Landað Magnús Emanúelsson skipstjóri á Rán SH hér í lestinni og gerir körin klár. Afli í allra hæsta gæðaflokki og ýsa var það heillin.
Landað Magnús Emanúelsson skipstjóri á Rán SH hér í lestinni og gerir körin klár. Afli í allra hæsta gæðaflokki og ýsa var það heillin. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Vetrarvertíðin er að skríða af stað og nú á þriðja degi ársins lofar upphafið góðu,“ segir Oddur Orri Brynjarsson, skipstjóri á Steinunni SH. Nærri tíu bátar sem gerðir eru út frá höfnum Snæfellsbæjar, það er Ólafsvík og Rifi, voru á sjó í gær

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Vetrarvertíðin er að skríða af stað og nú á þriðja degi ársins lofar upphafið góðu,“ segir Oddur Orri Brynjarsson, skipstjóri á Steinunni SH. Nærri tíu bátar sem gerðir eru út frá höfnum Snæfellsbæjar, það er Ólafsvík og Rifi, voru á sjó í gær. Og ekki var langt á fengsæla fiskislóð; rétt utan við Enni og Rif var vaðandi af fínum fiski.

„Veðrið er fínt og þá fara menn auðvitað á sjóinn. Eru eitthvað að djöflast og ná fiski,“ segir Oddur Orri. Á öðrum degi nýársins reri hann talsvert út á Breiðafjörð, en veiðin þá var dræm og ekki nema um fimm tonn. Í gær gekk hins vegar mun betur. Lagt var úr höfn í Ólafsvík klukkan hálfátta um morguninn. Þegar komið var á miðin var snurvoðin sett út og í fyrsta hali náðust 6,5 tonn. Þar með var tónninn gefinn fyrir góðan dag.

Þegar vel veiðist og má veiða

Afli af Steinunni SH er lagður upp í vinnslu Fisk Seafood í Grundarfirði. Kvótastaða bátsins er líka ágæt og nýlega voru keyptar auknar aflaheimildir, svo staðan er góð. „Við getum með þessu verið á veiðum eitthvað fram á sumar og byrjað fyrr á haustin. Sjómennska er skemmtileg, þegar vel veiðist og þegar má veiða,“ segir Oddur Orri. Rúm tvö ár eru síðan hann tók við sem skipstjóri á Steinunni af föður sínum Brynjari Kristmundssyni. Sá var fiskinn og farsæll og hjá skipstjóranum Oddi Orra hefur allt gengið eins og í sögu, en hann hefur verið í áhöfninni um langt árabil.

„Breiðafjörður er bókstaflega fullur af fiski núna,“ segir Magnús Emanúelsson, skipstjóri á Rán SH, sem er tólf tonna bátur úr Ólafsvík. Þeir Magnús og Jón Þór sonur hans róa saman; eru á línu og voru út af Búlandshöfða í gær. „Við erum með 32 bala af línum og sennilega fiskum við einhver sjö til átta tonn núna. Að mestum hluta er aflinn ýsa sem við setjum á markað. Þorskurinn, sem eftir þennan róður er eitt til tvö tonn, fer í Sjávariðjuna á Rifi sem er í föstum viðskiptum við okkur.“

Langur vinnudagur

Magnús segir afar ljúft að byrja aftur að róa eftir langt stopp og fiska þá vel. „Báturinn var í vélarskiptum og því vorum við stopp í hálft ár. Við gátum byrjað aftur í desember og tókum tvo róðra fyrir jól; fórum þá í annað skiptið suður að Malarrifi og náðum þá 7-8 tonnum af þorski. Núna tökum við hins vegar ýsuna, fórum út klukkan fimm í morgun og komum inn um kvöldmat. Jú, auðvitað er þetta langur vinnudagur en þegar vel gengur telur maður slíkt ekki eftir sér,“ segir skipstjórinn á Rán.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson