Uppbygging Þrívíddarlíkan af fyrirhugaðri metanverksmiðju Nordur PTX.
Uppbygging Þrívíddarlíkan af fyrirhugaðri metanverksmiðju Nordur PTX. — Tölvumynd/Verkís
Skipulagsstofnun hefur birt álit um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðslu á metani og vetni á Reykjanesi. Reisa á 56 MW verksmiðju við Reykjanesvirkjun innan Auðlindagarðs HS Orku með ársframleiðslu á allt að 14 þúsund tonnum af grænu vökvagerðu metangasi.

Skipulagsstofnun hefur birt álit um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðslu á metani og vetni á Reykjanesi. Reisa á 56 MW verksmiðju við Reykjanesvirkjun innan Auðlindagarðs HS Orku með ársframleiðslu á allt að 14 þúsund tonnum af grænu vökvagerðu metangasi.

Fram kemur í svörum forsvarsmanna verkefnisins við fyrirspurn Skipulagsstofnunar um hvort tilhögun framkvæmdarinnar breytist vegna jarðhræringanna og kvikuhlaupsins við Svartsengi og Grindavík, að afstaða framkvæmdaaðila sé sú að halda málinu áfram eins og áætlað var. Ef aðstæður breytist síðar þá verði tekist á við það og þá hvaða leiðir væru fýsilegar og hverjar yrðu þá fyrir valinu.

Það er félagið Nordur PTX, íslenskt dótturfélag svissneska orkufyrirtækisins Swiss Green Gas International Ltd, sem undirbýr byggingu verksmiðjunnar við hlið Reykjanesvirkjunar. Greint var frá því hér í blaðinu í lok árs 2022 þegar áformin voru kynnt að framleiða á í verksmiðjunni vetni með rafgreiningu og að hægt verði að nýta hluta þess sem hráefni hjá öðrum fyrirtækjum í Auðlindagarði HS Orku og einnig sem eldsneyti í samgöngum hér á landi. Markmiðið er að koldíoxíð sem fengið verður úr afgasi jarðvarmavirkjunar HS Orku í Svartsengi, ásamt vetni sem er framleitt úr vatni með rafgreiningu, verði notað til að framleiða metan til eldsneytisnotkunar í Evrópu. Við framkvæmdirnar stendur einnig til að leggja gaslögn frá jarðvarmavirkjuninni í Svartsengi að verksmiðjunni og setja þar upp þrýstibúnað.

Í umsögn hvatti Náttúrufræðistofnun framkvæmdaaðila að endurskoða áhrif náttúruvár vegna jarðhræringanna við Grindavík og Umhverfisstofnun benti á að gera þyrfti grein fyrir mögulegum áhrifum af hraunrennsli á gaslögnina á milli Svartsengis og Reykjanesvirkjunar. Í svörum Nordur PTX vegna atburðanna á Reykjanesi segir að verksmiðjan sjálf sé betur staðsett en möguleg gashreinsistöð í Svartsengi. Ef eldgos eða hraunrennsli myndi eyðileggja lögn eða stöðva starfsemi í Svartsengi sem valdi því að verksmiðjan fái ekki afgas frá Svartsengi sé tæknilega mögulegt að nýta afgas frá Reykjanesvirkjun.

Vakta áhrif á strandumhverfi

Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar segir m.a. að áform Nordur PTX felist í umbreytingu raforku í eldsneyti sem er ætlað að koma í stað jarðefnaeldsneytis. „Framleiðsluferlið hefur í för með sér jákvæð áhrif á loftgæði umhverfis Svartsengi þar sem stórlega dregur úr útblæstri orkuversins þar. Munar þar mestu að brennisteinsvetni er fjarlægt og mun útblástur þess við Svartsengi nær alveg hætta. Nema ef ákveðið verður að starfrækja gashreinsistöðina í Svartsengi, þá mun lítilræði af brennisteinsvetni berast til andrúmslofts þar. Stærstur hluti brennisteins mun berast á föstu formi með frárennsli til sjávar. Í öllum tilfellum mun því draga stórlega úr útblæstri hans. Jafnframt mun draga úr útblæstri koldíoxíðs vegna notkunar þess í metanframleiðslu.“

Bent er á að mengunarefni sem berast frá starfseminni séu til staðar í losun jarðhitavirkjana á Reykjanesi en meðferð brennisteins sem muni nær alveg hverfa úr útblæstri við Svartsengi muni þess í stað berast á föstu formi með frárennsli Reykjanesvirkjunar til sjávar. Mikil óvissa sé um áhrif þess á umhverfið að losa brennistein á þessu formi til sjávar. Vakta þurfi sérstaklega hvort og þá hvaða áhrif það hefur á strandumhverfið. omfr@mbl.is