Draumkennd Maria-Carmela Rosa er fædd og uppalin í Ontario-fylki í Kanada en flutti hingað til lands fyrir um sex árum og festi rætur.
Draumkennd Maria-Carmela Rosa er fædd og uppalin í Ontario-fylki í Kanada en flutti hingað til lands fyrir um sex árum og festi rætur. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hélt draumadagbók í rúm tvö ár á meðan það geisaði heimsfaraldur. Fór frekar djúpt inn í draumalandið. Draumarnir voru mjög skýrir en á sama tíma dálítið skrítnir og veittu mér mikinn innblástur við gerð plötunnar,“ segir…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Ég hélt draumadagbók í rúm tvö ár á meðan það geisaði heimsfaraldur. Fór frekar djúpt inn í draumalandið. Draumarnir voru mjög skýrir en á sama tíma dálítið skrítnir og veittu mér mikinn innblástur við gerð plötunnar,“ segir Maria-Carmela Raso, kanadísk tónlistarkona sem fyrir að verða sex árum fluttist hingað til lands, festi rætur og býr nú í miðbæ Reykjavíkur með tilraunatónlistarmanninum og trommaranum Ægi Sindra Bjarnasyni og eins árs gömlu barni þeirra.

Platan sem um ræðir, Our Daily Apocalyps Walk, er fyrsta breiðskífa Mariu undir listamannsnafninu MSEA (borið fram emm sí) en fyrir hefur hún gefið út þrjár stuttskífur sem allar vöktu athygli fólks í neðanjarðarsenunni.

Bjartsýnisleg á köflum

En spólum aðeins til baka. Í viðtali við Helga Snæ Sigurðsson árið 2020 í þessu blaði lýsti Maria-Carmela tónlist sinni svo:

„Mér hefur verið sagt að hljóðheimurinn sé einhvers staðar á milli vöku og draums, kannski svolítið uggvekjandi. Einhver kallaði hana „martraðapopp“ – sem ég elska – með tilraunakenndri nálgun. Hún er viðkvæm og melankólísk, stundum hávær, en jafnvel bjartsýnisleg á köflum.“

Our Daily Apocalyps Walk sver sig sannarlega í ætt við þessa tveggja ára gömlu lýsingu Mariu. Platan fetar þröngan stíg milli harðrar tilraunamennsku og undurfagurs popps. Listamenn á borð við Laurie Anderson, Björk og fleiri koma upp í hugann en hljóðheiminn á Maria sjálf skuldlaust.

Í umsögn um plötuna fyrir Morgunblaðið sem talin var upp með því besta á árinu 2023 í tilraunapoppi, skrifar Arnar Eggert Thoroddsen:

„Stöndugt verk hjá MSEA og sérdeilis glæsilegur frumburður. Hér er margt að byggja á og vonandi að Maria-Carmela hlýði sinni köllun. Þetta ár hefur gefið okkur góðan fjölda af framsækinni tónlist úr ranni kvenna – líkt og þau síðustu reyndar – og það eru forréttindi að fá að upplifa þennan brodd í beinni útsendingu.“

Orka sem er ómissandi

Maria-Carmela segir að hún hafi byrjað á plötunni fyrir um tveimur árum í covid en síðasta lagið hafi hún samið seint á síðasta ári.

„Ég byrjaði á því að semja allt í Ableton [tónlistarforritinu] og svo fékk ég fólk til að koma inn í hljóðver og skipta út forrituðum hljóðum fyrir raunveruleg hljóðfæri. Mér finnst æðislegt að vinna með öðru fólki og það verður extra gaman þegar maður hefur lengi unnið í einrúmi – að sjá lögin lifna við í meðförum góðra hljóðfæraleikara. Ægir hjálpar mér líka mikið. Hann er ekki bara góður trommari heldur kemur hann með einhverja mjög sérstaka orku inn í lögin sem mér finnst ómissandi,“ segir tónlistarkonan.

Draumadagbók: 21.3. 2022

Þakklát fyrir kaffið

Daglega heimsendagangan okkar. Við þurfum að gæta okkar á fólki.

Einhver segir okkur að halda okkur frá náunganum fyrir utan. Hann er síðhærður, vel klæddur og fallegur, en borgin hefur hætt að annast hann. Þau hættu að greiða honum. Ég tók upp eitthvað sem hann missti. Lýs. Stór klessa, sennilega 100 lýs.

Ókei, höldum okkur frá honum.

Við gengum og það var gosbrunnur og tómar götur. Lítil stúlka í hvítum kjól. Hvar voru foreldrar hennar? Einhver birtist með poka af birgðum fyrir okkur. Eitthvað nasl, útiföt, vasaljós, bækur, dósamatur og kaffibrúsi. „Hvað með vatn? spurði ég, en þó þakklát fyrir kaffi.“