Heimili og gallerí Ólöf keypti rúmgóða íbúð við Álafoss og nýtir hana til sýninga.
Heimili og gallerí Ólöf keypti rúmgóða íbúð við Álafoss og nýtir hana til sýninga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mér hefur alltaf fundist þetta ótrúlega spennandi staður en ég bjó áður í Hafnarfirði,“ segir Ólöf Björg Björnsdóttir myndlistakona í samtali við Morgunblaðið en hún hefur breytt heimili sínu við Álafoss í Mosfellsbæ í gallerí og…

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Mér hefur alltaf fundist þetta ótrúlega spennandi staður en ég bjó áður í Hafnarfirði,“ segir Ólöf Björg Björnsdóttir myndlistakona í samtali við Morgunblaðið en hún hefur breytt heimili sínu við Álafoss í Mosfellsbæ í gallerí og vinnustofu og heldur nú sýningar þar sem opnar eru gestum og gangandi.

Segir Ólöf vin sinn hafa bent á að íbúð væri til sölu á þessu rómaða svæði umhverfis Varmána. Það hafi verið íbúðin fyrir neðan þá sem hún nú býr í. „Ég náði henni ekki en var búin að koma auga á að íbúðin fyrir ofan væri líka til sölu, mun stærri íbúð,“ útskýrir Ólöf. „Ég ákvað að láta reyna á þetta, ég hafði áður opnað heimili mitt, sem var bara blokkaríbúð, og boðið fólki þangað, gerði það í tvígang,“ segir listakonan sem fæst ekki einvörðungu við hefðbundna myndlist á striga heldur einnig innsetningar og gjörninga.

Hún hefur haldið opið hús fimm sinnum við Álafoss „og eitt sinn sýndi listapúkinn Þórir Gunnarsson hjá mér. Mér finnst eitthvað svo náttúrulegt að flytja inn á stað sem gæti verið menningarhús og það um lengri tíma þannig að ég gæti gefið af mér til samfélagsins og fengið að njóta þess að starfa hér,“ segir Ólöf en blaðamann fýsir að vita meira um óhefðbundnari listsköpun og fær þá sögu af „lífrænum skúlptúr“ sem Ólöf kallar svo og kannski borgaði sig ekki að spyrja um – í það minnsta ekki rétt áður en borðað er.

15 ósvöruð símtöl

„Þetta var flísalagður veggur og ég hafði málað postulínsmynstur á flísarnar en inni í veggnum voru vakúmpökkuð hjörtu og nýru,“ segir Ólöf frá og blaðamaður spyr hikandi hvort henni hafi tekist að kría líffæri úr manneskjum út úr heilbrigðiskerfinu en ekki var það nú svo. „Nei nei, ég fékk þau nú bara í Fjarðarkaupum,“ játar myndlistakonan hafnfirska og hlær við.

Hún hafi fyrst sett verkið upp á Óðinstorgi fyrir utan Nýlistasafn Íslands, en til stóð að sýna verkið í Artíma galleríi þar fyrir innan. Það hafi svo verið fært inn í kjölfarið. „Ég var í heimspeki uppi í háskóla á þessum tíma og fékk símtal þar sem mér var tjáð að þessi vakúmpakkaði poki hafi verið farinn að bólgna býsna mikið,“ segir hún frá.

„Er þetta hluti af pælingunni á bak við verkið, að pokinn bólgni?“ segir Ólöf starfsmanninn á safninu hafa spurt hana. „Það var nú ekki ætlun mín en ég fór bara inn í tíma aftur og kláraði hann – mig minnir að hann hafi verið um gagnrýna hugsun. Svo kem ég út þegar kennslu lauk og leist ekkert á blikuna þegar ég dró upp símann,“ segir Ólöf frá.

Skjárinn hafi sýnt fimmtán ósvöruð símtöl, merkilegt nokk öll frá sama hringjanda – Nýlistasafni Íslands. „Þegar ég hringi til baka segir hún að þau hafi því miður þurft að henda verkinu mínu,“ segir Ólöf og getur ekki varist hlátri.

Gat ekki borðað kjöt

Það sem eftir hafi verið af innyflaverkinu hafi verið komið fram í anddyri safnsins og á aðaldyrum þess verið hengd upp tilkynning á áberandi stað þar sem væntanlegum safngestum var tilkynnt að safnið yrði lokað um stund vegna óviðráðanlegra aðstæðna.

„Veggurinn stóð sem sagt tómur úti við dyr og þetta hafði ýmis áhrif, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir myndlistakona, sem líka var með verk á sýningunni, gat til dæmis ekki borðað kjöt, ég veit ekki hvort hún er byrjuð á því aftur núna, en hún gat ekki borðað það í lengri tíma,“ segir Ólöf frá og nær að hemja hláturinn að þessu sinni af tillitssemi við starfssystur sína.