Húsið Rakarastofan Klapparstíg var þekkt fyrirtæki í bænum á árum áður.
Húsið Rakarastofan Klapparstíg var þekkt fyrirtæki í bænum á árum áður.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið neikvætt í ósk um að heimilaður verði veitingarekstur í húsinu Klapparstíg 29. Ástæðan er sú að hlutfall…

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið neikvætt í ósk um að heimilaður verði veitingarekstur í húsinu Klapparstíg 29. Ástæðan er sú að hlutfall smásöluverslunar á þessari götuhlið Klapparstígs er nú þegar undir viðmiðum.

Í þessu rými hússins á 1. hæð sem vísað er til var Rakarastofan Klapparstíg með rekstur um áratugaskeið. Það var félagið Cibo Amore ehf. sem lagði fram fyrirspurnina. Ítalskur veitingastaður með því nafni var opnaður í Kópavogi sl. sumar.

Í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa kemur fram að í gildi sé aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Samkvæmt því sé lóðin og byggingin á Klapparstíg 29 í miðborgarkjarna, M1a. Á því svæði sé sérstök áhersla lögð á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta.

Klapparstígur 29 er íbúðarhúsnæði með atvinnurými á jarðhæð, skráð sem hársnyrtistofa, byggt árið 1927 samkvæmt fasteignaskrá. Húsið reisti Valdimar Poulsen járniðnaðarmaður, sem stofnaði og rak samnefnt fyrirtæki. Óskað var eftir áliti skipulagsfulltrúa á rekstri veitingastaðar í atvinnurými hússins.

Á lóðinni gilda almennar miðborgarheimildir, segir í umsögn verkefnastjórans. Á því svæði má heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I–III, að skemmtistöðum undanskildum. Almennar miðborgarheimildir gera ráð fyrir opnunartíma lengst til kl. 3.00 um helgar/frídaga. Í rekstrarleyfi veitingastaða á þessu svæði má heimila útiveitingar, þó aldrei lengur en til kl. 23.00.

Umrædd lóð er innan skilgreinds götusvæðis nr. 16 í miðborg Reykjavíkur, skv. aðalskipulagi Reykjavíkur, þ.e. Klapparstígur, norður- og suðurhlið milli Laugavegs og Hverfisgötu. Á götusvæði nr. 16 er ákvæði um 50% lágmarkshlutfall smásöluverslunar. Forsenda samþykkis fyrir breyttri notkun húsnæðis við jarðhæðir er háð því að hlutfall smásöluverslunar fari ekki undir 50% við skilgreinda götuhlið. „Smásöluverslun er nú þegar undir 50%. Veitingastaður í þessu rými myndi minnka það hlutfall enn frekar og því er tekið neikvætt í erindið,“ segir í umsögninni.

Sem fyrr segir var Rakarastofan Klapparstíg á 1. hæð hússins um áratugaskeið. Rekstri hennar var hætt árið 2017 á 99 ára afmælinu. Í húsnæðinu hefur verið rekin fata- og hönnunarverslunin As We Grow.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson