Auður Haralds rithöfundur lést á Landspítalanum í Fossvogi þriðjudaginn 2. janúar eftir stutt veikindi, 76 ára að aldri. Auður fæddist í Reykjavík þann 11. desember 1947. Foreldrar hennar voru Ellý Larsen Salómonsson forstjóri og Haraldur Salómonsson pípulagningameistari

Auður Haralds rithöfundur lést á Landspítalanum í Fossvogi þriðjudaginn 2. janúar eftir stutt veikindi, 76 ára að aldri.

Auður fæddist í Reykjavík þann 11. desember 1947. Foreldrar hennar voru Ellý Larsen Salómonsson forstjóri og Haraldur Salómonsson pípulagningameistari.

Auður starfaði sem blaðamaður, þýðandi, útvarpskona og pistlahöfundur og sinnti verslunar-, skrifstofu- og verksmiðjustörfum.

Fyrsta skáldsaga Auðar, Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, kom út árið 1979. Hún vakti mikla athygli og opnaði umræðu í samfélaginu um heimilisofbeldi og kvennakúgun.

„Auður fylgdi þeirri bók eftir með bókinni Læknamafían, lítil pen bók, sem út kom 1980, þar sem ráðist er að fjandsamlegu kerfi og hvunndagshetjan berst áfram gegn kvenfjandsamlegum viðhorfum. Hlustið þér á Mozart? kom út 1982 en verkið er íronísk ádeila á innantómt líf heimavinnandi húsmóður sem les formúlukenndar ástarsögur til að drepast ekki úr leiðindum. Síðar gerði Auður makalaust grín að þeirri bókmenntategund í Ung, há, feig og ljóshærð sem er paródía á slíkar ástarsögur,“ segir m.a. í andlátstilkynningu frá aðstandendum.

Auður skrifaði barnabækurnar um prakkarann Elías, þá fyrstu skrifaði hún ásamt Valdísi Óskarsdóttur. Unglingabókin Baneitrað samband á Njálsgötunni kom út 1985 en síðar var gerð leikgerð eftir henni sem sett var á svið í Íslensku óperunni og víðar.

Auður tilheyrir þeim hópi kvenrithöfunda sem hætti að mestu að skrifa á níunda áratugnum en árið 2007 skrifaði hún Litlu, rauðhærðu stúlkuna, barnabók með myndskreytingum eftir Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur. Árið 2000 birtist eftir Auði framhaldssaga á vefritinu Skrik.is sem kom síðan út á bók 2022 og nefnist Hvað er Drottinn að drolla?

Auður lætur eftir sig þrjú uppkomin börn; Ösp, Símon og Daníel, og þrjú barnabörn. Dóttir Auðar, Sara María, lést árið 2019.