Bláfjöll Sveitarfélögin hafa lagt í mikinn kostnað á skíðasvæði Bláfjalla með fljótari lyftum, gervisnjó og miklu betri aðstöðu á öllu svæðinu.
Bláfjöll Sveitarfélögin hafa lagt í mikinn kostnað á skíðasvæði Bláfjalla með fljótari lyftum, gervisnjó og miklu betri aðstöðu á öllu svæðinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Við erum búin að vera að byggja upp í Bláfjöllum fyrir marga milljarða og það er verulega breytt aðstaða og í haust fórum við að skoða alla gjaldskrána eins og hún leggur sig,“ segir Þorvaldur Daníelsson, formaður samstarfsnefndar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um skíðasvæðin

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við erum búin að vera að byggja upp í Bláfjöllum fyrir marga milljarða og það er verulega breytt aðstaða og í haust fórum við að skoða alla gjaldskrána eins og hún leggur sig,“ segir Þorvaldur Daníelsson, formaður samstarfsnefndar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um skíðasvæðin.

Eins og fram kom í blaðinu í gær varð sú breyting um áramótin að eldri borgarar njóta ekki lengur ókeypis aðgangs að skíðasvæði sveitarfélaganna í Bláfjöllum, heldur kostar kortið fyrir veturinn nú 36.120 krónur. Hann segir að því miður hafi þetta ekki verið rætt á vettvangi eldri borgara hjá sveitarfélögunum, en til standi að ráða bót á því á næstu dögum.

Ungmennagjald fellt niður

„Þegar við vorum að fara yfir þetta ákváðum við að gera þá breytingu að fella út ungmennakort, sem var millibilsflokkur 16-18 ára unglinga, en núna borga þeir sama gjald og börn,“ segir Þorvaldur og segir að þessi flokkur hafi verið búinn til á fyrir mörgum árum, en öll sveitarfélögin hafi verið sammála um að einfalda gjaldskrána og mæta frekar þessum hópi ungmenna, sem mörg væru á eigin vegum fjárhagslega, en elsta hópnum.

„Það var mikið rætt bæði í samstarfsnefndinni og hjá sveitarfélögunum hvort við ættum að halda áfram að hafa fríkort fyrir þá sem eru eldri en 67 ára og fólk var eiginlega á einu máli um að það væri kannski ekki ástæða til þess og það var samþykkt.“ Hann segir að í umræðunni hafi komið fram ýmis rök sem hníga að því að það sé ekki ástæða til að hafa skíðakortin gjaldfrjáls fyrir þennan hóp. „Þetta er ekki verst setti hópurinn í samfélaginu. En ef einhver er þannig staddur að þessi breyting sé honum of erfið, þá er félagslega kerfið okkar þannig uppbyggt að fólk getur leitað eftir styrkjum.“

Veit ekki hvort sundkort hækka

Þorvaldur segir það af og frá að verið sé að letja eldri borgara til hollrar útivistar og það sé þjóðhagslega hagkvæmt að sem flestir, óháð aldri, stundi útivist. Þá skipti líka máli að í nærumhverfi fólks séu góðir göngustígar, sundlaugar og önnur tækifæri til hreyfingar. Þegar hann er spurður hvort standi kannski líka til að hækka verðið í sund fyrir eldri borgara segir hann að það sé utan síns sviðs en hann hafi ekki heyrt af neinu slíku.

„En ég veit að það er líka verið að kalla eftir endurskoðun á öllum hækkunum hjá ríki og sveitarfélögunum af samningamönnum stéttarfélaganna,“ segir hann. „Hvort þetta er eitt af því er ég ekkert svo sannfærður um. Við verðum að horfa á að við erum að bjóða upp á allt aðra þjónustu á skíðasvæðinu, með hraðari lyftum, snjóframleiðslu og fleiru.“

„Algjör skandall“

Hann segir að til sín hafi komið maður sem hafi sagt hækkunina „algjöran skandal“ og hann hafi ákveðið að kaupa ekkert skíðakort heldur fara í íbúðina sína í Sviss eða Austurríki og fara á skíðasvæðið þar. „Félaginn ætlaði þar að borga meira en helmingi hærra verð til þess að nýta sér skíðaaðstöðuna, eða talsvert yfir 70 þúsund, og fannst það ekkert mál.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir