Nýliði Birnir Snær Ingason er kominn í landsliðshópinn.
Nýliði Birnir Snær Ingason er kominn í landsliðshópinn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sjö nýliðar verða í landsliðshópi karla í fótbolta sem Åge Hareide fer með til Flórída síðar í þessum mánuði, eftir að þrjár breytingar voru gerðar á hópnum í gær. Gylfi Þór Sigurðsson getur ekki leikið með íslenska liðinu gegn Gvatemala og Hondúras …

Sjö nýliðar verða í landsliðshópi karla í fótbolta sem Åge Hareide fer með til Flórída síðar í þessum mánuði, eftir að þrjár breytingar voru gerðar á hópnum í gær.

Gylfi Þór Sigurðsson getur ekki leikið með íslenska liðinu gegn Gvatemala og Hondúras eins og til stóð, vegna meiðsla, og sama er að segja um Sævar Atla Magnússon, samherja hans hjá Lyngby í Danmörku, og Valgeir Lunddal Friðriksson, leikmann Häcken í Svíþjóð.

Í þeirra stað voru Birnir Snær Ingason úr Víkingi, Jason Daði Svanþórsson úr Breiðabliki og Logi Hrafn Róbertsson úr FH kallaðir inn í hópinn.

Birnir og Logi hafa ekki spilað A-landsleik en Jason Daði lék þrjá landsleiki árið 2022.

Fyrir voru fimm nýliðar í hópnum: Lúkas Blöndal Petersson, 19 ára markvörður frá Hoffenheim í Þýskalandi, Anton Logi Lúðvíksson úr Breiðabliki, Brynjólfur Darri Willumsson frá Kristiansund í Noregi, Eggert Aron Guðmundsson úr Stjörnunni og Hlynur Freyr Karlsson, sem er nýgenginn til liðs við Haugeseund í Noregi frá Val.

Eftir brotthvarf Gylfa eru Arnór Ingvi Traustason og Sverrir Ingi Ingason langreyndustu leikmennirnir í hópnum, með 53 og 46 landsleiki, en á eftir þeim koma Andri Lucas Guðjohnsen, Stefán Teitur Þórðarson, Brynjar Ingi Bjarnason og Daníel Leó Grétarsson sem hafa allir leikið á annan tug A-landsleikja.

Leikið er við Gvatemala 13. janúar og Hondúras 17. janúar og er leikið í Fort Lauderdale, á heimavelli Lionels Messis og félaga í Inter Miami.