Pútín færist í aukana eftir að hafa staðist sumarsóknina

Úkraína þarf á aðstoð að halda. Landið þarf ekki bara aðstoð til að verjast árásum Rússa. Það þarf einnig hjálp til að halda efnahagslífinu gangandi. Denis Smígal forsætisráðherra Úkraínu sagði í gær að sennilega þyrftu Úkraínumenn rúmlega 37 milljarða dollara á þessu ári og þeir reiddu sig á stuðning vestrænna bandamanna sinna.

Í fyrra nam aðstoðin 42,6 milljörðum dollara og voru 27% af því styrkir. Nú er hins vegar farið að hökta. Evrópusambandinu hefur ekki tekist að afgreiða 55 milljarða evra pakka vegna þvergirðingsháttar Ungverja og óeining á Bandaríkjaþingi hefur komið í veg fyrir að hægt væri að tryggja aukin framlög þaðan.

Það hlýtur því að ríkja nokkur óvissa á stjórnarheimilinu í Kænugarði um framhaldið. Vladimír Pútín forseti Rússlands hefur hins vegar gengið á lagið. Hann lætur nú sprengjum rigna yfir borgir og bæi. Markmiðið virðist vera að nota það hik sem komið er á helstu bakhjarla Úkraínumanna til að draga kjark úr þeim.

Úkraínumenn svöruðu fyrir sig þegar Rússar sendu sprengjur á borgir í Úkraínu og gerðu sprengjuárás á borgina Belgorod í Rússlandi. 25 féllu í árásinni. Pútín brást ókvæða við þegar hann heimsótti sjúkrahús á nýársdag og hótaði grimmilegum hefndum. „Það sem gerðist í Belgorod var hryðjuverk,“ sagði hann. „Það er ekki til neitt annað orð yfir það.“

Þetta eru sterk orð frá manni, sem hefur verið að fremja hryðjuverk í Úkraínu frá því að hann réðst inn í landið fyrir tæpum tveimur árum og í raun síðan 2014. Það mætti spyrja hann hvers vegna hann telji sjálfsagt að gera árásir á úkraínskar borgir, en ekki að Úkraínumenn ráðist á rússneskar borgir.

Brátt verða liðin tvö ár síðan Pútín réðst inn í Úkraínu. Þótt allt hafi farið í handaskolum í árásinni og sókn Rússa að Kænugarði hafi verið stöðvuð og þeir hraktir til baka halda þeir enn svæðum næst landamærum Rússlands. Í sumar var blésu Úkraínumenn til sóknar til að hrekja Rússa af höndum sér, en það tókst því miður ekki sem skyldi.

Það getur verið auðveldara að verjast en sækja, hægt er að koma fyrir sprengjubeltum og hreiðra um sig. Raunin varð sú að víglínan rétt mjakaðist fram og til baka, svo helst minnti á skotgrafahernað fyrri heimsstyrjaldar.

Þá eru Rússar skeytingarlausir um mannfall í eigin röðum, en Úkraínumenn þola það verr að höggvin séu skörð í þeirra raðir og það er erfitt að sætta sig við mannfórnir þegar takmarkaður ávinningur blasir við.

Misheppnaða sumarsóknin virðist hafa gert Pútín kokhraustari en áður. Honum var brugðið þegar Jevgení Prígosjín, sem gekk undir viðurnefninu Kokkur Pútíns, gerði uppreisn og sendi Wagner-sveitir sínar í átt að Moskvu. Uppreisnin stóð hins vegar stutt og Prígosjín er farinn til feðra sinna. Á Pútín er hins vegar ekkert fararsnið og í vændum er einhvers konar tilbrigði við kosningar þar sem ekki þarf mikla spádómsgáfu til að segja að hann eigi sigurinn vísan.

Baráttuþrek Úkraínumanna gegn árásum Rússa hefur verið aðdáunarvert. Rússum hefur hins vegar tekist að uppræta nánast alla velvild í sinn garð í landinu. Látið hefur verið að því liggja að Rússar vilji semja um frið, en þeir vilja örugglega ekki gefa þumlung eftir af því landi sem þeir hafa sölsað undir sig. Það mátti ráða af orðum Pútíns á nýársdag þegar hann sagði að Rússar vildu frið eins fljótt og unnt væri, en aðeins „á sínum forsendum“. Við það geta Úkraínumenn ekki unað. Það yrði líka ömurleg niðurstaða og allir grannar Úkraínu, sérstaklega þeir sem eiga landamæri að Rússlandi, eru þess fullvissir að þá verði þess ekki langt að bíða að Rússar geri næstu atlögu. Spurningin sé bara hvar það verði.

Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands skrifaði á X, sem áður hét Twitter, eftir loftárásir Rússa á Úkraínu 2. janúar að Þjóðverjar myndu „standa með íbúum Úkraínu eins lengi og þeir þarfnast okkar“ og Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands sagði í símtali við Volodimír Selenskí að Bretar myndu „halda áfram að standa staðfastlega með Úkraínu í baráttu sinni gegn ágangi og hernámi“.

Það er Úkraínumanna að ákveða hvert framhaldið verður, hvort þeir vilji halda áfram lýjandi átökum í að því er virðist pattstöðu. Þeir færa fórnirnar. En það væri óafsakanlegt að þeir þyrftu að gefa eftir vegna þess að Vesturlöndum entist ekki þrek til að styðja þá.