Orka Atlantsorka verður markaðssett á svipaðan hátt og Atlantsolía, með léttleika í kringum vörumerkið.
Orka Atlantsorka verður markaðssett á svipaðan hátt og Atlantsolía, með léttleika í kringum vörumerkið. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Raforkufyrirtækið Atlantsorka, dótturfyrirtæki Atlantsolíu, hyggst reisa fimm hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla árið 2024. Rakel Björg Guðmundsdóttir markaðsstjóri Atlantsolíu segir í samtali við Morgunblaðið að allar hleðslustöðvarnar verði settar upp á lóðum bensínstöðva Atlantsolíu

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Raforkufyrirtækið Atlantsorka, dótturfyrirtæki Atlantsolíu, hyggst reisa fimm hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla árið 2024.

Rakel Björg Guðmundsdóttir markaðsstjóri Atlantsolíu segir í samtali við Morgunblaðið að allar hleðslustöðvarnar verði settar upp á lóðum bensínstöðva Atlantsolíu.

Atlantsorka var stofnuð á síðasta ári til að bjóða viðskiptavinum upp á fjölbreyttari orkugjafa í ljósi þróunar á samsetningu bílaflotans, að sögn Rakelar. „Markmið félagsins er að bjóða ávallt hagstætt og samkeppnishæft verð til neytenda, lágmarksyfirbyggingu og einfaldleika í þjónustu – sem sagt jákvæðari orku fyrir heimili og fyrirtæki í landinu,“ segir hún.

Fer vel af stað

Rakel segir að raforkusala Atlantsorku hafi farið vel af stað og hún sé ánægð með byrjunina.

„Þetta er nýr markaður fyrir okkur. Hann lýtur talsvert öðrum lögmálum en eldsneytismarkaðurinn,“ segir Rakel en orkuna fær Atlantsorka frá Landsvirkjun.

Spurð um hvar Atlantsorka staðsetji sig í samkeppninni segir Rakel að fyrirtækið sé í lægsta verðþrepinu.

„Við munum markaðssetja Atlantsorku á svipaðan hátt og Atlantsolíu, með léttleika í kringum vörumerkið,“ segir Rakel.

Vörumerki ársins

Atlantsolía fékk á dögunum tilnefningu sem vörumerki ársins hjá vörumerkjastofunni Brandr. Rakel segir að markaðsstarfi fyrirtækisins sé ætlað að styðja við þá framtíðarsýn Atlantsolíu að vera best rekna olíufélag Íslands og leiðandi í sölu á ódýru eldsneyti til einstaklinga og fyrirtækja.

„Við viljum ná tengingu við viðskiptavini og miðla til þeirra upplýsingum sem skipta máli ásamt því að gera daginn mögulega aðeins skemmtilegri,“ segir hún.

Rakel segir að fyrirtækið sé á góðri leið með að ná markmiði sínu. Félagið skili góðum rekstri sem oft sé framúrskarandi. Fyrirtækið er í dag með um 20% markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Öflug tól

Nánar um áherslur í markaðsmálum segir Rakel að útvarpið sé stærsti birtingarmiðill Atlantsolíu. Þá séu umhverfismiðlar ört stækkandi í birtingaráætlunum félagsins.

„Þessum stóru skjáum fer fjölgandi í borgarlandslaginu. Þeir eru gríðarlega öflug tól og nýtast okkar vörumerki vel. Við erum að reyna að ná til fólks á ferðinni, fólks í bílum sem þarf að fylla tankinn. Við höfum skilaboðin einföld til að þau nái hratt inn í vitundina.“

Mælingar Gallups sýna góða vörumerkjavitund hjá Atlantsolíu, að sögn Rakelar.

„Þær sýna svart á hvítu að við mælumst hæst meðal olíufélaganna. Við erum að meðaltali að skora hátt í 45-50% vitund. Við getum ekki annað en verið ákaflega sátt við það.“

Fleiri spennandi nýjungar eru væntanlegar frá Atlantsolíu. Fljótlega verður nýtt app kynnt til sögunnar.

„Appið verður bæði greiðslumiðill og með vildarkerfi. Það mun halda utan um þína notkun,“ segir Rakel að lokum.

Atlantsolía

  • Minnsta olíufélagið á landinu
  • 25 bensínstöðvar
  • 10 starfsmenn
  • Lykilorð í markaðsstarfi: einfalt – ódýrt – skemmtilegt
  • Mælingar Gallup sýna góða vörumerkjavitund
  • Atlantsorka fær raforku frá Landsvirkjun
Höf.: Þóroddur Bjarnason