Það er gaman að sjá að tíu efstu íþróttamennirnir í kjörinu á íþróttamanni ársins hafa ekki hlotið nafnbótina áður. Það er alltaf gaman að sjá nýtt nafn á bikarnum og það að enginn af tíu efstu í ár hafi unnið áður sýnir hvað við eigum mikið af framúrskarandi íþróttafólki, sem gerði vel á árinu 2023

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Það er gaman að sjá að tíu efstu íþróttamennirnir í kjörinu á íþróttamanni ársins hafa ekki hlotið nafnbótina áður. Það er alltaf gaman að sjá nýtt nafn á bikarnum og það að enginn af tíu efstu í ár hafi unnið áður sýnir hvað við eigum mikið af framúrskarandi íþróttafólki, sem gerði vel á árinu 2023.

Andrea Kolbeinsdóttir varð t.d. Íslandsmeistari í skíðagöngu og sló Íslandsmet í 5.000 metra hlaupi sama dag, geri aðrir betur.

Anton Sveinn McKee náði langþráðu markmiði og náði í verðlaun á stórmóti í sundi. Elvar Már Friðriksson er kominn í fremstu röð í Evrópu í körfubolta og Gísli Þorgeir Kristjánsson var bestur í þýsku 1. deildinni og Meistaradeildinni í handbolta og varð Evrópumeistari.

Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði landsliðsins og stórliðsins Bayern München og varð þýskur meistari. Jóhann Berg Guðmundsson spilar alltaf með Burnley í ensku úrvalsdeildinni þegar hann er heill og gerir það vel.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir er komin mjög langt í sundi á Evrópumælikvarða og bætir Íslandsmet á hverju móti. Sóley Margrét Jónsdóttir varð Evrópumeistari í kraftlyftingum og var nálægt því að verða heimsmeistari.

Sveindís Jane Jónsdóttir er lykilmaður hjá Wolfsburg í fótbolta og fór í úrslit Meistaradeildarinnar og Thelma Aðalsteinsdóttir átti stórglæsilegt fimleikaár.

Allt þetta íþróttafólk átti glæsilegt nýliðið ár og væru þau öll vel að nafnbótinni komin. Þó getur aðeins verið einn sigurvegari og ég treysti því að ég og félagar mínir í Samtökum íþróttafréttamanna hafi valið rétt.