Guðbjörg Halla Björnsdóttir fæddist á fæðingardeild Landspítalans 8. ágúst 1953. Hún lést á Hrafnistu Sléttuvegi 19. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Gunnvör Braga Sigurðardóttir, f. í Flatey á Breiðafirði 13. júlí 1927, d. 1. júní 1992, og Björn Óskar Einarsson, f. á Stöðvarfirði 10. maí 1924, d. 7. janúar 1993.

Systkini Guggu eru Hildur Guðný, f. 26. apríl 1944, maki Þórarinn Tyrfingsson; Arndís, f. 26. ágúst 1945; Birna Sigríður, f. 8. janúar 1947, d. 21. mars 1997; Gunnvör Braga, f. 1. febrúar 1951, maki Gestur Þorsteinsson; Einar Valgarð, f. 16. apríl 1952, maki Hafdís Þórðardóttir; Kolbrún Þóra, f. 10. ágúst 1954, maki Jón Þorbergur Oliversson; Hjalti Þór, f. 6. mars 1956. Maki María Marta Einarsdóttir, þau skildu. Sambýliskona Jóna Margrét Ólafsdóttir; Halldóra Kristín, f. 24. júlí 1957, d. 3. mars 1958; Sigurður Benedikt, f. 28. október 1959.

Guðbjörg eignaðist Hilmar Þór Reynisson 13. maí 1978, faðir hans er Reynir Bárðarson. Hilmar Þór lést í bílslysi 7. janúar 1996. Guðbjörg giftist Marteini Jónssyni, f. 27. júní 1952, þau skildu. Sonur þeirra var Jón Björn, f. 6. júlí 1984, hann lést á krabbameinsdeild LSH 14. mars 2012. Jón Björn kvæntist 2011 Guðbjörgu Erlu Ragnarsdóttur, f. 8. október 1980.

Gugga gekk í Barnaskóla Kópavogs til 12 ára aldurs. Hún var tvo vetur í Gagnfræðaskóla Kópavogs. Hún fór í Hlíðardalsskóla, hún eignaðist góða vini þar.

Gugga fór í starfsnám fatlaðra þar sem hún lærði m.a. vélritun sem kom sér vel síðar á ævinni þegar hún fór að nota tölvu. Tölvuna nýtti hún í samskiptum við menn og málefni, m.a. á Facebook.

Hún var mikil hannyrðakona og eftir hana liggja fallegar útsaumaðar myndir. Hún hélt myndlistarsýningu á 60 ára afmælinu sínu til minningar um syni sína tvo.

Gugga var virk í félagsmálum, hún var í stjórn Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og tók þátt í uppsetningum Halaleikhópsins til margra ára.

Hún stjórnaði félagsvist í Hátúni allt þar til minnið fór að gefa sig. Hún starfaði á ýmsum stöðum en hennar aðalstarf var á róluvöllum Kópavogsbæjar, hún var hænd að börnum og þau að henni og Stelluróló var hennar besti vinnustaður.

Gugga var dugleg að ferðast innanlands og utan bæði með manni sínum og sonum en einnig systkinum.

Útför Guðbjargar Höllu Björnsdóttur fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 4. janúar 2024, klukkan 13.

Það er skrítið að kveðja yndislegu systur mína hana Guggu.

Við Gugga höfum fylgst að frá því ég fæddist. Hún ári eldri en ég, agnarsmá og fínleg. Gugga vildi gera allt sem við hin systkinin gátum og gerðum. Þannig var þessi sterka systir mín alin upp til að geta og gera allt sem hún vildi og meira til.

Gugga var fötluð og gekk við hækjur alla ævi. Hún þurfti að vera í spelkum sem barn og sérsmíðuðum skóm sem henni þóttu ljótir og hún átti sér þann draum að eiga venjulega skó eins og við hin systkinin.

Gugga var hamingjusamt barn. Hún var ákveðin og með sterkan karakter. Hún var alin upp í stórum systkinahópi og með frændgarð sem elskaði hana.

Gugga eignaðist tvo stráka, Hilmar Þór og Jón Björn, og það sem hún var stolt af þeim. Hún átti drauma og hlakkaði til framtíðar með þeim. Þeir voru hennar gleðigjafar og það var mikið fjör í kringum þá og hún hlakkaði til að verða amma. En örlögin höguðu því þannig að allt snerist á hvolf og veröldin varð aldrei söm. Fyrst missti hún Hilmar Þór sem lést í bílslysi aðeins 17 ára gamall og reyndist það bæði henni og Jóni Birni óbærilega erfitt. Þau stóðu samt saman í gegnum þá sorg en svo veiktist Jón Björn af krabbameini sem dró hann að lokum til dauða þegar hann var 27 ára gamall. Gugga lét þrátt fyrir allt ekki deigan síga og vann í sinni sorg og hélt áfram skref fyrir skref alltaf áfram í átt að betri líðan. Hún saumaði sig út úr sorginni og hélt myndlistarsýningu á 60 ára afmælisdaginn sinn til minningar um syni sína.

