Skíði Frítt hefur verið fyrir eldri borgara að fara á skíði í Bláfjöllum til þessa. Ný gjaldskrá tók gildi um áramótin en vetrarkort er á 36.120 krónur. Eldri borgarar furða sig á þessari hækkun.
Skíði Frítt hefur verið fyrir eldri borgara að fara á skíði í Bláfjöllum til þessa. Ný gjaldskrá tók gildi um áramótin en vetrarkort er á 36.120 krónur. Eldri borgarar furða sig á þessari hækkun. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Eldri borgarar hafa hingað til ekki þurft að greiða fyrir að nýta sér skíðasvæði sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en ný gjaldskrá tók gildi um áramótin. Vetrarkortið kostar nú 36.120 krónur. Ingibjörg H

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Eldri borgarar hafa hingað til ekki þurft að greiða fyrir að nýta sér skíðasvæði sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en ný gjaldskrá tók gildi um áramótin. Vetrarkortið kostar nú 36.120 krónur.

Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segist súr yfir því að gjaldskrárhækkunin hafi ekki verið borin upp í öldungaráði Reykjavíkurborgar.

Ekki lagt fyrir í öldungaráði

„Þetta kom mér á óvart og þetta hefur ekki verið lagt fyrir í öldungaráði. Ég er súr yfir því að þetta skuli ekki hafa verið rætt við okkur,“ segir Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið.

Í öldungaráði hafi nýlega verið rætt um kostnaðarhækkanir í sundlaugum borgarinnar og spyr Ingibjörg þá hvers vegna það sé ekki tilefni til þess að ræða kostnaðarhækkanir á skíði.

„Við erum alltaf að hvetja til þess að eldri borgarar stundi meiri hreyfingu og íþróttir,“ segir Ingibjörg.

Kemur þetta niður á mörgum?

„Já, sem betur er talsvert af fólki sem vill stunda skíðaíþróttina. Mér finnst alveg ómögulegt ef fólk getur ekki fengið að stunda [skíðaíþróttir] eins lengi og það getur hugsað sér,“ segir Ingibjörg.

Ekki fengið tækifæri til að mótmæla

Frítt hefur verið fyrir 67 ára og eldri á skíði og segir Ingibjörg að langstærsti hluti þeirra sem séu komnir á lífeyri 67 ára hafi lítið á milli handanna.

Eigendavettvangur skíðasvæðanna staðfesti fjárhagsáætlun skíðasvæðanna árið 2024 fyrir sitt leyti á fundi stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) 16. október.

Í áætluninni koma fram ýmsar gjaldskrárbreytingar, þar á meðal að fólk 67 ára og eldri verði rukkað. Ingibjörg frétti af nýja gjaldinu á milli jóla og nýárs.

„Við höfum ekki einu sinni fengið tækifæri til þess að berjast gegn þessu af því að þetta hefur ekki verið til umræðu í öldungaráði, en það var verið að ræða sundmál og kostnað. Af hverju er þetta ekki rætt líka?“ spyr Ingibjörg.