Fundarhöld Viðræðurnar fara fram í húsnæði ríkissáttasemjara.
Fundarhöld Viðræðurnar fara fram í húsnæði ríkissáttasemjara. — Morgunblaðið/Kristinn
Viðræðum samninganefnda breiðfylkingar landssambanda og stéttarfélaga innan ASÍ og Samtaka atvinnulífsins var haldið áfram í húsnæði ríkissáttasemjara í gær. Góður tónn var í viðsemjendum sem rætt var við í gær, en þeir sögðu þó ljóst að mikil vinna …

Viðræðum samninganefnda breiðfylkingar landssambanda og stéttarfélaga innan ASÍ og Samtaka atvinnulífsins var haldið áfram í húsnæði ríkissáttasemjara í gær.

Góður tónn var í viðsemjendum sem rætt var við í gær, en þeir sögðu þó ljóst að mikil vinna væri fram undan, reiknað er með stífum fundarhöldum næstu daga og hafa vinnuhópar verið settir í verkefni.

Vilhjálmur Birgisson formaður SGS sagði að „ofboðslega góður samhljómur“ væri á milli SA og verkalýðshreyfingarinnar sem þátt tekur í viðræðunum en hann hefði ögn meiri áhyggjur af því hvað stjórnvöld myndu gera, „því að við erum að tala hér um að endurreisa tilfærslukerfin, barnabætur, húsaleigubætur og vaxtabætur, sem hanga á þessari spýtu, hvort okkur takist þetta eða ekki“.

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA kvaðst finna fyrir einlægum samningsvilja stéttarfélaganna. Allir þurfi að axla ábyrgð þegar markmiðið sé að lækka verðbólgu og stýrivexti. „Við finnum hversu mikil samstaða er á milli stéttarfélaganna um þessi mikilvægu markmið. Við erum líka með afdráttarlausa yfirlýsingu um stuðning við þessi markmið frá stjórninni okkar,“ sagði hún fyrir fundinn í gær. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR kvaðst reikna með að samningsaðilar myndu kalla eftir afstöðu stjórnvalda fyrir vikulok.