Bragi Guðmundsson
Bragi Guðmundsson
Þeir sem eru svo lánsamir að verða löggiltir eldri borgarar sætta sig illa við að sæta aldursfordómum.

Bragi Guðmundsson

Opnaði heimabankann minn um daginn og ætlaði að borga erlendan reikning. Nú var það allt í einu ekki hægt, „computer says no“. Lokað og læst.

Hafði því samband við banka allra landsmanna (?) Landsbankann og spurði hverju þetta sætti. Fékk svohljóðandi svar til baka í tölvupósti.

„Góðan dag.

Það sem veldur þessu er öryggisráðstöfun bankans. Nú í lok nóvember var lokað á erlendar millifærslur hjá viðskiptavinum sem eru yfir 70 ára aldri þar sem að sá hópur fólks er líklegri en annar til þess að lenda í fjársvikum. Ef að þú óskar eftir því að þetta verði opnað hjá þér máttu endilega segja okkur stuttlega frá færslunni, hvert hún er að fara og hver viðtakandinn sé. Þessi ráðstöfun er ekki gerð í neinum öðrum tilgangi nema að reyna allt sem í okkar valdi stendur til þess að vernda viðskiptavini bankans. Ef þú hefur þörf á frekari aðstoð, ekki hika við að hafa samband.“

Það var því ekkert annað í stöðunni en að gera sér ferð í bankann.

Þar tók á móti mér elskulegur þjónustufulltrúi. Hann hafði ekki heyrt um 70 ára reglu bankans, efaðist, gramsaði svo í tölvunni sinni um stund en varð einskis vísari. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir tókst okkur í sameiningu að millifæra þessi pund og greiða þennan reikning í Bretlandi. Það var ákveðinn léttir. Þjónustufulltrúinn rukkaði svo 1.900 krónur fyrir veitta þjónustu. Sagðist myndu senda kvittun í tölvupósti ásamt afriti af millifærslunum. Það er ókomið.

Ekki hef ég hugmynd um hve mörg þúsund reikningseigenda Landsbankans eru 70 ára eða eldri.

Landsbankinn er að mínu mati kominn dálítið hressilega yfir mörkin varðandi fyrirhyggju og að draga fólk í dilka, mismuna fólki á grundvelli aldurs. Hvort það stenst lög verða aðrir að meta. Bankinn virðist hins vegar meta alla viðskiptavini sína komna yfir 70 ára aldur sem ófæra um að stunda eðlileg bankaviðskipti með eigið fé. Viðkomandi þarf að gera grein fyrir því fyrir fram hvert hann vill senda greiðslu, fyrir hvað er verið að greiða, nafn viðtakanda o.s.frv. Bankinn mun þá eftir atvikum gefa leyfi sitt fyrir millifærslunni eða ekki. Einmitt, líkt og segir í áramótaskaupinu 1984: „Viltu þá ekki sjá á mér brjóstin líka?“

Við sem eru svo lánsöm að verða löggiltir eldri borgarar sættum okkur illa við að þurfa að sæta aldursfordómum og sértækri meðferð bankans. Þarna hafa stjórnendur bankans gert mistök sem þeim ber að lagfæra.

Höfundur er 75 ára gamall eftirlaunamaður.