Kynjaójafnrétti Greta Gerwig leikstýrði tekjuhæstu myndinni 2023.
Kynjaójafnrétti Greta Gerwig leikstýrði tekjuhæstu myndinni 2023. — AFP/Chris Delmas
Niðurstöður tveggja nýrra rannsókna í Bandaríkjunum sýna að kvenkyns kvikmyndagerðarmenn eru ekki metnir að verðleikum þrátt fyrir góðan árangur þeirra í greininni á undanförnum árum. Má þar helst nefna vinsældir bíómynda eins og Barbie, eftir Gretu …

Niðurstöður tveggja nýrra rannsókna í Bandaríkjunum sýna að kvenkyns kvikmyndagerðarmenn eru ekki metnir að verðleikum þrátt fyrir góðan árangur þeirra í greininni á undanförnum árum. Má þar helst nefna vinsældir bíómynda eins og Barbie, eftir Gretu Gerwig, og Cocaine Bear, eftir Elizabeth Banks, sem báðar slógu í gegn en Barbie var tekjuhæsta mynd síðasta árs. Kemur fram á vef The Guardian að þær tilraunir sem gerðar hafi verið til að auka á fjölbreytileikann í Hollywood hafi enn ekki borið árangur. Er þetta önnur skýrslan á jafn mörgum dögum sem sýnir að þrátt fyrir mikla velgengni kvikmynda, sem leikstýrt var af konum árið 2023, fái konur ekki sömu tækifæri bak við myndavélina og karlkyns kollegar þeirra.

Rannsókn á vegum Center for the Study of Women in Television and Film við San Diego State University leiddi til að mynda í ljós að konur voru aðeins 16% þeirra leikstjóra sem stýrðu 250 tekjuhæstu kvikmyndunum árið 2023 en höfðu verið 18% árið 2022.

„Á meira en einum og hálfum áratug hefur hlutfall kvenkyns leikstjóra ekki einu sinni vaxið um 10%,“ er haft eftir dr. Stacy L. Smith, höfundi USC-skýrslunnar og stofnanda Inclusion Initiative, í yfirlýsingu. Segir hún jafnframt að á meðan framleiðendur og stjórnendur breyti ekki hugsunarhætti sínum, og fari að velja hæfustu manneskjuna til að stýra stærstu og vinsælustu kvikmyndunum, komi ekkert til með að breytast. Því sé erfitt að halda í bjartsýnina og vonast eftir öðru.