Skipstjóri Haf og himinn á tölvuská. Heimir skipstjóri fylgist vel með öllu hér, en veit líka að gömul gildi sjómennskunnar mega ekki gleymast. Öllu skiptir að kunna að stíga ölduna, í margræðri merkingu þeirra orða.
Skipstjóri Haf og himinn á tölvuská. Heimir skipstjóri fylgist vel með öllu hér, en veit líka að gömul gildi sjómennskunnar mega ekki gleymast. Öllu skiptir að kunna að stíga ölduna, í margræðri merkingu þeirra orða. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Skipið var ljósum prýtt og kátir karlar stóðu á dekkinu þegar Helga María RE 1, togari Brims, tók stímið út úr Reykjavíkurhöfn á þriðjudagskvöld. Stefnan var tekin þvert yfir Faxaflóann og út á Vestfjarðamið. Þangað voru í gær komin nokkur skip og fiskiríið er kropp í þorski. Togarar voru í gær út af Patreksfirði en út á Látragrunn var Helga María komin eftir 12 tíma siglingu úr Reykjavík.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Skipið var ljósum prýtt og kátir karlar stóðu á dekkinu þegar Helga María RE 1, togari Brims, tók stímið út úr Reykjavíkurhöfn á þriðjudagskvöld. Stefnan var tekin þvert yfir Faxaflóann og út á Vestfjarðamið. Þangað voru í gær komin nokkur skip og fiskiríið er kropp í þorski. Togarar voru í gær út af Patreksfirði en út á Látragrunn var Helga María komin eftir 12 tíma siglingu úr Reykjavík.

„Hér á Látragrunni, þar sem heitir Kattarhryggur, er hægviðri og blíða í augnablikinu. Núna erum við að draga trollið en eftir fyrsta halið sem tók tvo tíma fengum við tvö tonn af þorski, karfa og ufsa. Þetta kallast bland í poka. Svo er ætlunin að halda norðar og vestar. Fara á Halamið þegar bræla þar gengur niður,“ sagði Heimir Guðbjörnsson skipstjóri þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

Fiskað eftir forskriftinni

Eftir hátíðar- og frídaga leitar lífið jafnvægis. Hversdagsleikinn í fjölbreytileika rútínunnar er tekinn við og í sjávarútveginum er allt komið á fullt.

„Forskriftin sem við á Helgu Maríu höfum frá útgerðarstjóra er að ná slatta af ufsa, 75 tonnum af þorski og 30 tonnum af karfa. Svona þarf skammturinn að vera svo vinnslan í landi rúlli og hægt sé að skila afurðum upp í pantanir. Þessi togari fer alltaf út á þriðjudögum og kemur inn eldsnemma á mánudagsmorgnum, svo við höfum nokkra daga til að fiska þetta sem þarf. Hér eru 15 í áhöfn, strákar sem flestir hafa verið lengi. Fínn mannskapur, góð aðstaða og frábær kokkur. Og hér fyrir aftan brúna höfum við heitan pott sem er mikið notaður.“

Heimir á sjó í hálfa öld

Heimir Guðbjörnsson hefur verið til sjós í tæp 50 ár. Helga María RE, sem er 880 rúmlestir, kom til landsins árið 1988 og hét þá Haraldur Kristjánsson HF. Þar var Heimir yfirstýrimaður og seinna skipstjóri og hefur verið nánast óslitið síðan, enda þótt eignarhald á skipinu hafi breyst og nafnið sömuleiðis. Aðalskipstjóri á Helgu Maríu er Friðleifur Einarsson og er gangurinn sá að hann siglir þrjá túra og á svo frí í tvo og þá er Heimir í brúnni.

„Þetta er skip sem mér líkar afskaplega vel við; enda er það gott í sjó og fer vel með mannskap. Og nú erum við að byrja að kasta trollinu í annað sinn. Hér er mikið að gera og við skulum bara heyrast seinna,“ sagði Heimir skipstjóri að síðustu.