverju. Það verður ekki sagt um margar bandarískar kvikmyndir þessa dagana.

Myndin er vel leikin og leikarar trúverðugir í sínum hlutverkum, enda þaulreyndir og mikið hæfileikafólk. Roberts og Hawke eru sannfærandi í hlutverkum samrýmdra en ólíkra hjóna og Maharshala Ali er óaðfinnanlegur í hlutverki dularfulls eiganda glæsihýsisins, heillandi og ógnandi í senn.