Stofnandinn Axel Jónsson hefur starfað við matreiðslu í yfir hálfa öld.
Stofnandinn Axel Jónsson hefur starfað við matreiðslu í yfir hálfa öld.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veitingamaðurinn Axel Jónsson byrjaði með fyrirtækið Skólamat ehf. fyrir tæplega 25 árum og sá þá ásamt einum starfsmanni um mat fyrir börn í fimm leikskólum í Hafnarfirði

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Veitingamaðurinn Axel Jónsson byrjaði með fyrirtækið Skólamat ehf. fyrir tæplega 25 árum og sá þá ásamt einum starfsmanni um mat fyrir börn í fimm leikskólum í Hafnarfirði. Nú vinna 205 manns hjá fyrirtækinu sem er með 12 bíla í útkeyrslu og sér um mat fyrir 45 grunnskóla og 40 leikskóla á Stór-Reykjavíkursvæðinu, frá Mosfellsbæ suður í Sandgerði. „Við útbúum um 16.200 matarbakka á dag,“ segir hann.

Axel var formaður skólanefndar Reykjanesbæjar þegar Alþingi samþykkti lög um grunnskóla (1991 nr. 49) þar sem kom fram að nemendur skyldu eiga kost á málsverði á skólatíma. „Þá fékk ég hugmyndina um skólamat en fékk ekki stuðning við hana og hún varð ekki að veruleika fyrr en mat vantaði í fimm leikskóla í Hafnarfirði og ég stökk á verkefnið.“

Erfið byrjun

Erfitt var að komast á samning í greinum eins og smíði, rafvirkjun og rafeindavirkjun á seinni hluta sjöunda áratugarins, að sögn Axels. „Ég fékk hvergi samning,“ segir hann en með hjálp móður sinnar hafi hann komist í Hótel- og veitingaskólann, fengið samning á Hótel Loftleiðum og útskrifast sem matreiðslumaður 1972.

Axel var skólabryti Héraðsskólans á Laugarvatni 1973 til 1978 og segir að það hafi verið góður skóli. „Þar lærði ég mikið.“ Hann segir mikla kúnst að framleiða ódýran en góðan mat eins og skólamaturinn sé og hugsa þurfi fyrir hverju smáatriði. Því hafi hann einbeitt sér að verkefninu og hætt öðru, en áður var hann með Veisluþjónustuna, veitingastaðinn Glóðina í Keflavík og sá um flugvélamat fyrir Arnarflug og Atlanta.

Hugmyndir eru til alls fyrstar en Axel segir að enginn hafi haft trú á Veisluþjónustunni þegar hann byrjaði með fyrirtækið 1978. „Þegar ég sagðist vera með veisluþjónustu spurði fólk hvað ég ynni við.“ Sama hafi verið uppi á teningnum varðandi skólamatinn. Enginn hafi haft trú á þeim rekstri, en hann hafi haft viljann og trú á verkefninu. Hann hafi tapað miklu þegar Arnarflug fór á hausinn en náð sér á strik á ný. „Aðalatriðið er að vera heiðarlegur í viðskiptum.“ Hann leggur líka áherslu á að hann hafi alltaf verið með gott starfsfólk. „Ég hef oft lent á vegg en leyst málin. Þetta hefur verið eitt stórt ævintýri.“

Þegar börnin voru að taka reksturinn yfir varð Axel að finna sér eitthvað að gera. „Ég átti ekkert annað áhugamál og ákvað að læra golf þegar ég var 64 ára 2014. Við fórum til Flórída, vorum þar í tvo mánuði, ég lærði golf og hef verið í því í öllum frístundum síðan.“

Í fyrrasumar var opnað nýtt eldhús í 1.500 fm rými á Iðavöllum 1 í Reykjanesbæ. Fanney og Jón, börn Axels og Þórunnar Halldórsdóttur, hafa tekið við rekstrinum en Axel er stjórnarformaður og fylgist vel með gangi mála. „Ég er hugmyndasmiðurinn og kíki í kaffi á hverjum morgni.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson