Varnargarður Vinna við varnargarðinn norðan Grindavíkur er hafin og á að vera lokið á 10-14 dögum.
Varnargarður Vinna við varnargarðinn norðan Grindavíkur er hafin og á að vera lokið á 10-14 dögum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kostnaður við byggingu varnargarðs við Svartsengi liggur ekki endanlega fyrir, en líklegt er talið að hann verði á bilinu 2-2,5 milljarðar. Þetta segir Sigurþór Guðmundsson deildarstjóri hjá Vegagerðinni, en hann hefur með höndum stjórn á því…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Kostnaður við byggingu varnargarðs við Svartsengi liggur ekki endanlega fyrir, en líklegt er talið að hann verði á bilinu 2-2,5 milljarðar.

Þetta segir Sigurþór Guðmundsson deildarstjóri hjá Vegagerðinni, en hann hefur með höndum stjórn á því verkefni sem varðar uppbyggingu varnargerða við Grindavík og Svartsengi. Endanlegur kostnaður liggur þó enn ekki fyrir.

Varnargarðurinn við Svartsengi er að mestu fullkláraður, en skilin hafa verið eftir skörð fyrir vegi, en efni hefur verið safnað til að fylla í þau ef til kemur. Einnig á eftir að ljúka frágangi við að verja möstur Landsnets á svæðinu.

Skýringin á því af hverju varnargarðurinn í Svartsengi er áætlaður mun ódýrari en sá sem koma á upp við Grindavík er sú að efnismagn er þar minna sem og að Grindavíkurgarðurinn krefst mun meira aðflutts efnis en sá við Svartsengi.

Nú er að hefjast vinna við Grindavíkurgarðinn hinn minni, en sá er norðurhluti garðsins til vesturs. Hann verður ekki í fullri hæð til að byrja með, en þegar hann verður fullbúinn verður efnismagn í honum þrefalt það sem nú er áætlað.

Minni Grindavíkurgarðurinn verður um 2 km að lengd og um 5 m að hæð að jafnaði til að byrja með, en gert er ráð fyrir að sá stærri verði 6-7 km langur og skotið er á að efnismagn verði um 920 þúsund rúmmetrar. Kostnaður við garðinn er á bilinu 5-6 milljarðar skv. fyrirliggjandi áætlun. Meirihluti kostnaðarins verður vegna aksturs efnis á svæðið. Kostnaður við minni garðinn er áætlaður um 400 milljónir. Grindavíkurgarðurinn minni ætti að klárast á næstu 10-14 dögum, að sögn Sigurþórs.

Efni úr námu í Stapafelli

Efnið í varnargarðinn í Svartsengi hefur að hluta til komið úr næsta nágrenni garðsins þar sem efni hefur verið ýtt upp í hann. Þá hefur efni verið ekið inn frá námu í Stapafelli, en einnig hefur efni komið úr Melhól sem þó er á hættusvæði.

Talsverður munur er á kostnaði við efni sem ýtt er upp og umtalsvert minni en það sem aðflutt er, en það er u.þ.b. fimmfalt dýrara en hitt. Munurinn ræðst einkum af kostnaði við tæki.

Langstærsti hluti kostnaðarins er vegna vinnuvéla, sem eru 50-60 talsins, en það eru einkum stórar ýtur og gröfur, en einnig jarðvegsflutningabílar, svokallaðar búkollur, sem notaðar hafa verið við verkið.

Samið var við verktakana sem þessum verkum sinna um samræmda gjaldskrá sem ekki er gerð opinber. Unnið er á tímagjöldum og vöktum allan sólarhringinn. Ýturnar eru frá 120 tonnum niður í 20-30 tonn og kostar tíminn á 120 tonna ýtu um 140 þúsund. Akstur með efni er nálægt 10 þúsund krónum á tímann og er mannakaup þar ekki innifalið.

Sex verktakar auk undirverktaka hafa einkum komið að þessum verkefnum, en það eru Ístak, ÍAV, Ellert Skúlason, Suðurverk, Sveinsverk og fleiri.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson