Vonarstræti Svona birtist framhlið Smiðjunnar vegfarendum þegar verkpallarnir voru fjarlægðir á dögunum.
Vonarstræti Svona birtist framhlið Smiðjunnar vegfarendum þegar verkpallarnir voru fjarlægðir á dögunum. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Frágangur við hið nýja skrifstofuhús Alþingis, Smiðju, er á lokametrunum. Vinnupallar hafa að hluta verið teknir niður á framhlið hússins og því sést núna hvernig það mun líta út séð frá Vonarstræti.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Frágangur við hið nýja skrifstofuhús Alþingis, Smiðju, er á lokametrunum. Vinnupallar hafa að hluta verið teknir niður á framhlið hússins og því sést núna hvernig það mun líta út séð frá Vonarstræti.

Þingmenn og starfsfólk þingflokka hafa flutt inn á skrifstofur sínar á 3. og 4. hæð hússins, upplýsir Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis. Þá er sá hluti starfsfólks skrifstofu Alþingis sem verður í Smiðju fluttur inn á 2. hæð, þ.e. nefndasvið sem og nokkrar aðrar einingar. Allt skrifstofuhúsnæði við Austurvöll hefur nú verið tæmt.

Til viðbótar eru skrifstofur starfsfólks og starfsaðstaða áfram í húsum Alþingis við Kirkjustræti (þ.e. Skúlahús, Skjaldbreið, Blöndahlshús og Kristjánshús) sem og að sjálfsögðu í Alþingishúsinu, bætir Ragna við.

Frágangi fyrstu hæðar Smiðju á að ljúka á allra næstu dögum svo allt verði til reiðu þegar þingnefndir hittast að nýju að loknu jólahléi. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis verður það mánudaginn 15. janúar.

Á fyrstu hæð Smiðju eru fjögur fundarherbergi fastanefnda, ráðstefnusalur og útsendingasalur auk forsalar og nokkurra rýma til að taka á móti gestum. Á 2. hæð eru rými fyrir starfsfólk en unnið verður í fimm vinnurýmum. Alls er pláss fyrir átta í hverju rými. Þá verður þar skrifstofa forseta Alþingis (sem nú er í Blöndahlshúsi við Kirkjustræti), fundarherbergi o.fl.

Skrifstofur fyrir 58 þingmenn

Á 3. og 4. hæð eru skrifstofur þingmanna, fundarherbergi fyrir þingflokka og önnur fundarherbergi. Þá eru þar vinnurými fyrir starfsfólk þingflokka. Alls eru á þessum tveimur hæðum 58 skrifstofur fyrir þingmenn (29+29). Þingmenn eru sem kunnugt er 63 en ráðherrar þurfa ekki skrifstofu í nýbyggingunni. Þá verða á þessum tveimur hæðum allt að 12 (6+6) herbergi fyrir þingflokka. Nýting rýmanna fer eftir fjölda þingflokka hverju sinni.

Á 5. hæð er matsalur og eldhús. Þá verða þar þrír fundarsalir sem hægt er að nýta fyrir móttökur og fundi.

Nýja húsið er, að meðtöldum bílakjallara, um 6.500 fermetrar að stærð. Byggingarkostnaður er áætlaður um sex milljarðar króna en endanlegt uppgjör liggur ekki fyrir. Þegar tilboð í fyrsta áfanga verksins, jarðvegsframkvæmdir, voru opnuð í október 2019, var tilkynnt að verklok væru áætluð í mars 2023. Þau hafa tafist í tæpt ár af ýmsum ástæðum.

Efnt var til samkeppni um nafn á nýja húsið og varð Smiðja fyrir valinu. Að mati dómnefndar er nafnið Smiðja bæði stutt og þjált og hefur tengingu við starfsemi fyrri alda á Alþingisreitnum, sem og fyrirhugaða starfsemi í húsinu. Í Smiðjunni séu öll tæki og tól til að skila góðu dagsverki, landi og lýð til heilla.