Laugavegur Gengið til móts við framtíðina í óvissuástandi.
Laugavegur Gengið til móts við framtíðina í óvissuástandi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ríkisstjórnin talar hvorki skýrt né samhljóma um nauðsynleg markmið,“ segir Dagbjört Hákonardóttir þingmaður Samfylkingar. „Forsætisráðherra sagði í áramótaávarpi að treysta þyrfti húsnæðisöryggi og styðja við barnafjölskyldur

„Ríkisstjórnin talar hvorki skýrt né samhljóma um nauðsynleg markmið,“ segir Dagbjört Hákonardóttir þingmaður Samfylkingar. „Forsætisráðherra sagði í áramótaávarpi að treysta þyrfti húsnæðisöryggi og styðja við barnafjölskyldur. Þessar meintu áherslur koma ekki fram í nýjum fjárlögum þar sem enn er þjarmað að vaxta- og húsnæðisbótakerfinu. Og við fáum ekki séð að nokkur vilji sé fyrir endurreisn barnabótakerfisins að norrænni fyrirmynd.“

Veita þarf aðhald þar sem þenslan er í raun og veru, segir Dagbjört, og nefnir þar kjarapakka sem Samfylkingin kynnti fyrir jól þar sem meðal annars var lagt til 24 milljarða kr. aðhald á tekjuhliðina.

„Í einfölduðu máli þýðir það meðal annars afturköllun bankaskattslækkunar, hækkun fjármagnstekjuskatts í 25% að því er lýtur að fjármagnstekjum úr eigin rekstri sem réttilega ætti að skattleggja sem launatekjur, að ógleymdum sanngjörnum hækkunum á veiðigjaldi stórútgerða. Eitt stærsta ójafnvægið sem íslenskur almenningur býr annars við er skortur á jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Endurmat á virði kvennastétta mun ekki beint stuðla að jafnvægi, en samfélagið er í stórri skuld við þessa hópa.“

„Meginmarkmiðið er langtímasamningur um kaupmáttaraukningu og stöðugleika,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM.

„Opinberi og almenni markaðurinn þurfa að leita lausna í sameiningu. Þessi kjarasamningalota getur þannig ekki orðið hefðbundin ef sáttagerðinni er ætlað að ná til vinnumarkaðar í heild. Aðildarfélög BHM og stór hluti millistéttarinnar sætta sig ekki við flatar krónutöluhækkanir og lágtekjumiðaðar breytingar á bótakerfum eingöngu. Félög ASÍ fara aðeins fyrir 50% af grunnlaunavísitölu og hafa því takmarkað umboð til að gefa tóninn fyrir önnur félög eða leggja upp með innantóma „þjóðarsátt“. Uppgjör lífskjarasamningsins sýnir að stór hluti millistéttar hefur nær enga kaupmáttaraukningu fengið frá 2019. Á sama tíma hafa orðið umtalsverðar kjarabætur hjá láglaunahópum. Ekki verður þjóðarsátt um aðgerðir á vinnumarkaði ef millistéttin trúir hvorki á inntak né aðferðafræði.“

„Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum sem styðja við það mikilvæga verkefni að ná hér niður verðbólgu og vöxtum. Slíkt er óumdeilt mesta kjarabótin,“ segir Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknarflokks.

„Aðilar vinnumarkaðarins munu kalla eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð samninga. Þar tel ég líklegast að háværust verði krafan um aukið húsnæðisöryggi og að barnafjölskyldur verði sérstaklega varðar. Hér verður að hafa í huga að ríkisstjórnin hefur komið inn með aðgerðir á húsnæðismarkaði þegar kemur að almennum íbúðum og veitingu hlutdeildarlána. Aðra hópa þarf þó að taka inn. Þessu til viðbótar er nauðsyn á samstilltu átaki þegar kemur að verð- og gjaldskrárhækkunum. Þar steig ríkið nokkuð varfærin skref á meðan sveitarfélögin mörg hver stigu stærri skref. Þetta þarf að skoða í samhengi.“

„Nú þarf að rjúfa víxlverkun launa- og verðlagshækkana og ég er bjartsýnn á komandi kjaraviðræður,“ segir Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Kópavogi.

„Innistæðulausar launahækkanir birtast okkur í formi verðbólgu. Hækkanir, sem hafa verið mun meiri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum, hafa verið langt umfram framleiðniaukningu á hverja vinnustund. Fyrir almennan borgara felst mesta aukning lífsgæða í formi lægra vaxtastigs en fyrir heimili með 40 millj. kr. húsnæðislán munar 33 þús.kr. um hvert prósentustig lánsins, eftir skatt! Hvert prósentustig jafngildir tæplega 60 þúsund króna launahækkun. Gjaldskrár Kópavogsbæjar taka breytingum 2-4 sinnum á ári svo hóflegar launahækkanir leiða strax til hóflegra gjaldskrárhækkana hjá okkur. Ég vona að þau sveitarfélög sem hækka gjaldskrár í upphafi árs miðað við gefnar forsendur um verðlagsþróun muni endurskoða þær.“

„Allir verða að róa í sömu átt svo árangur í efnahagsmálum náist með kjarasamningum sem þurfa að vera til langs tíma,“ segir Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju á Akureyri. Það er eitt af fjölmennustu aðildarfélögum ASÍ og hefur sem slíkt þunga og mikilvægi í verkalýðshreyfingunni.

„Öllu skiptir að ná niður verðbólgunni svo hægt verði að lækka vexti. Slík er aðferðin sem nú þarf til þess að stöðva snjóhengjuna sem vomir yfir ungu fólki sem margt er komið í mikinn vanda vegna þungra afborgana af lánum sínum. Mörg eru í þeirri stöðu að ná tæpast að rísa undir skuldbindingum vegna húsnæðis. Þess vegna þarf að stöðva víxlverkandi hækkanir á launum annars vegar og vöruverði og slíku hins vegar. Sveitarfélögin þurfa líka að taka þátt með því að endurskoða gjaldskrár sínar og lækka einstaka liði þeirra. Innan flestra aðildarfélaga ASÍ er ríkur vilji til þess að ná langtímasamningum svo stöðugleiki náist. Raunar má lýsa þessu sem stóru samfélagslegu verkefni; allir verða að stökkva á vagninn svo úr verði raunveruleg þjóðarsátt. Hvort þetta næst þori ég ekki að segja til um; umræðan er rétt að fara af stað hvert sem hún ber okkur.“sbs@mbl.is