Sprengjuárás Fólk flýr eftir að tvær sprengjur sprungu nálægt mosku í borginni Kerman í suðurhluta Írans í gær. Enginn hefur lýst ábyrgð.
Sprengjuárás Fólk flýr eftir að tvær sprengjur sprungu nálægt mosku í borginni Kerman í suðurhluta Írans í gær. Enginn hefur lýst ábyrgð. — AFP/Mehr News
Yfir hundrað létu lífið í tveimur sprengingum nálægt gröf íranska hershöfðingjans Qasem Soleimanis þegar þess var minnst að fjögur ár eru liðin frá því að Bandaríkjaher réð hann af dögum í drónaárás í nágrannaríkinu Írak 3

Yfir hundrað létu lífið í tveimur sprengingum nálægt gröf íranska hershöfðingjans Qasem Soleimanis þegar þess var minnst að fjögur ár eru liðin frá því að Bandaríkjaher réð hann af dögum í drónaárás í nágrannaríkinu Írak 3. janúar 2020.

IRNA, opinber fréttastofa Írans, sagði að yfir 140 hefðu særst í sprengingunum. Enginn hafði síðdegis í gær lýst yfir ábyrgð á árásinni en íranska ríkissjónvarpið sagði að um hefði verið að ræða hryðjuverkaárás. Írönsk stjórnvöld lýstu yfir sólarhrings-þjóðarsorg vegna sprengjuárásarinnar.

Sprengingarnar urðu nálægt mosku í borginni Kerman þegar nokkur hundruð manna voru á göngu í átt að gröf Soleimanis en þar átti að fara fram minningarathöfn um hann. Árásin magnar enn spennuna í Mið-Austurlöndum sem þegar er mikil, m.a. eftir að einn af leiðtogum Hamas-samtakanna lét lífið í drónaárás á byggingu í Beirút í Líbanon. Almennt er talið að Ísraelsmenn beri ábyrgð á þeirri árás þótt þeir hafi ekki viðurkennt það.

Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði í gær að herinn væri við öllu búinn á svæðinu.

Ísraelsmenn og Íranar hafa lengi verið svarnir fjandmenn og vopnaðir hópar sem njóta stuðnings Írana í Líbanon, Írak, Sýrlandi og Jemen hafa fært sig upp á skaftið eftir að hernaðarátök Ísraelsmanna og Hamas á Gasasvæðinu hófust í október.

Qasem Soleimani var talinn vera einn valdamesti maðurinn í Íran og náinn samstarfsmaður Ali Khameneis, æðstaklerks Írans. Hann stýrði svonefndum Quds-sveitum íranska byltingavarðarins, úrvalssveitum íranska hersins og þeim armi sem sinnti aðgerðum utan Írans. Soleimani var um árabil, hvort sem var í Líbanon, Sýrlandi eða annars staðar, lykilmaðurinn í að auka áhrif Írana í Mið-Austurlöndum, m.a. með árásaraðgerðum. Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, sem fyrirskipaði árásina, sagði þá að Soleimani væri einn helsti hryðjuverkamaður heimsins, hvar sem niður væri borið og sagði hann hafa áratugina á undan lagt á ráðin um árásir á og einnig ráðið af dögum hundruð amerískra borgara og hermanna. gummi@mbl.is