Framboð Arnar Þór kynnti fjölmiðlum framboð sitt í gær.
Framboð Arnar Þór kynnti fjölmiðlum framboð sitt í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi héraðsdómari, hyggst bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi á heimili sínu í Garðabæ í gær

Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi héraðsdómari, hyggst bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi á heimili sínu í Garðabæ í gær. Er hann fyrstur til að lýsa yfir formlegu framboði fyrir forsetakosningar í sumar.

Jafnframt tilkynnti Arnar Þór um úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum og segir hann sig um leið frá varaþingmennsku fyrir flokkinn í Suðvesturkjördæmi.

Fulltrúalýðræðið að bregðast

Arnar hyggst sem forseti, verði hann kjörinn, beita sér fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar og telur mikilvægt að staldra við og skoða það valdaframsal sem þegar hafi átt sér stað og að mikilvægt sé að beita sér fyrir aðkomu þjóðarinnar að frekara valdaframsali í gegnum EES-samninginn.

Í ávarpi sínu á blaðamannafundinum vísaði hann til þess að Íslendingar hefðu frá örófi alda þurft að lúta erlendu valdi. Á þeim grunni hefði svo sjálfstæðisbaráttan verið háð. Nú væri Ísland enn á ný á tímamótum. „Á grundvelli viðskiptasamnings EES-samningsins seilist ESB nú eftir því að ráða lögum hérlendis í sífellt ríkari mæli. Í nafni öryggis seilast erlendar stofnanir nú til áhrifa og ítaka hér á landi.“

Hann telur að fulltrúalýðræðið sé að bregðast hvað valdaframsal varðar og að taka þurfi upp beint lýðræði í auknum mæli.

„Við eigum að stjórna okkar eigin för, okkar eigin landi, okkar eigin framtíð. Af því leiðir að ef fulltrúalýðræðið er að bregðast, þá verðum við að taka upp beint lýðræði í mikilvægustu málum,“ sagði Arnar Þór. vidar@mbl.is