Henni fannst drengirnir alltaf vera hjá sér og þrátt fyrir missinn fann hún fyrir nærveru þeirra hvert sem hún fór.

Fyrir nokkrum árum fór að bera á minnisleysi hjá Guggu, hún sem hafði alltaf verið með allt á hreinu og við hin gátum leitað til hennar með öll smáatriði eins og afmælisdaga allra í ættinni, símanúmer hjá ótrúlegasta fólki og nöfn og staðreyndir. Einnig hélt hún utan um hversu margir afkomendur foreldra okkar voru orðnir.

Þrátt fyrir að minnið færi versnandi þá gleymdi hún aldrei gleðinni og alltaf var stutt í hláturinn.

Hún lærði á tölvu og fylgdist í lengstu lög með okkur öllum í gegnum facebook og bauð góðan daginn þar á hverjum degi og fylgdist með því hverjir svöruðu henni og lækuðu.

Gugga var alla tíð ættrækin, veisluglöð, vinmörg og elskaði að vera þar sem gleði ríkti og hlátur.

Eftir að hún flutti á Hrafnistu Sléttuvegi og allt skall í lás við covid þá lærði hún á messenger og skype þrátt fyrir að minnið væri að hverfa.

Við höfum verið saman frá því ég fæddist, systur, vinkonur og félagar. Það verður erfitt að vera án hennar því hún gaf mér svo mikið með lífi sínu og æðruleysi.

Gugga systir mín er farin og ég trúi því að hún hlaupi nú um með strákunum sínum og það sé hátíð á himnum.

Gugga er komin heim.

Takk fyrir allt.

Þín systir,

Kolbrún Þóra Björnsdóttir (Kolla).

Elsku fallega, sterka Gugga mín. Ævi þín var sérstök, þú varst hetjan mín frá því þú fæddist svo agnarsmá, aðeins sex merkur, löngu fyrir tímann. Komst heim til okkar ári eftir að þú fæddist, við fengum ekki að heimsækja þig, sem var svo sárt, það var ekki leyft á þeim tíma. Þú varst ennþá agnarsmá. Þú dafnaðir vel hjá mömmu og pabba. Svo fékkstu fyrstu hækjurnar þínar sem þú lærðir á og notaðir allt þitt líf það breytti öllu fyrir þig. Þú varst einstök frá upphafi til enda lífs þíns. Þú hélst áfram að þroskast. Þú fórst ung í sumarbúðir í Reykjadal sem voru nýstofnaðar og dvaldir þar í mörg ár. Þú dvaldir hjá ömmu Guðnýju á Laugarvatni og fór hún með þig í sund alla daga og þar naustu þín og gast hreyft þig frjáls. Þú eignaðist tvo drengi, Hilmar Þór og Jón Björn, og nú naust þú þín sem móðir, pabbi og mamma studdu við bakið á þér alla tíð. Þú bjóst lengst af í íbúðum hjá Kópavogsbæ. Þú elskaðir drengina þína svo mikið og umvafðir þá ást alla tíð. Þá skall á þér harmleikur þegar Hilmar lést í bílslysi. Áfram hélstu og bjóst ykkur Jóni fallegt heimili í mörg ár. Þá veiktist hann af illum sjúkdómi, þá studdir þú hann allt til loka. Þá hélt ég að þú myndir guggna, en þú hélst ótrauð áfram, saumaðir út myndir og hélst sýningu á þeim á 60 ára afmælinu þínu og komst í gegnum sorg þína. Seldir myndirnar og gafst krabbameinsdeildinni til minningar um þá. Það fór að halla á líf þitt og þú þurftir mikla hjálp, sem þú fékkst á Hrafnistu Sléttuvegi. Þar var hugsað svo vel um þig og þar varstu til endaloka lífs þíns.

Ég vil þakka öllum á Sléttuvegi fyrir undurgóða og kærleiksríka umönnun. Elsku hetjan mín Gugga, takk fyrir allt sem þú kenndir mér og gafst. Góða ferð í draumalandið elskan og sjáumst síðar.

Þín systir,

Braga.