Kveðja Skipið skríður frá landi með góðum óskum frá Þorsteini Má.
Kveðja Skipið skríður frá landi með góðum óskum frá Þorsteini Má. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Forstjóri Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson, lét sig ekki vanta á bryggjurnar á Akureyri í fyrrinótt er skip félagsins héldu aftur til veiða eftir frí áhafna um jól og áramót. Í gegnum tíðina hefur Þorsteinn Már gjarnan og þegar tækifæri gefst leyst landfestar skipa þegar haldið er á haf út

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Forstjóri Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson, lét sig ekki vanta á bryggjurnar á Akureyri í fyrrinótt er skip félagsins héldu aftur til veiða eftir frí áhafna um jól og áramót. Í gegnum tíðina hefur Þorsteinn Már gjarnan og þegar tækifæri gefst leyst landfestar skipa þegar haldið er á haf út. Á myndinni sést Þorsteinn Már veifa til skipverja á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 sem nú er farinn til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu.

Flest uppsjávarskip íslenska flotans eru nú á leiðinni á þessi mið, en þar mega þau veiða skv. samkomulagi milli Íslands og Færeyja um slíkar veiðar úr flökkustofnum. Aflanum verður að öllum líkindum landað á Íslandi, en hér fer hann í bræðslu. Þá er yfirleitt farið í hafnir á Austfjörðum, þar sem stóru fiskimjölsverksmiðjurnar eru staðsettar.

Ísfiskstogarar Samherja, sem eru samtals fimm, eru líka farnir til veiða en þeir sjá vinnsluhúsum félagsins á Akureyri og Dalvík fyrir hráefni. Allt miðast við að halda uppi stöðugri vinnslu og stífum áætlunum þar sem kröfur viðskiptavina marka brautina. Skipstjórar sækja þangað þar sem helst er fisks að vænta og hyggjuvitið bregst þeim sjaldnast í þeim efnum. Vísir menn vita hvar helst er afla að fá og flýgur fiskisagan, eins og máltækið segir.