Karl Finnbogason fæddist í Hafnarfirði 25. september árið árið 1931. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 27. desember 2023.

Foreldrar hans voru Guðrún Jakobsdóttir húsmóðir, frá Urriðaá í Miðfirði, f. 9. apríl 1910, d. 28. febrúar 1974 og Finnbogi Ingólfsson verkamaður, frá Bjarghóli í Miðfirði, f. 9. júní 1906, d. 13. september 1996. Guðrún og Finnbogi bjuggu alla sína búskapartíð í Hafnarfirði.

Systkini Karls: Aðalsteinn, f. 3. júlí 1930, d. 12. janúar 2015, Jakobína Helga, f. 23. desember 1932, Rúnar Ingi, f. 6. júlí 1937, d. 5. ágúst 2011 og Bragi, f. 8. apríl 1953. Eiginkona Karls var Anna Ída Nikulásdóttir, f. 5. október 1929, d. 5. apríl 1990. Foreldrar hennar voru Nikulás Magnússon verkamaður, f. 24. júlí 1901, d. 15. apríl 1973 og Elísabet Eggertsdóttir húsmóðir, f. 12. september 1902, d. 16. október 1980, þau voru búsett í Hafnarfirði.

Karl og Ída gengu í hjónaband 12. apríl 1952. Heimili þeirra var alla tíð í Hafnarfirði. Börn Karls og Ídu eru:

1) Elísabet, f. 10. ágúst 1952. Maki Magnús Gunnarsson, f. 29.10. 1950. Börn þeirra eru: a) Hrund, f. 15.9. 1970, maki Ingi Rafn Jónsson, börn þeirra Daníel Þór, unnusta Sandra Erlingsdóttir, Daði Snær, unnusta Berghildur Björt Egilsdóttir, og Anna Rut. b) Gunnar, f. 22.11. 1973, í sambúð með Hafdísi Viðarsdóttur. Sonur Gunnars er Róbert Nökkvi. c) Þröstur, f. 10.2. 1979, maki Kristín Garðarsdóttir og börn þeirra Berglind, Kristófer og Aníta.

2) Magnús, f. 19. mars 1966, maki Dorothea Róbertsdóttir, f. 5. september 1966. Börn þeirra eru: a) Elísabet Ásta Magnúsdóttir, f. 14. apríl 1987, maki Páll Tómasson, börn þeirra Bergsteinn, Sigrún Ólafía og Tómas. b) Róbert Backman, f. 11. september 1990, maki Kai Backman, barn þeirra Viktor Alexander. c) Smári Hrafn Gíslason, f. 23. september 1986, maki Lydia Gsace Scobie, börn þeirra: Aría Rós, Eva Lív og Angela Ósk. d) Bryndís Hera Gísladóttir, f. 11. apríl 1992, maki Ásgeir Kolbeinsson, börn þeirra: Alex Logi, Ívan Dagur og Eyþór Máni. e) Arnar Hlynur Elliott Magnússon, f. 25. september 1993, maki Alexandra Ósk Jónsdóttir, börn þeirra: Bríet Emma og Iðunn Salka.

Eftirlifandi sambýliskona Karls er Bryndís Jónsdóttir, ættuð frá Brjánsstöðum. Eiginmaður hennar var Indriði Jónsson sem lést 1981. Börn þeirra eru Erla, Jón Birgir, Ásta og Gunnar Hjörtur sem lést 1979. Karl fór til sjós á fjórtánda ári sem hjálparkokkur og matreiðsla varð síðar að hans ævistarfi. Karl lauk námi í matreiðslu, starfaði m.a. á veitingahúsinu Naustinu og á Hótel Þingvöllum. Hann var yfirmatreiðslumaður á Hótel Loftleiðum á upphafsárum hótelsins og útskrifaði þar fjölda nema í matreiðslu. Karl sá um rekstur mötuneytis Sjónvarpsins um árabil. Þá starfaði hann lengi sem bryti á skipum Eimskipafélags Íslands. Karl átti og rak Matarbúðina í Hafnarfirði um nokkurt skeið og var jafnframt þar með veisluþjónustu.

Útför fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 4. janúar 2024, klukkan 15.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég rifja upp kynni mín og samleið með tengdaföður mínum, honum Kalla. Ég var vart kominn til fullorðinsára þegar ég var farinn að gera hosur mínar grænar fyrir Elsu minni, einkadóttur þeirra Ídu og Kalla. Það var mér léttir að við fyrstu kynni var mér vel tekið af þeim hjónum. Kalli og Ída voru bæði Hafnfirðingar, hún ættuð úr vesturbænum og hann úr suðurbænum. Fjölskylda mín var líka öll búsett í Hafnarfirði, svo segja má að hafnfirsku þræðirnir hafi strax legið ágætlega saman. Þau voru um margt ólík, Kalli og Ída, hann íhugull og fremur fáskiptinn í fyrstu en Ída, tengdamamma, lék á als oddi, glaðlynd og ræðin.

Ekki leið heldur á löngu áður en fjölskyldan stækkaði og fyrstu tvö búskaparár okkar Elsu bjuggum við hjá Kalla og Ídu á Lindarhvamminum. Sá tími var mér afar dýrmætur, þar kynntist ég örlæti þeirra hjóna og umhyggju fyrir okkur, unga parinu, þá með Hrund litla. Síðan bættust Gunnar og Þröstur í hópinn og ekki fækkaði stundunum sem við áttum með mínum kæru tengdaforeldrum. Eftir því sem árin liðu og krakkarnir stækkuðu var farið í ferðir út og suður, tjaldferðir, sumarbústaðaferðir, veiðiferðir og ferðir erlendis svo eitthvað sé hér tiltekið. Við Kalli urðum mjög nánir á þessum tíma, deildum áhuga á öllu sem tengdist sveitinni, hann hafði verið í sveit á Brjánsstöðum í Grímsnesi og ég litlu austar í Tungunum. Við áttum hesta saman um tíma og skoðuðum jörð til búsetu þar sem Kalli gæti jafnframt nýtt matreiðslukunnáttu sína í félagsheimili sveitarinnar. Ekki urðum við nú bændur og störf okkar leiddu okkur á aðrar brautir.

Þegar Kalli var á 14 ári réð hann sig sem hjálparkokk á bv. Venus og nefndi það oft að sú reynsla hefði nýst honum vel og áhugi á matreiðslu vaknað. Hann útskrifaðist síðar sem matreiðslumaður og vann þá m.a. á Naustinu hjá Halldóri Gröndal veitingamanni. Þar sá Kalli um matreiðslu á fyrsta þorrablótinu árið 1956 sem Halldór hafði endurvakið, en þessi gamalgróni siður hafði verið endurvakinn árið 1873 af stúdentum í Kaupmannahöfn og árið eftir blótuðu Akureyringar þorra. Kalli sat um tíma í Sjómannadagsráði og var félagi í Klúbbi matreiðslumeistara.

Það var okkur mikið áfall þegar Ída tengdamamma greindist með krabbamein og lést langt um aldur fram árið 1990, aðeins 60 ára að aldri.

Kalli kynntist síðar Bryndísi Jónsdóttur frá Brjánsstöðum. Kalli og Dísa höfðu bæði misst maka sína og hófu sambúð fyrir um þrjátíu árum. Sveitin var þeim hugleikin og sumarhúsið í landi Brjánsstaða varð þeirra yndisreitur þegar aldurinn færðist yfir. Þar undu þau sér vel eins og farfuglarnir, fóru í sveitina snemma vors og dvöldu þar yfir sumarmánuðina. Það var ánægjulegt að fylgjast með gróðursetningum, vaxandi skógi, grænmetisrækt og því sem þau tóku sér fyrir hendur í sveitinni. Kalla tengdapabba þakka ég fyrir allar ógleymanlegar stundir á liðnum árum og áratugum og veit að Ída tekur vel á móti honum í Sumarlandinu.

Blessuð sé minning hans.

Magnús Gunnarsson.

Ég man fyrst eftir Kalla og Rúnari bróður hans þegar ég var krakki að heimsækja ömmu mína og afa á Brjánsstöðum, en þeir höfðu báðir verið snúningastrákar hjá þeim. Kalli minntist oft á það þegar hann kom fyrst á Brjánsstaði níu ára gamall. Seinna lágu leiðir okkar saman hjá Loftleiðum.

Hann varð fyrsti yfirkokkur á Hótel Loftleiðum þegar það var opnað 1. maí 1966. Þremur vikum seinna byrjaði ég að vinna í innkaupadeild Loftleiða. Þurfti ég þá stundum að hafa samskipti við Kalla, m.a. að biðja hann um að samþykkja reikninga.

Eftir makamissi fyrir þrjátíu árum hittust mamma og Kalli á Hótel Sögu og hafa verið saman síðan. Mamma átti hjólhýsi í Brjánsstaðalandi en fyrir frumkvæði Kalla var keyptur alvöru bústaður.

Eftir að þau hættu að vinna eyddu þau öllum sumrum í bústaðnum þar til fyrir tveimur árum. Mamma í gróðrinum og Kalli að dytta að og mála.

Síðastliðin fimm ár höfum við Einar líka dvalið sumarlangt í okkar bústað í túnfætinum hjá þeim. Var þá hist daglega og farið í kaffi eða mat á milli húsa. Í mörg ár buðum við Einar mömmu og Kalla í dagsferð um Suðurland með kaffi á brúsa og meðlæti og enduðum svo daginn á veitingastað. Ljúfar minningar.

Þau voru líka dugleg að ferðast til útlanda, t.d. til Kanarí og Kúbu. Einnig fékk mamma tækifæri til að fara í siglingu með Kalla þegar hann var bryti á Fossunum.

Komið er að leiðarlokum, veikindi herjuðu á síðustu vikur. Hann fékk ósk sína uppfyllta, að fara á undan mömmu. Takk fyrir samfylgdina í gegnum árin Kalli minn. Ástvinum öllum vottum við Einar og fjölskylda okkar dýpstu samúð.

Hvíl í friði,

Erla Indriðadóttir.