Berlín Martin Hermannsson í leik með Alba fyrir nokkrum árum.
Berlín Martin Hermannsson í leik með Alba fyrir nokkrum árum. — Ljósmynd/Euroleague
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er líklega á förum frá Valencia á Spáni eftir þriggja og hálfs árs dvöl. Spænski fjölmiðillinn Cope skýrði frá því að Martin væri í viðræðum við sitt gamla félag í Þýskalandi, Alba Berlín

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er líklega á förum frá Valencia á Spáni eftir þriggja og hálfs árs dvöl.

Spænski fjölmiðillinn Cope skýrði frá því að Martin væri í viðræðum við sitt gamla félag í Þýskalandi, Alba Berlín. Martin staðfesti við Morgunblaðið í gær að það væri rétt en fleiri möguleikar væru einnig í stöðunni og ekki heldur útilokað að hann yrði áfram í röðum Valencia.

Spænska félagið bætti bakverði í hópinn núna um áramótin, Kanadamanninum Kevin Pangos sem kom frá Olimpia Mílanó, og þar með eykst samkeppnin hjá Martin sem er fyrir stuttu farinn að spila á ný eftir langvarandi meiðsli.

Martin, sem er 29 ára, lék með Alba Berlín í tvö ár, 2018 til 2020, en liðið leikur í Euroleague, sterkustu félagsliðakeppni Evrópu, eins og Valencia. Liðið er sem stendur í fjórða sæti þýsku 1. deildarinnar en aðeins einum sigri á eftir toppliðinu.