Bandamaður Radoslaw Síkorskí kallar eftir frekari stuðningi.
Bandamaður Radoslaw Síkorskí kallar eftir frekari stuðningi. — AFP/Sergei Supinsky
Utanríkisráðherra Póllands, Radoslaw Síkorskí, segir mikilvægt að sendar verði langdrægar eldflaugar til Úkraínu. Gera verði harðar loftárásir á…

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Utanríkisráðherra Póllands, Radoslaw Síkorskí, segir mikilvægt að sendar verði langdrægar eldflaugar til Úkraínu. Gera verði harðar loftárásir á þau svæði sem Rússar nýta til eldflauga- og drónaárása á skotmörk innan landamæra Úkraínu.

Hersveitir Moskvuvaldsins hafa haldið úti umfangsmiklum loftárásum undanfarna daga og hafa loftvarnasveitir Úkraínu því staðið í ströngu. Segir Síkorskí nú þörf á því að svara þessum árásum án tafar. Rússar skilji ekkert nema hörku. Hvetur hann því Vesturlönd, einkum Bandaríkin, til að senda stjórnvöldum í Kænugarði langdrægar eldflaugar, en með þeim má auðveldlega granda skotmörkum innan landsvæðis Rússlands.

Radoslaw Síkorskí segir jafnframt þörf á frekari þvingunum gegn Rússlandi. Koma verði í veg fyrir að hergagnaframleiðendur þar komist yfir erlenda íhluti.

Síkorskí hefur frá því í desember síðastliðnum, þegar hann tók við embætti utanríkisráðherra, verið harður stuðningsmaður Úkraínu. Var hans fyrsta opinbera heimsókn sem ráðherra til Kænugarðs. Við það tilefni sagði hann þörf á því að Vesturlönd stilltu efnahag sinn inn á stórstuðning við Úkraínu.

Umdeild vopn

Lengi hefur verið kallað eftir langdrægum vopnakerfum til Úkraínu. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa þó lýst yfir áhyggjum vegna þess háttar hernaðarstuðnings. Ekki hefur verið vilji til að afhenda flaugar sem nýta má til árása djúpt inni í Rússlandi. Slíkar árásir myndu, að sögn sérfræðinga, kalla á frekari stigmögnun átaka.