Vegagjald Skrá þarf kílómetrastöðu mælis fyrir 20. janúar næstkomandi.
Vegagjald Skrá þarf kílómetrastöðu mælis fyrir 20. janúar næstkomandi. — Morgunblaðið/Eggert
Nú er komið að því að eigendur rafbíla, tengiltvinnbíla og vetnisbíla þurfa að greiða kílómetragjald fyrir notkun á gatnakerfi landsmanna á sama hátt og eigendur bensín- og díselbíla hafa gert til þessa með sköttum á olíu og bensín

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Nú er komið að því að eigendur rafbíla, tengiltvinnbíla og vetnisbíla þurfa að greiða kílómetragjald fyrir notkun á gatnakerfi landsmanna á sama hátt og eigendur bensín- og díselbíla hafa gert til þessa með sköttum á olíu og bensín.

Breytingin varð núna um áramótin og skylt er að skrá stöðu kílómetramælis fyrir 20. janúar næstkomandi. Stöðu kílómetramælis er hægt að skrá með þremur aðferðum, á Island.is appinu; á Mínum síðum á island.is og á vefnum vegirokkarallra.is þar sem einnig er hægt að finna miklar upplýsingar um þessa breytingu.

20 þúsund króna sekt

Ef fólk skirrist við og skráir ekki stöðu mælisins fær það 20 þúsund króna sekt ef ekkert hefur verið gert fyrir 30. janúar og eftir það er fólk boðað í álestur hjá faggiltri skoðunarstofu. Gert er ráð fyrir mánaðarlegum greiðslum fyrir aksturinn og gjaldið er sex krónur á kílómetrann fyrir rafmagns- og vetnisbíla en tvær krónur á km fyrir tengiltvinnbíla. Á vefnum Vegir okkar allra segir að meðalakstur einkabíla á landsvísu sé 14 þúsund km á ári sem þýðir að skatturinn er 7 þúsund krónur á mánuði eða 84 þúsund á ári fyrir rafmagnsbíl. Olíu- og bensínskattar verða innheimtir út árið, en í lok árs munu allir bílar verða í sama kerfinu.

Sanngirnismál

Við sívaxandi orkuskipti án þess að ný aksturstæki sæti vegagjöldum hafa þeir sjóðir rýrnað sem standa eiga undir samgöngukerfinu, enda sístækkandi hópur á bílum sem til þessa hafa verið undanþegnir vegagjöldum. Það má því segja að um nokkurt sanngirnismál sé að ræða að allir notendur veganna greiði nú fyrir þá sameiginlega, en ekki bara þeir sem aka á bensín- og díselbílum, eins og til þessa. Þá greiða allir samkvæmt eigin notkun, en ekki er tekið tillit til þyngdar bíla eða annarra þátta í gjaldtökunni, eingöngu til þess fjölda kílómetra sem eknir hafa verið.