Tónskáld Jules Massenet árið 1895.
Tónskáld Jules Massenet árið 1895. — Ljósmynd/Eugène Pirou, Gallica Digital Library
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Werther er að mörgu leyti dálítið sérstök ópera þar sem tilfinningaþungi ætlar á köflum að keyra úr öllu hófi en þess á milli skýtur hversdagsleikinn upp kollinum, svo sem í jólasöng barnanna í fyrsta þætti og svo í blálokin.

Af tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það er stundum sagt að sagan sem fjögurra þátta óperan Werther eftir Jules Massenet er reist á, Raunir Werthers unga eftir Johann Wolfgang Goethe, hafi orðið til þess að karlmenn þorðu að bera tilfinningar sínar á torg; það þótti ekki lengur skammarlegt að komast við á almannafæri. Skáldsagan kom út 1774 og vakti gríðarlega athygli. Þar gætti áhrifa þýsku bókmenntastefnunnar „Sturm und Drang“ sem var forboði rómantísku stefnunnar. Einkenni hennar voru meðal annars áhersla á hið einstaklingsbundna; tilfinningalegt frelsi einstaklingsins sem og trúarlegt og félagslegt.

Áhrif skáldsögu Goethes, sem að hluta til er byggð á sannsögulegum atburðum, eru óumdeild en margt er á huldu um hvers vegna Massenet ákvað að semja óperu við söguna meira en öld eftir að hún kom fyrst út. Sjálft sagðist tónskáldið hafa kynnst Raunum Werthers unga á leið heim frá Bayreuth 1886, eftir að hafa verið viðstaddur sýningu á Parsifal. Á heimleiðinni til Parísar dvaldi Massenet um stund í Wetzlar skammt frá Frankfurt am Main, einmitt þar sem skáldsaga Goethes á að gerast. Samkvæmt endurminningum sínum, sem þykja í besta falli afar óáreiðanlegar ef ekki beinlínis skáldskapur, fékk Massenet hugljómun í Wetzlar og til varð draumur Werthers, arían fræga sem við þekkjum sem „Pourquoi me réveiller?“

Dálítið sérstök ópera

Þessi tilurð hefur verið dregin mjög í efa og ýmsir bent á að hún sé meira í ætt við það sem Massenet hefði óskað sér, fremur en sannleikann. Tónskáldið nefnir Werther sem hugsanlegt yrkisefni í óperu í bréfi til útgefanda síns, Georges Hartmanns, þegar árið 1880 og jafnvel er talið hugsanlegt að Massenet hafi unnið að líbrettóinu á sama tíma og hann samdi óperuna Manon sem var frumflutt í Opéra-Comique í París 1884. Hvað um það, óperan um skáldið Werther var fullsamin 1887 og Massenet sendi hana til Léons Carvalhos, óperustjórans í Opéra-Comique í París; hann hafnaði hins vegar verkinu á þeim forsendum að það væri of drungalegt. Það er því nokkur kaldhæðni að þessi franska ópera var frumflutt í Vínarborg í febrúar 1892 við ágætar undirtektir og það á þýsku. Hún komst á fjalir Opéra-Comique tæpu ári síðar, það er að segja í janúar 1893, en hlaut fremur dræmar viðtökur. Það var svo ekki fyrr en tíu árum síðar, réttar sagt 1903, að Werther sló í gegn í París og þá í nýrri uppfærslu og óperan hefur allar götur síðan notið hylli, ekki síst í París þar sem hún hefur verið sýnd yfir þrettán hundruð sinnum.

Werther er að mörgu leyti dálítið sérstök ópera þar sem tilfinningaþungi ætlar á köflum að keyra úr öllu hófi en þess á milli skýtur hversdagsleikinn upp kollinum, svo sem í jólasöng barnanna í fyrsta þætti og svo í blálokin. Við erum líka í þeirri undarlegu stöðu að mjög ólíkar raddtegundir geta sungið bæði titilhlutverkið og hlutverk Charlotte. Núorðið er hlutverk Werthers oftast sungið af lýrískum tenórum en Ernest van Dyck, söngvarinn sem frumflutti hlutverkið, var frægur hetjutenór um sína daga sem söng meðal annars bæði Parsifal og Lohengrin í Bayreuth. En Werther var einnig eitt af uppáhaldshlutverkum Titos Schipa sem er sennilega eins ólíkur hinum dæmigerða hetjutenór og hugsast getur.

Óperan Werther gerist seint á 18. öld í bænum Wetzlar, sem eins og fyrr segir er skammt frá Frankfurt am Main, og segir frá skáldinu Werther, sem á að vera tuttugu og þriggja ára, og ást hans á Charlotte, um það bil tvítugri dóttur bæjarstjórans. Hún er hins vegar heitbundin öðrum, Alberti, sem hún gengur að eiga í óperunni. Werther getur ekki hugsað sér að lifa án Charlotte og fremur sjálfsmorð með byssu Alberts í lok verksins, það er að segja þegar smám saman hefur komið í ljós í óperunni að ást hans verður ekki endurgoldin, nema þá kannski aðeins í orði.

Þó svo skáldsögu Goethes sé fylgt í öllum aðalatriðum – endinum er örlítið breytt, þó ekki efnislega – gerðu textahöfundar óperunnar, Blau, Milliet og Hartmann, nokkrar breytingar á vægi persóna; þannig skipar Charlotte mun veigameiri sess í óperunni – en hún er nánast aukapersóna hjá Goethe – og systir hennar, Sophie, er líka meira áberandi. Hlutverk Alberts, eiginmanns Charlotte, er hins vegar ekkert sérstaklega stórt hjá Massenet en það er engu að síður mikilvægt og hentar vel fyrir söngleikara, ekki síst í lok þriðja þáttar.

Það má kannski segja með réttu að tónlistin í Werther sé dálítið öfgafull og þá á ég ekki við að hún sé að neinu leyti gróf, heldur fer hún frá því að vera mjög viðkvæm og frábærlega lýrísk yfir í að vera ofboðslega tilfinningaþrungin og endurspeglar þannig tilfinningaskalann í verkinu. Með fallegri stöðum er miðnæturtónlistin í fyrsta þætti sem leiðir inn í fyrsta dúett þeirra Werthers og Charlotte þar sem hann lýsir tilfinningum sínum í garð hennar; þær getur hún ekki endurgoldið þar sem hún er lofuð Alberti.

Í öðrum þætti verður ljóst að aldrei verður neitt úr sambandi Werthers og Charlotte; hún ítrekar hollustu við eiginmann sinn en um leið má heyra að hún er hreint ekki tilfinningalaus í garð skáldsins. Tilfinningar hennar koma þó skýrast í ljós í þriðja þætti, í bréfaatriðinu svonefnda, þar sem Charlotte, ein að kvöldi jóladags, les úr sendibréfum frá Werther. Tónlistarlega finnst mér þetta besti kaflinn í verkinu og hann býður upp á margs konar túlkun.

Deyr hamingjusamur

Þrasað hefur verið um hvort hlutverk Charlotte sé skrifað fyrir mezzósópran eða sópran. Massenet er talinn hafa haft ákveðna sópransöngkonu í huga þegar hann samdi verkið og það var einnig sópransöngkona sem frumflutti hlutverkið í Vínarborg 1892. Það var hins vegar ung mezzósópransöngkona, Marie Delna, sem söng Charlotte þegar óperan Werther var frumflutt í Frakklandi.

Ég nefndi hér að ofan að hlutverk Alberts væri ekkert sérstaklega stórt. Það er þó einkar mikilvægt í lok þriðja þáttar þegar Werther biður um að fá lánaðar byssur Alberts undir því yfirskini að hann hyggist halda í langt ferðalag. Bæði Albert og Charlotte vita hins vegar að tilgangurinn er allt annar og vitandi fullvel um tilfinningar Charlotte í garð Werthers skipar Albert ískaldur þjóni sínum að færa Werther byssurnar. Þegar Albert er á braut heldur Charlotte af stað í leit að Werther, biðjandi þess að hún finni hann áður en það er um seinan.

Auðvitað finnur Charlotte Werther of seint; hann er særður til ólífis og uppistaðan í fjórða þætti er ástardúett þar sem Charlotte viðurkennir að hafa elskað Werther frá fyrsta degi og hann segist deyja hamingjusamur vitandi hið sanna um tilfinningar hennar. Um leið og verkinu lýkur heyrum við börnin syngja jólasöngva, svona rétt til þess að minna okkur á hversdagsleikann.

Werther hefur átt góðu gengi að fagna á hljóðritunum. Þær eru að vísu ekki ýkja margar (21 talsins) en flestar upptökur sem gerðar hafa verið af óperunni eru býsna góðar og það sem meira er, þær er flestar hægt að nálgast á streymisveitum. Eigi ég að mæla með einni upptöku (sem er ekki auðvelt) hlýtur það að vera hljóðritunin sem sir Colin Davis gerði með þeim José Carreras og Fredericu von Stade (auk þeirra Isobel Buchanan, Thomasi Allen og Roberti Lloyd) frá Philips (1980). Söngurinn er afbragð og hljómsveit Konunglegu óperunnar í Covent Garden leikur einstaklega vel. Hljóðið er framúrskarandi en upptakan vann einmitt til Gramophone-verðlauna fyrir upptökutækni á sínum tíma.

Höf.: Magnús Lyngdal