Rakel Sigríður Jónsdóttir fæddist á Akureyri 17. júní 1941. Hún lést á Sóltúni í Reykjavík 14. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Jón Þorkelsson Björnsson skipstjóri, f. 5. september 1913, d. 22. mars 1942, og Júlíana Jónsdóttir, f. 22. september 1917, d. 14. september 2003. Fósturfaðir Rakelar var Björn Stefánsson skólastjóri, f. 9. nóvember 1914, d. 30. mars 1986.

Rakel var elst fimm systkina. Hálfsystkini hennar eru Jón Þór Björnsson mælingaverkfræðingur, f. 17. febrúar 1945, d. 5. júlí 2022, Stefán Björnsson læknir, f. 12. febrúar 1949, Ermenga Stefanía Björnsdóttir kennari, f. 11. apríl 1951, og Hörður Björnsson læknir, f. 12. júlí 1956.

Eftirlifandi eiginmaður Rakelar er Indriði Haukur Þorláksson hagfræðingur. Þau gengu í hjónaband 28. ágúst 1964. Foreldrar hans voru Þorlákur Björnsson bóndi Eyjarhólum, f. 23. desember 1899, og Ingibjörg E.E. Indriðadóttir, f. 3. ágúst 1910.

Börn Rakelar og Indriða eru: 1) Júlíana Rún píanóleikari, skólastjóri Tónskóla Sigursveins, f. 14. janúar 1965. Sambýlismaður hennar er Gunnar Freyr Stefánsson stærðfræðingur. Dóttir hennar er Neval Rakel Kamilsdóttir ferðamálafræðingur, f. 22. ágúst 1991. 2) Indriði Haukur stjórnmálafræðingur, prófessor við Kaliforníuháskóla, f. 27. júlí 1970. Sambýliskona hans er Na-yon Nam svæfingalæknir í Washington DC. 3) Úlfhildur Ösp mannauðsfræðingur hjá Advania, f. 20. nóvember 1974. Sonur hennar er Unnsteinn Orri Ping An nemandi, f. 17. desember 2013.

Rakel ólst upp á Ólafsfirði, stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og starfaði sem meinatæknir við Sjúkrahúsið á Akureyri þar til hún flutti til V-Berlínar 1965 og bjó þar til 1970. Hún nam píanóleik frá unga aldri og hélt því áfram eftir dvölina í Berlín og lauk píanókennaranámi frá Tónskóla Sigursveins 1988, þar sem hún starfaði sem píanókennari frá 1978 til 2011. Hún stundaði framhaldsnám í píanóleik hjá kennara við Kaþólska háskólann í Washington DC 1990-91 og var í framhaldsnámi við Listaháskólann í Berlín 2004-05. Auk tónlistar voru mannúðarmál Rakel hugleikin, einkum hjálp við börn í vanþróuðum ríkjum sem hún studdi sem styrktarforeldri og með öðrum fjárframlögum.

Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 5. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku mamma kvaddi jarðlífið í desember, tæpum fjórum árum eftir heilablóðfall og lömun sem skerti lífsgæði hennar mikið og breytti persónuleikanum. Hún brosti samt ennþá og skellti upp úr því húmorinn var ekki farinn þótt hún talaði ekki mikið. Mamma var annars alla tíð svo ræðin og skemmtileg, og átti auðvelt með að kynnast fólki á öllum aldri og þjóðerni. Hún var umhyggjusöm móðir og amma, sem var alltaf til staðar fyrir fjölskylduna, studdi við börnin sín og hvatti þau áfram. Yndisleg manneskja, kærleiksrík og hjálpsöm, sem sýndi öllum í kringum sig umhyggju hvort sem það voru gömlu frænkurnar eða útlendingar sem voru að reyna að fóta sig á Íslandi. Mamma var fordómalaus og með sterka réttlætiskennd. Hún átti vini alls staðar að, bæði frá dvöl sinni í Þýskalandi og Bandaríkjunum og marga vini úr hópi innflytjenda á Íslandi sem hún hjálpaði að læra tungumálið og myndaði vinskap við. Hún tók líka taílenska skiptinemann minn að sér sem myndaði sterk tengsl við íslensku ömmuna sína. Mamma fylgdist mjög vel með ástandinu í heiminum og tók stríðsátök og hörmungarnar sem því fylgja mjög nærri sér. Henni var sérstaklega annt um flóttafólk. Mannúðarmál voru henni hjartans mál og hún þoldi ekki kúgun og óréttlæti.

Mamma átti áberandi mikið af vinum sem voru miklu yngri en hún. Hún var góður og skemmtilegur píanókennari, uppskar mikið þakklæti frá nemendum sínum og fjölmargir þeirra héldu sambandi við hana í tugi ára eftir að þeir hættu námi. Hún lagði sig líka alla fram við kennsluna og gróf upp mikið af píanótónlist sem henni fannst falleg og henta nemendum. Hún hafði ákveðinn smekk á tónlist og hélt mest upp á Bach, Mozart, Schumann og ekki síst fjölbreytta tónmálið hjá mörgum 20. aldar tónskáldum í Frakklandi og Rússlandi. Mamma hafði líka mikinn áhuga á djassi og spilaði djass í hljómsveit á unglingsárunum. Mamma var listræn og smekkleg sem kom fram í mjög sjálfstæðu fatavali og litríku og fallegu heimili. Hún var mjög fastheldin á hárstíl, sem var sá sami í áratugi, og hún klippti sig alltaf sjálf. Mamma hafði líka mikinn áhuga á myndlist frá unga aldri, átti mikið safn listaverkabóka sem við skoðuðum gjarnan eftir að hún missti heilsuna. Mamma var ótrúlega dugleg og lét ekki deigan síga þrátt fyrir áratuga sjúkrasögu. Hún hafði verið lömuð í tæp tvö ár sem unglingur, varð hjartasjúklingur upp úr fimmtugu sem hafði mikil áhrif á heilsufarið síðustu 30 árin. Þrátt fyrir það fór hún í námsleyfi í heilt ár til Berlínar þar sem hún sótti fjölda áfanga í tónlistarháskólanum og sinnti starfi sínu alla tíð frábærlega. Takk fyrir kærleikann og stuðninginn elsku mamma.

Júlíana Rún Indriðadóttir.

Elsku mamma mín. Það er sárt að kveðja. En ég er svo þakklát að eiga hafsjó af fallegum minningum til að ylja mér við og mun geyma þær í hjarta mínu ævilangt. Mamma var góð manneskja. Henni þótti afar vænt um fjölskylduna og var alltaf til staðar, boðin og búin að hjálpa eða létta undir. Ég átti svo ótal margar skemmtilegar og góðar stundir með mömmu. Hún var líka einstaklega góð amma, ljúf og blíð og tók svo fallega á móti Orra mínum sem sótti í að heimsækja hana, og eftir að mamma veiktist átti hann til að koma sér fyrir í rúminu hjá henni og nutu þau samverunnar.

Við vorum mjög nánar, töluðum saman á hverjum degi, hlógum og fífluðumst, fengum stundum hláturskast sem enginn skildi nema við. Í þessu tilliti er mér minnisstætt að þegar mamma ætlaði að segja frá einhverju fyndnu, þá gat hún það oftast ekki fyrir hlátri og það endaði með því að við hlógum eins og vitleysingar þótt sagan hefði kannski ekki alltaf skilað sér almennilega. Ég á einmitt svo margar minningar úr æsku þegar amma var í heimsókn og þær tvær, sem voru svo miklar vinkonur, sátu fram eftir í eldhúsinu í hláturskasti.

Með hlýju og umhyggju lagði hún inn hjá mér mikilvæg gildi til að hafa að leiðarljósi í lífinu, gildi sem hún lifði sjálf eftir og birtist í lífssýn hennar, vinnu og framkomu. Að koma eins fram við alla, af virðingu, að dæma ekki, heldur vera forvitin, vilja læra og skilja það sem maður ekki þekkir, vera opin gagnvart ólíku fólki, óháð aldri, óháð menningu eða hvaðan sem það kemur. Hún var opin og víðsýn, auk þess hafði hún einstaklega góða nærveru. Mömmu var umhugað um fólk almennt og ekki síst um þá sem máttu sín minna. Hún var réttsýn og mannréttindi voru henni hugleikin. Hún styrkti ýmis mannúðarmál, þá sérstaklega bágstödd börn og konur.

Mamma var mikil listakona og listrænir hæfileikar hennar fléttuðust inn í allt sem hún gerði; tónlistina sem hún spilaði og kenndi og hönnunarhæfileikana sem birtust í lita- og fatavali, saumaskap, húsmunum og föndri sem hún nostraði við til að skreyta heimilið. Hún hafði sinn eigin stíl og var einstaklega smekkleg. Dökkfjólubláa loftið í stofunni í Nökkvavoginum vakti athygli margra – enda öðruvísi en afar smart. Hún elskaði blóm og ræktaði garðinn sinn af alúð, með hjálp pabba.

