Mark Katla Tryggvadóttir fagnar marki á síðustu leiktíð. Hún skoraði 13 mörk á tveimur tímabilum með Þrótti, áður en hún samdi við Kristianstad.
Mark Katla Tryggvadóttir fagnar marki á síðustu leiktíð. Hún skoraði 13 mörk á tveimur tímabilum með Þrótti, áður en hún samdi við Kristianstad. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin átján ára gamla Katla Tryggvadóttir skrifaði fyrir áramót undir þriggja ára samning við sænska knattspyrnufélagið Kristianstad. Hún kemur til félagsins frá Þrótti í Reykjavík. Katla hefur leikið 26 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim tíu mörk

Svíþjóð

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Hin átján ára gamla Katla Tryggvadóttir skrifaði fyrir áramót undir þriggja ára samning við sænska knattspyrnufélagið Kristianstad. Hún kemur til félagsins frá Þrótti í Reykjavík. Katla hefur leikið 26 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim tíu mörk.

„Ég fór til reynslu hjá þeim í mars á síðasta ári og þau héldu síðan áfram að fylgjast með mér. Eftir tímabilið heima höfðu þau aftur samband og vildu fá mig,“ sagði Katla við Morgunblaðið um félagaskiptin.

Áhugi innanlands og erlendis

Eftir tvö góð ár hjá Þrótti höfðu fleiri félög augastað á Kötlu. „Það var bæði áhugi innanlands og erlendis en markmiðið mitt var alltaf að fara í toppklúbb á Norðurlöndunum og Kristianstad er það í Svíþjóð. Sænska deildin er mjög sterk og mjög spennandi. Ég held að þetta sé góður stökkpallur fyrir mig til að taka næsta skref og sanna mig í nýrri deild,“ sagði hún.

Þrátt fyrir ungan aldur er Katla klár í atvinnumennskuna. „Mér finnst ég vera tilbúin og þetta snýst meira um það en aldurinn. Ég er búin að eiga tvö góð tímabil á Íslandi og er tilbúin í nýja áskorun.“

Elísabet Gunnarsdóttir lét af störfum hjá Kristianstad eftir síðasta tímabil, eftir tæplega fimmtán ára veru hjá félaginu. Daniel Agergård og Johanna Almgren, sem unnu með íslenska þjálfaranum, eru tekin við.

„Það verða einhverjar breytingar en leikmannahópurinn er mjög svipaður. Þau náðu að halda í sína bestu leikmenn og ég hlakka rosalega til að vinna með nýjum þjálfurum, að kynnast leikmönnunum og leggja mitt af mörkum við að hjálpa félaginu. Ég vil sanna mig og sýna að ég sé nógu góð til að spila í sænsku úrvalsdeildinni. Svo þegar ég er tilbúin tek ég næsta skref á mínum ferli,“ sagði miðjukonan.

Fjölmargir Íslendingar hafa verið hjá Kristianstad á undanförnum árum. Hlín Eiríksdóttir er leikmaður liðsins, Emelía Óskarsdóttir er nýfarin frá félaginu og Sif Atladóttir lék með því lengi.

„Emelía er góð vinkona mín og ég talaði mikið við hana. Ég heyrði líka í Hlín og hef verið í sambandi við Íslendingana sem eru þarna. Emelía talaði um að hún hefði þroskast mikið á að vera þarna og að gæðin væru mikil,“ sagði Katla.

Sér Betu á öðrum stað

Katla fær ekki að spila undir stjórn Elísabetar að þessu sinni en útilokar ekki að leiðir þeirra liggi saman síðar meir. „Ég hefði alveg verið til í það. Ég átti gott spjall við hana þegar ég kom til þeirra í mars og ég held hún sjái mig bara seinna á öðrum stað.“

Katla var aðeins sextán ára gömul þegar hún ákvað að yfirgefa uppeldisfélagið Val og fara í Þrótt. Þar fékk hún strax stórt hlutverk og nú tveimur árum síðar er hún orðin atvinnumaður erlendis.

„Mér fannst ég tilbúin að spila í efstu deild á Íslandi og mér fannst ég sýna það þegar ég kom í Þrótt. Þetta var hárrétt skref á mínum ferli. Stundum þarf maður að taka eitt skref til baka til að taka eitt áfram. Það er samt engin ein rétt leið í þessu. Allir fara sína eigin leið,“ útskýrði Katla.

Hún var valin efnilegasti leikmaður Bestu deildarinnar bæði árin hjá Þrótti og hún skilur sátt við félagið og íslenskan fótbolta. „Ég er mjög stolt af því. Þegar leikmenn og þjálfarar eru að velja er þetta mjög mikill heiður,“ sagði Katla.