Jónína Steinunn Þorsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 6. mars 1936. Hún lést á Skógarbæ 14. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Þórdís F. Guðmundsd., f. í Rvk. 7.7. 1908, d. 30.6. 1981 í Rvk., og Þorsteinn R. Bjarnas., f. 30.3. 1911 á Arnarst., Snæfellsn., d. 4.3. 2002 í Rvk.

Systur Jónínu eru Þórunn Rut, f. 2.10. 1937 í Rvk., maki Erling Jóhannsson, f. 26.6. 1933, d. 23.12. 2022, og Guðmunda K. Þorsteinsd., f. 21.11. 1940, d. 14.7. 2015, maki Jón Þ. Guðmundss., f. 23.8. 1933, d. 10.1. 1998.

Jónína giftist 25.12. 1955 Júlíusi R. Júlíuss., f. 17.12. 1932, d. 25.9. 1981. Foreldrar hans voru Ragnheiður K. Björnsd., f. 6.6. 1904,d. 29.10. 1996, og Júlíus Einarss., f. 24.7. 1902, d. 21.7. 1973. Júlíus átti áður tvö börn, sem eru: 1) Hjörtur, f. 1950, kvæntur Kristínu P. Magnúsd., f. 1949. Börn þeirra: a) Kristinn J., f. 1968, kvæntur Ingu Hrönn Óttarsd., f. 1973. Börn þeirra: a) Embla K., f. 1999, b) Óttar B., f.2001, c) Katrín L., f. 2007. b) Sigríður, f. 1969, d. 2014, börn hennar: a) Íris Ósk Einarsd. f. 1985, Maki Gísli Gíslas., f. 1982, börn þeirra eru Fróði H., f. 2008, og Anita D., f. 2014. b) Júlíus A.Þ., f. 2006. c) Hjörtur J., f. 1974. Dætur hans eru Hjördís B., f. 1993, og Málfríður I., f. 2010. d) Hákon I., f. 1990. 2) Guðmunda A., f. 1955. Börn Guðmundu: a) Ingvi H. Óskarss. f. 1974, maki Helga Árnad. f. 1979. Börn þeirra a) Steinunn, f. 2010. b) Guðmundur, f. 2012. Dóttir Ingva Hrafns frá fyrra sambandi: Ingibjörg, f. 2002. b) Eva E. Rúnarsd. f. 1985.

Júlíus og Jónína eignuðust fjögur börn, sem eru: 1) Hrafnhildur F., f. 1956, maður hennar Gústav B. Sverriss., f. 1956, Sonur Gústavs er Tryggvi F., f. 1979. Börn þeirra eru: a) Júlíus B., f. 1979, maki Cassandra Candin, f. 1979. Börn þeirra eru a) Birka, f. 2009, og b) Freya, f. 2012. b) María R., f. 1995, Maki Atli F. Jónss., f. 1995. Sonur þeirra er Jón Gústav B., f. 2023. 2) Júlíus, f. 1958, kvæntist Arndísi A. Halldórsd., f. 1964, þau skildu. Börn þeirra: a) Júlíus R., f. 1982, Sonur hans er Alexander, f. 2003. b) Atli M., f. 1988. c) Lilja D., f.1997. 3) Ragnheiður, f. 1960. Maður hennar Óli Gunnarsson, f. 1957, börn þeirra: a) Þröstur, f. 1988, Dóttir hans er Magnea R., f. 2010. b) Nína R., f. 1995. Maki er Eiríkur Þ. Bjarkarss., f. 1995, Sonur þeirra, ónefndur, f. 2023. 4) Bjarni Þ., f. 1966, d. 2015, Börn hans: a) Líney R., f. 1989. Maki Valgeir Ólafss., f. 1986. Sonur þeirra Ásmundur Ó., f. 2021. b) Kristín M., f. 1990. Maki Guðni M. Grétarss., f. 1993. c) Arnaldur, f. 1991. Maki Snæfríður B. Hreiðarsd. f. 1998. d) Steinunn R., f. 2003. Maki Arnar M. Rúnarss., f. 2000.

Jónína gekk í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, fór síðan í húsmæðraskóla.

