Stoltur Rúrik er stoltur af því að hafa þorað að segja já við ýmsum verkefnum.
Stoltur Rúrik er stoltur af því að hafa þorað að segja já við ýmsum verkefnum. — Morgunblaðið/Eggert
„Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera ef maður leggur nógu mikla vinnu og metnað í verkefnið,“ svarar Rúrik Gíslason, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, þegar Kristín Sif og Þór Bæring spurðu hann hvort hann væri eins…

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

„Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera ef maður leggur nógu mikla vinnu og metnað í verkefnið,“ svarar Rúrik Gíslason, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, þegar Kristín Sif og Þór Bæring spurðu hann hvort hann væri eins og svissneskur vasahnífur sem gæti allt í viðtali í morgunþættinum Ísland vaknar.

„Ég fagna því að hafa alist upp við ákveðinn aga og held áfram að tileinka mér það. Ætli ég hafi það ekki frá fótboltanum, mömmu og pabba.“

Rúrik er ánægður með lífið sem stendur, er jákvæður að eðlisfari og er í skemmtilegri vinnu; „að ferðast, syngja og dansa, hitta og hlusta á mismunandi fólk“. Hann segist velja verkefnin sín vel og að það þurfi ekki allt að snúast um peninga. Líf hans tók óvænta stefnu eftir að hann sigraði í þýska dansþættinum Let's Dance árið 2021 sem byggður er á bresku þáttunum Dancing With The Stars. Síðan þá hefur hann haldið í dyggan aðdáendahóp út um allan heim og aðallega í Þýskalandi og fengið mörg spennandi verkefni í kjölfarið.

Þorði að segja já

„Ég bjóst ekki við að líf mitt myndi taka þessa beygju eftir fótboltann. Ég er bara gríðarlega hamingjusamur maður og skemmti mér vel. En maður verður að vera opinn fyrir því líka og ég er stoltur af sjálfum mér að hafa þorað að segja já við þessu öllu,“ segir Rúrik og vísar þá í tónlistarferilinn. Eins og frægt er orðið er Rúrik einn af Iceguys en með honum í hljómsveitinni eru þeir Aron Can, Friðrik Dór, Jón Jónsson og Herra Hnetusmjör. Þættirnir um Iceguys, sem sýndir voru í Sjónvarpi Símans, slógu hvert áhorfsmetið á fætur öðru og fengu þættirnir gríðarlega góða dóma. „Einhvern tímann kemur sá tímapunktur að það sem ég geri er lélegt og mun gera mig að fífli og þá verð ég tilbúinn til þess að taka það á kassann. En ég er stoltur að hafa þorað. Einn af mínum styrkleikum er að mér er nánast sama um hvað öðrum finnst.

Miðaldra karlmenn í geðrofi

Áður en þættirnir komu út vorum við eins og fimm miðaldra karlmenn í geðrofi. Ég er svo feginn að þættirnir séu komnir út og fólk sé búið að fatta þetta. Þjóðverjinn er ekki búinn að því og þau halda að ég sé búinn að fá drauminn uppfylltan,“ segir Rúrik hlæjandi og vísar í tímabil á síðasta ári þar sem fáir vissu hvert markmiðið með Iceguys væri í raun.

„Það er yfirleitt þannig að velgengni fylgir mikil vinna og áræði og þessir strákar eru þannig. Það er ástæða fyrir þeirra velgengni og gaman að vinna með þeim. Þeir eru klárir, góðir laga- og textahöfundar. Að því sögðu, að vinna með þessum gæjum þá er ekki alltaf auðvelt að hafa trú á sjálfum sér í tónlist því þeir eru svo brjálæðislega góðir. Það er auðvelt að vera með þessum strákum og missa trú á sjálfum sér í tónlistinni.“

Rúrik segir þá auðmjúka við viðbrögðunum á Iceguys, desember fór í stífar æfingar fyrir stórtónleikana sem þeir héldu í Kaplakrika fyrir jólin. Uppselt var á tónleikana löngu fyrir tímann og kepptist fólk við að næla sér í miða.

„Eftir fótboltann langaði mig að gera skemmtilega hluti og þetta er svo gaman. Ég sagði eiginlega nei við þessu fyrst, að verða hluti af Iceguys, aðallega vegna hræðslu við þýsk viðbrögð. En hugsaði svo: af hverju ekki að gera þetta!“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Rúrik í heild á vef K100.is.