Jakub „Textinn er fallegur og flæðir skemmtilega, oft með óvæntri og frumlegri notkun mynda og orða.“
Jakub „Textinn er fallegur og flæðir skemmtilega, oft með óvæntri og frumlegri notkun mynda og orða.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóð Stjörnufallseyjur ★★★·· Eftir Jakub Stachowiak. Dimma, 2023. Mjúkspjalda, 71 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Líklegt má telja að einhverjir sem hafa íslensku að móðurmáli hefðu kallað þessa bók „Stjörnuhrapseyjar“ hefðu þeir skrifað hana. En Stjörnufallseyjur er heitið góða sem höfundurinn, Jakub Stachowiak, gaf verkinu, og sýnir það vel hvernig skáldið leikur sér skemmtilega með íslenskuna. Hann snýr iðulega svolítið upp á hana, beitir orðum og hugmyndum í málinu með öðrum hætti en við sem tökum tungunni sem sjálfsagðri, skoðar setningar og mótar með sínum hætti, oft frumlega og á fallega leikandi hátt.

Jakub hefur aðeins verið búsettur á Íslandi í um sjö ár en vakti fljótlega athygli fyrir traust tök á íslensku máli, og skemmtilega og orðríka beitingu þess. Hann hefur BA-gráðu í íslensku og hefur lokið meistaragráðu í ritlist. Og hann hefur helgað sig skrifum og skáldskap, aðeins á íslensku því hann kveðst ekki skrifa skáldskap á pólsku. Jakub er líka æði afkastamikill í skrifunum, það er eins og hann megi engan tíma missa í sínu nýja málsamfélagi og verkin flæða frá honum; á síðustu tveimur árum þrjár ljóðabækur og að auki ljóð og esseyjur í safnritum. Hér er svo komið hans fyrsta prósaverk, um hinar dularfullu Stjörnufallseyjur, verk sem er býsna skylt ljóðinu og sett saman úr röð um fimmtíu lauslega tengdra stuttra prósa.

Bókin hefst á frásögn af sköpun heimsins sem fjallað er um, er tilbrigði við biblíustefið og hljómar svo: „Í upphafi var ekkert nema næturgyðja og guð morgunsins sem sváfu saman á festingunni, í ástríðufullum faðmlögum. Í sex daga elskuðust þau í blíðum dansi. Á sjöunda degi beið næturgyðjan elskhugans síns, en hann birtist ekki. Hún settist á dimmt tunglið, sem byrjaði að lýsast upp, gróf andlitið í höndum sér og fór að gráta. Grét og grét í marga klukkutíma. Kjökrið bergmálaði um alla veröldina. Umbreyttist í vind. Sum stjörnulaga tár storknuðu á himni, önnur féllu í hafið og urðu að eyjum. Þær eru nú þekktar sem Stjörnufallseyjur“ (7). Og við tekur draumkennt ferðalag milli sumra þessara eyja, þar sem sögumaður sem er einskonar óræður ljóðmælandi, leiðir lesandann frá einum stað til annars og á milli persóna, þar sem setningar hljóma, sagnabrot stundum, og brugðið er upp laustengdum myndum af þessum eyjaheimi. Sagt er að á fyrstu eyjunni sé tjörn sem aldrei frýs og stafar af „morgunrjóðri birtu“ en sagt er að „þeir sem eru hjartveikir af sorg eða harmeygðir ferðist þangað til að baða sig í henni, svo hjartað í þeim kremjist ekki alveg af myrkri.“ Á eyju í þessari tjörn er bygging í laginu eins og opin mannshönd með fimm turnum í stað fingra og hverjum turni lýst í ævintýralegum prósa: í þumalfingursturninum býr til að mynda véfréttakona og vísifingursturninn er listræn residensía þar sem skáld sitja þögul í húðbleikum kuflum og skrifa „ljóð og sögur í þeirri von að þeir dragi fram ljósið, því orðin gleyma ekki birtu sem eitt sinn var sáð ofan í þau.“ Þá er litlafingursturninn athvarf „fyrir óelskuð börn“.

Framan af bókinni heldur ferðalagið áfram milli eyjanna, þar sem oft er fjallað um mikilvægi skáldskapar, til dæmis að „skáldskapur seinkar dauðanum“ en líka er bent á að tíminn vinni með ljóðinu en á móti manneskjunni. Englar flögra um og við lesum brot úr fantasíum eins og um ljóshærða götustákinn á einni eyjunni sem er með svo heiðskír augu að í hvert sinn sem hann deplar þeim endurnýjar dagurinn sig í þeim. Þegar á líður verkið er hætt að fara frá einni eyju til annarrar og draumkenndar sögur einstaklinga taka í auknum mæli við, í fantasíukenndu ferðalagi sögumannsins þar sem næturgyðjan er stundum með í för. Bókinni lýkur svo í stökum stuttum kafla í jarðarför sögumanns sem hugleiðir lífshlaupið þar sem kistu hans er lokað og hann kveðst sáttur hafa „málað festinguna með hárlokkum elskhugans, nýtt stjörnumerki framan í nóttina, til að sýna öðrum morgunljósa leið“ (70).

Stjörnufallseyjur er brotakennt verk þar sem áherslan er meiri á ljóðrænan textann og myndsköpun stakra prósakafla en á heildina sem er frekar sundurlaus. Textinn er fallegur og flæðir skemmtilega, oft með óvæntri og frumlegri notkun mynda og orða, þar sem Jakub reynir á sveigjan- og teygjanleika tungumálsins á persónulegan og skapandi hátt. Mikilvægur þáttur í heildarmyndinni eru myndlýsingar Mörtu Maríu Jónsdóttur. Í bókinni er á annan tug svarthvítra teikninga og vatnslitamynda hennar, sem bregða upp þekkjanlegum fyrirbærum úr textanum sem þær sitja hjá, trjám, dúfum eða bókum, en líka óræðum formum sem vísa með áhugaverðum hætti til stjörnugeimsins og spunagleðinnar í textanum.

Jakub er í vaxandi hópi höfunda sem hafa sest að á Íslandi á undanförnum árum og kjósa að skapa bókmenntaverk á sínu nýja tungumáli. Það er spennandi að fylgjast með þeirri mikilvægu deiglu, hvernig þessir höfundar leika sér með örtungumálið sem þeir hafa lært hér, finna á því nýja fleti og ögra því – og á stundum okkur hinum, sem lítum á íslenskuna sem sjálfsagðan hlut. En Jakub sýnir, eins og þau hin, að það er ekkert sjálfsagt eða gefið í því hvernig snúa má upp á tunguna, og það má nota hana á ferskan og fallegan hátt, eins og hann gerir mjög vel í sínum athyglisverðu og ljóðrænu skrifum.