Kveður Freyr Alexandersson átti góðu gengi að fagna með Lyngby.
Kveður Freyr Alexandersson átti góðu gengi að fagna með Lyngby. — Ljósmynd/Lyngby BK
Freyr Alexandersson er að taka við starfi þjálfara belgíska knattspyrnuliðsins Kortrijk, sem situr á botni A-deildar karla í Belgíu. Lyngby í Danmörku staðfesti í gær…

Freyr Alexandersson er að taka við starfi þjálfara belgíska knattspyrnuliðsins Kortrijk, sem situr á botni A-deildar karla í Belgíu.

Lyngby í Danmörku staðfesti í gær að Freyr væri á förum frá félaginu, ásamt aðstoðarþjálfaranum Jonathan Hartmann, og viðræður stæðu yfir við erlent félag um greiðslu fyrir Frey sem var samningsbundinn Lyngby til 2025.

Freyr hefur stýrt Lyngby frá 2021. Hann fór fyrst með liðið upp í dönsku úrvalsdeildina og hélt því síðan þar á ævintýralegan hátt síðasta vor. Hann skilur við Lyngby á góðum stað, í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar.

Hann mun takast á við erfitt verkefni í Belgíu því Kortrijk er í miklum vandræðum, hefur aðeins unnið tvo leiki og skorað tólf mörk í 20 leikjum og er fimm og sex stigum á eftir næstu liðum, sem eru einmitt Íslendingaliðin OH Leuven og Eupen.

Fjórir Íslendingar leika með Lyngby sem nú leitar að nýjum þjálfara en danskir fjölmiðar nefndu í gær Jóhannes Karl Guðjónsson sem einn af mögulegum arftökum hans.