Hún vann ýmis þjónustustörf ásamt því að ala upp börnin, m.a. starfaði hún á saumastofu Feldsins, í loftskeytastöðinni Gufunesi í 20 ár, síðar í verslun Kristjáns Siggeirssonar, á kaffistofu Nýherja og í Sundlaug Seltjarnarness. Hún var listræn, málaði og orti, var mikill fagurkeri. Henni gafst tækifæri til að ferðast um heiminn og einnig naut hún þess að fara á alls kyns listviðburði.

Jónína verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í dag, 4. janúar 2024, klukkan 13.

Móðir okkar Jónína Steinunn Þorsteinsdóttir, alltaf kölluð Ninna, fæddist og ólst upp í Reykjavík, Njálsgötu 108, á heimili foreldra sinna, Þorsteins Rúts Bjarnasonar bónda og síðar sjómanns frá Arnarstapa á Snæfellsnesi og Þórdísar Fjólu Guðmundsdóttur húsmóður og verkakonu í Reykjavík.

Mamma var ævintýraprinsessa með góða nærveru. Alltaf glæsileg, vel tilhöfð og fallega förðuð. Hún fór sínar eigin leiðir og spurði engan. Hún hafði takmarkað tímaskyn, mætti bara þegar hún mætti og stundum gat það verið löngu á eftir áætlun. Það var engu líkara en að hún dveldi stundum í annarri vídd.

Þegar ég hugsa til baka um mömmu þá man ég eftir henni í fallegri grasgrænni kápu með barðastóran hatt í sama lit. Hún var eins og Parísardama, húsmóðirin í Hátúninu. Hún var mjög tilfinninganæm, mátti ekkert aumt sjá né vita af. Ef hún vissi af einhverjum sem átti bágt þá vildi hún ávallt hjálpa. Oft sendi hún matarkörfu til einstæðra mæðra fyrir jólin og var það nafnlaust. Hún hafði einstakt lag á að láta hlutina ganga upp, þótt oft væri þröngt í búi hjá henni. Hún fékk t.d. oftar happdrættisvinninga en nokkur annar sem ég þekki. Vinningarnir voru ekki stórir en hjálpuðu þegar þörfin var mest.

Mamma kynntist pabba í Tívolíinu í Vatnsmýrinni, Það var ást við fyrstu sýn og voru þau gift ári seinna. Pabbi lærði múrverk og var mikill keppnismaður í íþróttum.

Hann spilaði fótbolta með meistaraflokki Breiðabliks. Seinna fékk hann áhuga á golfi og varð meðlimur Keilis í Hafnarfirði. Golfið átti fljótt hug hans allan. Líf þeirra snerist um að koma upp börnum og frístundirnar voru flestar í kringum golfið. Fljótlega varð hann landsliðsmaður og í einni slíkri keppnisferð dundi stóra áfallið yfir fjölskylduna. Hann lést í bílslysi 25. september 1981. Mamma var þá 45 ára og yngsti bróðir okkar, Bjarni Þór, á 15. ári.

Það birti aftur til í lífi mömmu þegar henni var boðið út með golfurum rúmu ári seinna til Spánar. Þar hitti hún Sigurð Þ. Guðmundsson lækni, en hann hafði þá stuttu áður orðið ekkill. Það var eins og við manninn mælt, næstu 25 árum eyddu þau saman og ferðuðust víða um heiminn. Siggi sótti mörg læknaþing og mamma fór oftast með honum.

Þau ferðuðust víða og fóru oft til Taílands. Siggi gerði allt fyrir mömmu, einu sinni þegar þau voru stödd á læknaþingi í Ameríku leigði hann litla einkaflugvél sem fór með þau til Havaí. Þau sóttu einnig mikið ýmsa listviðburði. Á þessum tíma hafði afkomendum mömmu fjölgað mikið og Siggi tók glaður að sér afahlutverkið. Siggi lést því miður af eftirstöðvum heilablóðfalls árið 2007. Eftir það eignast mamma vin og ferðafélaga, Ólaf Val Sigurðsson fyrrverandi skipherra. Hann lést 2017. Tveimur árum áður eða 2015 hafði yngsti sonurinn Bjarni Þór látist úr krabbameini aðeins 48 ára og var hann okkur í fjölskyldunni mikill harmdauði. Mamma átti við heilsubrest að stríða síðustu árin og dvaldi á Hrafnistu Skógarbæ.

Færum við starfsfólki kærar þakkir fyrir góða umönnun.

Hvíl í friði elsku mamma.

Hrafnhildur F., Júlíus, Ragnheiður og fjölskyldur.