Lægð Janúarmánuður er harður í horn að taka.
Lægð Janúarmánuður er harður í horn að taka. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nú veit ég ekki hvenær þessi ljósvaki birtist og annaðhvort er stutt í áramót eða nýtt ár gengið í garð. Við erum flest búin að borða ítrekað yfir okkur og búin að fitna svolítið eins og púkinn á fjósbitanum

Helgi Snær Sigurðsson

Nú veit ég ekki hvenær þessi ljósvaki birtist og annaðhvort er stutt í áramót eða nýtt ár gengið í garð. Við erum flest búin að borða ítrekað yfir okkur og búin að fitna svolítið eins og púkinn á fjósbitanum. Nú tekur við sá mánuður sem flestum þykir hvað leiðinlegastur (svo ég haldi nú áfram að hressa þig við, kæri lesandi) með alls konar hækkunum á útgjöldum og almennum leiðindum. Svo er veðrið líklega viðbjóður í ofanálag. Þeir sem efni hafa á eru mjög líklega flúnir til útlanda, í sólina á Tenerife eða á annan sólríkan stað. Við hin fáum að vita af því á Facebook hvað allt er frábært hjá þeim en ekki okkur. Til þess er jú fésbókin, fyrst og fremst.

En bíðum nú við, fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Janúar er í raun bara frábær mánuður því maður þarf enga afsökun fyrir því að hanga inni í hlýjunni og lesa góða bók. Það má borða fisk og kartöflur. Enda varla peningur fyrir neinu fínna. Maður hefur varla efni á því að fara út fyrir hússins dyr. Í janúar má líka fagna því að allt jóladraslið í sjónvarpinu er farið, lélegu jólamyndirnar og lélegu jólaþættirnir. Í byrjun árs koma líka bestu myndirnar í bíó og þá er nú veisla fyrir bíónerði. Engar gamlar lummur, allt nýtt og vonandi ferskt. Er janúar kannski vanmetnasti mánuður ársins? Gleðilegan janúar.