Mamma var píanókennari af lífi og sál. Hún kenndi stundum heima og ég sá því hversu lagin hún var við nemendur sína, að nálgast þá og opna þeim leið inn í ævintýraheim tónlistarinnar. Traustur vinskapur myndaðist hjá mörgum þeirra við mömmu sem varð til þess að þeir héldu sambandi löngu eftir að þeir hættu námi.

Þótt tónlistin hafi átt stærstan sess í lífi hennar þá hafði mamma mikinn áhuga á myndlist og átti sína uppáhaldslistamenn. Hún tók sér árshlé frá kennslu, um sextugt, fór til Berlínar m.a. til að sinna þessu áhugamáli samhliða tónlistinni og naut þess mjög vel. Ég heimsótti hana í litlu íbúðina sem hún hafði skreytt afar smekklega, eins og henni var einni lagið. Þar áttum við dásamlegar stundir saman.

Hvíl í friði elsku mamma mín.

Úlfhildur Ösp Indriðadóttir.

Um undra-geim, í himinveldi háu,

nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;

á fegra landi gróa blómin bláu

í bjartri dögg við lífsins helgan straum.

(Benedikt Gröndal)

Þessa dimmu köldu desemberdaga reikar hugurinn til baka, til þeirra tíma þegar alltaf var sumar og sól, veröldin ung og framtíðin beið okkar í órafjarlægð. Ég mun hafa verið 13 ára gömul þegar bróðir minn kom í fyrsta sinn með Rakel á æskuheimili okkar. Ég man enn hve falleg og framandi mér þótti Rakel vera með dökku augun og dökka fallega síða hárið. Allt frá fyrstu stundu sýndi Rakel mér unglingnum vinsemd og áhuga. Seinna meir, þegar Rakel og Indriði fluttu heim frá Berlín og við fluttum til Reykjavíkur, jukust samskipti okkar verulega og með okkur þróaðist vinátta og væntumþykja sem entist þar til yfir lauk. Við göntuðumst oft með að þegar við báðar yrðum ellilífeyrisþegar þá ætluðum við að fara í interrail-ferð um Evrópu svona eins og unga fólkið ferðaðist, við höfðum einhvern pata af því að ellilífeyrisþegum stæðu til boða svipaðir lestarmiðar. Rakel hafði til að bera sterkan persónuleika með ákveðnar skoðanir. Hún var afar listhneigð og listræn. Heimili hennar var sérlega fallegt og hlýlegt. Hún eltist ekki við tískustrauma heldur hafði sinn eigin stíl og var alltaf fallega og smekklega klædd á þann máta sem einhvern veginn hæfði henni nákvæmlega. Rakel var margt til lista lagt, hún bæði saumaði föt frá grunni og breytti flíkum þegar þess þurfti, þar á meðal kjólnum sem ég gifti mig í. Rakel var mikill blómaunnandi og ræktaði blóm bæði úti og inni af mikilli natni. Ég held að hún hafi verið tónlistarkennari af guðs náð og veit ég að hún bar mikla umhyggju fyrir píanónemendum sínum. Hún bar líka mikla umhyggju fyrir sínu fólki og var afar stolt af börnum sínum og barnabörnum. Alltaf þegar ég kom í Nökkvavoginn til þeirra Rakelar og Indriða voru á borð bornar kræsingar af ýmsu tagi. Veitingarnar voru ætíð ljómandi góðar utan einu sinni. Þá plataði Rakel mig til að smakka ost, sem var forláta ostur að þeirra mati, en ég hafði sjaldan smakkað annan eins hrylling. Bitinn minn fór því beint í ruslafötuna en þau skemmtu sér konunglega. Rakel var ætíð örlát í okkar garð. Eitt sinn þurfti Silja dóttir mín húsaskjól yfir helgi þar sem Guðrún Steina dóttir hennar var á tónlistarnámskeiði í Reykjavík. Rakel talaði oft um hve notalegt hefði verið að hafa þær mæðgur, Silju prjónandi og Guðrúnu Steinu spilandi á fiðluna sína. Ég á ótal góðar minningar um mína kæru Rakel og verð líka að minnast á öll símtölin okkar sem eiga örugglega landsmet í tímalengd og fjölda. Símtölin verða ekki fleiri að sinni, ekki heldur hlátursköstin eða skemmtilega samveran. Með trega og mikilli eftirsjá kveð ég Rakel mágkonu mína og vinkonu og þakka henni samfylgdina. Indriða, börnum þeirra þeim Júlíönu Rún, Hauki og Úlfhildi og þeirra mökum, barnabörnunum Neval Rakel og Unnsteini Orra og svo systkinum Rakelar vottum við Össi okkar dýpstu samúð. Minning um elsku Rakel lifir með okkur.

Nanna Þorláksdóttir.