Sigursælastir Vilhjálmur Einarsson var kjörinn íþróttamaður ársins fimm sinnum og Ólafur Stefánsson fjórum sinnum. Vilhjálmur óskar Ólafi til hamingju eftir að hann var kjörinn í fjórða sinn árið 2009.
Sigursælastir Vilhjálmur Einarsson var kjörinn íþróttamaður ársins fimm sinnum og Ólafur Stefánsson fjórum sinnum. Vilhjálmur óskar Ólafi til hamingju eftir að hann var kjörinn í fjórða sinn árið 2009. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í kvöld mun 46. íþróttamaðurinn í sögunni hljóta viðurkenninguna Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna…

Best 2023

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Í kvöld mun 46. íþróttamaðurinn í sögunni hljóta viðurkenninguna Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna í árlegu hófi samtakanna og ÍSÍ á Hótel Nordica í Reykjavík.

Kjörið fer fram í 68. skipti frá árinu 1956 og til þessa hafa 45 íþróttamenn, 38 karlar og 7 konur, fengið viðurkenninguna. Nýtt nafn bætist í hópinn í kvöld því enginn þeirra tíu sem höfnuðu í efstu sætunum að þessu sinni hefur áður hlotið nafnbótina.

Þau tíu sem koma til greina í ár eru eftirtalin, í stafrófsröð:

  • Andrea Kolbeinsdóttir, frjálsíþróttir, ÍR.
  • Anton Sveinn McKee, sund, Sundfélag Hafnarfjarðar.
  • Elvar Már Friðriksson, körfuknattleikur, PAOK Saloniki.
  • Gísli Þorgeir Kristjánsson, handknattleikur, Magdeburg.
  • Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrna, Bayern München.
  • Jóhann Berg Guðmundsson, knattspyrna, Burnley.
  • Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund, Aalborg Svömmeklub.
  • Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingar, Breiðablik.
  • Sveindís Jane Jónsdóttir, knattspyrna, Wolfsburg.
  • Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikar, Gerpla.

Ómar Ingi Magnússon handknattleiksmaður hefur hlotið nafnbótina undanfarin tvö ár en hann er ekki í hópi tíu efstu að þessu sinni.

Þetta er í fyrsta skipti sem fleiri konur en karlar eru í hópi tíu efstu í kjörinu en sex konur og fjórir karlar koma til greina að þessu sinni.

Vilhjálmur kjörinn oftast

Vilhjálmur Einarsson frjálsíþróttamaður hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins oftast allra, eða fimm sinnum, en hann var valinn í fimm af fyrstu sex skiptunum, árin 1956, 1957, 1958, 1960 og 1961. Kveikjan að kjörinu var einmitt árangur Vilhjálms á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956 þegar hann hlaut silfurverðlaunin í þrístökki.

  • Ólafur Stefánsson handboltamaður var kjörinn fjórum sinnum, 2002, 2003, 2008 og 2009.
  • Hreinn Halldórsson frjálsíþróttamaður var kjörinn þrisvar, 1976, 1977 og 1979.
  • Einar Vilhjálmsson frjálsíþróttamaður, sonur Vilhjálms, var kjörinn þrisvar, 1983, 1985 og 1988.
  • Örn Arnarson sundmaður var einnig kjörinn þrisvar, 1998, 1999 og 2001.

Þau sem hafa verið kjörin tvisvar eru Valbjörn Þorláksson (frjálsar 1959, 1965), Guðmundur Gíslason (sund 1962, 1969), Ásgeir Sigurvinsson (knattspyrna 1974, 1984), Skúli Óskarsson (kraftlyftingar 1978, 1980), Jón Arnar Magnússon (frjálsar 1995, 1996), Eiður Smári Guðjohnsen (knattspyrna 2004, 2005), Gylfi Þór Sigurðsson (knattspyrna 2013, 2016), Sara Björk Gunnarsdóttir (knattspyrna 2018, 2020) og Ómar Ingi Magnússon (handknattleikur 2021, 2022).

Frjálsíþróttafólk í 21 skipti

Frjálsíþróttafólk hefur oftast verið kjörið, ellefu einstaklingar í samtals 21 skipti af 66, en þó aldrei frá því Vala Flosadóttir fékk titilinn árið 2000.

Handknattleiksfólk hefur fengið titilinn 14 sinnum, tíu einstaklingar, og knattspyrnufólk 13 sinnum, níu einstaklingar.

Sund (9 sinnum), kraftlyftingar (4), körfuknattleikur (2), júdó, hestaíþróttir, þolfimi og golf hafa einnig átt sigurvegara í kjörinu.

Karlar hafa sigrað í kjörinu í 59 skipti en konur í átta skipti. Konur hafa hins vegar verið kjörnar þrisvar á síðustu sex árum.

Talsverð kaflaskil urðu í kjörinu um aldamótin. Fram til ársins 2000 komu 33 sigurvegarar í kjörinu úr einstaklingsíþróttum en 11 úr hópíþróttum. Þetta hefur snúist við því frá aldamótum hafa 18 sigurvegarar komið úr hópíþróttum en fimm úr einstaklingsíþróttum.

Þjálfari og lið ársins

Í kvöld hljóta einnig þjálfari ársins 2023 og lið ársins 2023 viðurkenningar frá Samtökum íþróttafréttamanna en þær hafa verið veittar í hófi samtakanna frá árinu 2012.

Þau þrjú lið sem koma til greina eru karlalið Tindastóls í körfuknattleik, karlalið Víkings í knattspyrnu og kvennalið Víkings í knattspyrnu.

Þjálfararnir þrír sem koma til greina eru Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í knattspyrnu, Pavel Ermolinskij, þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfuknattleik, og Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik.

Höf.: Víðir Sigurðsson