[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valsmenn eru einir á toppi úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir heimasigur á Þór frá Þorlákshöfn, 90:82, í spennandi toppslag í 12. umferð á Hlíðarenda í gærkvöldi, en deildin er komin af stað á ný eftir jóla- og vetrarfrí

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valsmenn eru einir á toppi úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir heimasigur á Þór frá Þorlákshöfn, 90:82, í spennandi toppslag í 12. umferð á Hlíðarenda í gærkvöldi, en deildin er komin af stað á ný eftir jóla- og vetrarfrí.

Skiptust liðin á að vera með forskotið allan leikinn og var Þór yfir, 69:66, þegar sjö mínútur voru eftir. Þá hrukku Valsmenn í gang og sigldu tveimur stigum í höfn með glæsilegum lokakafla.

Var sigurinn sá fjórði í röð hjá Val og óhætt að segja að Íslandsmeistararnir frá því 2022 séu á góðum stað. Þór hafði unnið þrjá í röð fyrir leikinn í gær.

Josh Jefferson skoraði 28 stig fyrir Val og fyrirliðinn Kristófer Acox 16. Tómas Valur Þrastarson gerði 18 fyrir gestina.

Keflavík upp að hlið Þórs

Keflavík fór upp að hlið Þórs í öðru sæti með heimasigri á Hamri, 100:88. Nýliðarnir úr Hveragerði eru enn stigalausir á botninum. Keflavík var með yfirburði stóran hluta leiks og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 81:60. Gátu Keflvíkingar leyft sér að slaka á í lokin.

Keflavík ætlar sér að vera í toppbaráttunni allt til loka á meðan ansi margt þarf að gerast næstu vikur og mánuði til að Hamar haldi sæti sínu í deildinni. Remy Martin skoraði 33 stig fyrir Keflavík og Sigurður Pétursson 17. Franck Kamgain gerði 34 stig fyrir Hamar.

Fallbaráttan galopin

Breiðablik hafði betur gegn Haukum, 95:86, á útivelli. Með sigrinum opnaði Breiðablik fallbaráttuna upp á gátt en Blikar eru nú með fjögur stig og aðeins tveimur stigum á eftir Haukum og öruggu sæti í deildinni.

Haukar komu skemmtilega á óvart á síðustu leiktíð og voru hársbreidd frá því að komast í undanúrslit, þá sem nýliði í efstu deild. Það hefur hins vegar lítið gengið hjá liðinu á þessari leiktíð og stefnir í harða fallbaráttu í Hafnarfirðinum næstu vikur.

Everage Richardson skoraði 25 stig fyrir Breiðablik. David Okeke skoraði 26 stig fyrir Hauka.

Endurkoma Hattar dugði ekki

Loks vann Grindavík útisigur á Hetti, 78:71. Með sigrinum jafnaði Grindavík Hött að stigum og eru liðin í 8.-9. sæti með tólf stig. Grindavík komst mest 23 stigum yfir og stefndi í stórsigur.

Höttur minnkaði hins vegar muninn í eitt stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, 72:71. Grindavík skoraði svo sex síðustu stigin og tryggði sér sterkan útisigur. Dedrick Basile skoraði 19 stig og gaf níu fráköst hjá Grindavík. Danski landsliðsmaðurinn Daniel Mortensen kom næstur með 14 stig. Matej Karlovic skoraði 22 stig fyrir Hattarmenn.