Bessi Gíslason fæddist í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði 6. janúar 1949. Hann lést á heimili sínu 27. desember 2023.

Foreldrar hans voru Gísli Bessason, f. 11. nóvember 1920, d. 1. júlí 2010, og Jóna Sigrún Sveinsdóttir, f. 11. maí 1923, d. 16. apríl 2000. Systkini Bessa eru Guðrún, f. 1951, Elínborg, f. 1959, og Sveinn, f. 1964, d. 1967.

Eiginkona Bessa var Una Þóra Steinþórsdóttir, f. á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá 25. ágúst 1950, d. 17. desember 2017. Börn þeirra eru: 1) Gísli Þór, f. 7. júní 1972, í sambúð með Guðmundu Ósk Þórhallsdóttur, f. 14. desember 1975, börn hans eru Una Ásrún, f. 2002, og Ásmundur Bessi, f. 2004. 2) Sólveig, f. 13. september 1977. 3) Sigrún, f. 13. september 1977, gift Iiro Nummela, f. 2. janúar 1976, sonur þeirra er Emil Mikael, f. 2012. 4) Margrét, f. 24. febrúar 1980, gift Kristni Kristjánssyni, f. 1. febrúar 1979, börn hennar eru Katla, f. 2005, og Ása Kristín, f. 2009, börn hans eru Bjarmi, f. 2004, og Kolbrá Una, f. 2006.

Bessi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1970 og cand.mag.-prófi í lyfjafræði frá Danmarks Farmaceutiske Højskole í Kaupmannahöfn árið 1979. Hann starfaði sem lyfjafræðingur í Kópavogsapóteki, yfirlyfjafræðingur í Vesturbæjarapóteki og sölustjóri hjá Lyfjaverslun ríkisins áður en hann hóf eigin rekstur. Árið 1998 stofnaði Bessi ásamt fleirum Lyfjaver en þar starfaði hann fram til ársins 2015 þegar hann fór á eftirlaun. Bessi sinnti ýmsum trúnaðarstörfum, m.a. hjá Lyfjafræðingafélagi Íslands, Stéttarfélagi íslenska lyfjafræðinga, Blindrafélaginu, Sjónstöð Íslands og síðari ár hjá Controlant.

Útför Bessa verður gerð frá Langholtskirkju í dag, 5. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Afi var einstakur. Hann var tilbúinn að gera allt fyrir okkur ef við spurðum. Það eina sem hann vildi var að við værum glöð og dugleg. Afi var alltaf eitthvað að brasa og finna sér verkefni. Emil fannst gaman að fara með afa í bíltúr og spjalla um allt á milli himins og jarðar. Afi var alltaf boðinn og búinn að skutla okkur ef á þurfti að halda. Afi var vinur okkar og okkar helsti stuðningsmaður í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Hann missti ekki af fótboltaleik hjá okkur systrum eða tónleikum hjá Emil. Afi fylgdi Kötlu út til Belgíu á EM u19 í sumar og bjuggum við til dýrmætar minningar þar. Eftir að amma dó bauð afi í mat annan hvern sunnudag með börnum og barnabörnum. Afi hélt líka alltaf jólaboð á jóladag og síðasta minningin okkar með afa er hann glaður með okkur að spila á jóladag. Hann í nýrri Liverpooltreyju sem við gáfum honum í jólagjöf og endalaust að segja svörin fyrir hin liðin. Það var stutt að hlaupa upp til afa til að ná sér í ávexti, horfa á leik eða bara spjalla. Það verður tómlegt í húsinu án afa og við munum sakna hans mjög mikið. En við vitum að amma er glöð að fá hann og tekur vel á móti honum. Þau fara saman í göngu og reima á sig dansskóna og dansa aftur saman.

Við elskum þig afi.

Þín afabörn,

Katla, Ása Kristín
og Emil Mikael.

Bessi kom inn í fjölskyldu okkar fyrir meira en hálfri öld. Strax varð öllum ljóst að Una var búin að kynnast einstökum öðlingi, Skagfirðingi sem lét sér mjög annt um alla fjölskyldumeðlimi. Einstök hlýja og umhyggjusemi einkenndi hann sem margir fengu að njóta til dæmis þegar ungur sveitadrengurinn lá á sjúkrahúsi í Reykjavík vikum saman þá mætti hann og veitti stuðning. Bessi var alltaf mættur í framkvæmdir. Síðast nutum við góðs af því þegar hann mætti til að leggja parket á íbúðina okkar en þá kom hann á morgnana á nýja rafhlaupahjólinu sínu en hann var alltaf snöggur að tileinka sér nýjungar og hjólið var ein af þeim.

Kynni okkar af Bessa hafa verið mjög gefandi og áratuga vinskapur og fjölskyldutengsl skilja eftir óteljandi ljúfar minningar. Bygging sumarhúss í Bláskógabyggð þar sem þrjú systkini reistu sumarhús sýndi vel hversu handlaginn, hugvitssamur og snjall Bessi var. Aldrei bar skugga á þetta sameiginlega eignarhald og allir nutu þess mikið að vera í sumarhúsinu.

Bessi og Una bjuggu í áratugi í Barmahlíð 7 sem varð sannkallað fjölskylduhús eftir að þau hjónin eignuðust allt húsið. Hann hugsaði vel um húsið sitt og fékk titilinn húsvörðurinn hjá barnabörnunum sem þar bjuggu og þangað komu í heimsókn. Bessi og Una endurnýjuðu allt í Barmahlíð 7 og hafði Bessi mikla ánægju af þessum verkefnum eins og öðrum verklegum framkvæmdum sem hann tók sér fyrir hendur.

Betri ferðafélagar fundust ekki og alltaf var Bessi athugull um allt umhverfið. Hitamælar og alls kyns mælar voru sérstakt áhugasvið sem hann nýtti sér þegar við ferðuðumst til ótal landa. Ástralíuferð okkar var alveg einstök en Tyrklandsferð toppaði allar ferðir okkar. En eitt helsta áhugamál Bessa og Unu voru samkvæmisdansar og tóku þau ófá sporin í ferðum okkar. Þau voru framúrskarandi á því sviði og nutu þess að dansa saman.

Bessi var einstaklega mikill frumkvöðull og það voru margar ánægjustundir í kringum stofnun Lyfjavers og síðan á skemmtunum í því skemmtilega fyrirtæki. Seinna var hann englafjárfestir Controlant og fylgdist af áhuga með framþróun fyrirtækisins. Hann réðst í fjölmörg fleiri verkefni sem of langt mál er að telja upp í stuttri grein.

Bessi var með góða nærveru, hrókur alls fagnaðar, jákvæður og allra manna hressastur. Það er með mikilli sorg sem við kveðjum hann í dag og lífið verður litlausara án hans. En minningarnar um frábæran vin munu lifa.

Börnum, tengdabörnum og barnabörnum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Aðalsteinn og Birna.

Ekki grunaði mig að spjall okkar í fjölskylduboðinu 16. desember í aðdraganda jóla yrði það síðasta. Þrátt fyrir að þú hafir í allmörg ár verið að glíma við hjartavandamál hafðir þú ætíð passað vel upp á þig og engar vísbendingar um að kallið kæmi núna.

Ég man þann dag vel þegar ég hitti þig fyrst, þegar þú komst í heimsókn í Hjartarstaði til að hitta Unu systur mína. Fyrstu kynnin voru góð og samskiptin alla tíð síðan. Það var gott að fá þig inn í fjölskylduna og eiga þig að sem vin í meira en 50 ár. Þér var ætíð umhugað um fjölskyldu og vini og alltaf gott að leita til þín. Það er því erfitt að hugsa til þess að geta ekki lengur tekið upp símann og rætt málin. Fjölmargar minningar koma upp í hugann á þessari stundu enda varstu framkvæmdamaður, hugmyndaríkur og áorkaðir ótrúlega miklu á ekki lengri ævi. Fyrir utan athafnasemi í tengslum við stofnun apóteka og önnur verk tengd lyfjafræðinni þá eru ófá önnur verkefni sem þú tókst þér fyrir hendur.

Þú hafðir alla tíð mikinn áhuga á hvers kyns verklegum framkvæmdum og ber heimili fjölskyldunnar í Barmahlíð 7 þess gleggst vitni. Það stóra hús endurgerðir þú nánast frá grunni eftir þínu höfði. Þar var nánast alltaf eitthvað verið að gera.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar þú fékkst mig með þér til að mála allt hús Blindrafélagsins í Hamrahlíðinni fyrir rúmum þrjátíu árum. Húsið þurfti að mála og þú sem styrktaraðili taldir lítið mál að bjarga því og fékkst mig með í verkið þótt ég hefði miklar efasemdir í upphafi. Þarna unnum við þétt saman í nokkrar vikur og þrátt fyrir mikla rigningartíð það sumarið tókst okkur að ljúka við verkið þrátt fyrir að húsið væri stórt og þú lofthræddari en ég hafði gert mér grein fyrir áður en verkið hófst.

Teppahreinsunin Lóin, sem þú stofnaðir með Óla bróður, var einnig dæmi um verkefni sem þú réðst í tímabundið til að hafa örugglega nóg að gera.

Samvinnan við byggingu og rekstur sumarbústaðarins í Bláskógabyggð verður okkur í fjölskyldunni sem vorum með í því verki alltaf minnisstæð. Þar voru margar eftirminnilegar samverustundir þar sem áhugi þinn á pípulögnum og tæknilausnum fékk að njóta sín. Held reyndar að Unu hafi stundum þótt nóg um þegar þú varst búinn að leggja heimilið undir ýmiss konar forhönnun á pípulögnum og hitastýringu á framkvæmdatímanum.

Nú ertu, kæri mágur, kominn til Unu þinnar sem þú saknaðir svo mjög enda voruð þið alla tíð samhent í öllu ykkar lífshlaupi. Fjölskyldan var þér ætíð mikilvæg og þér mjög umhugað um velferð og framtíð hennar. Barnabörnin skipuðu stóran sess í lífi Bessa en þau hafa nú misst bæði ömmu sína og afa á síðustu sex árum.

Elsku Gísli Þór, Sólveig, Sigrún, Margrét og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur frá okkur Rannveigu, Margréti, Sólveigu og fjölskyldum.

Einar Birgir Steinþórsson.

• Fleiri minningargreinar um Bessa Gíslason bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.