Ólafur Bjarnason vélfræðingur fæddist 27. ágúst 1929 í Reykjavík. Hann lést 18. desember 2023.

Foreldrar hans voru Jón Bjarni Aðalsteinsson, sjómaður og verkamaður, f. 12. apríl 1884 á Hrauni í Dýrafirði, d. 28. apríl 1972, og Ragnheiður Jósefína Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 30. ágúst 1888 á Mýrum í Dýrafirði, d. 3. nóvember 1955. Systkini Ólafs voru: Guðný G., f. 21. september 1909, d. 1996, Ólafía Veronika, f. 26. ágúst 1914, d. 1926, og Kristján Júlíus, f. 27. ágúst 1929, d. 2010.

Ólafur kvænist 20. september 1952 eftirlifandi eiginkonu sinni, Geirþrúði Kristínu Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra, f. 16. nóvember 1933 á Sauðárkróki. Foreldrar hennar voru Kristján Ragnar Gíslason, f. 27. apríl 1887, d. 14. mars 1958, bóndi á Minni-Ökrum í Skagafirði, síðar verkamaður á Sauðárkróki og í Reykjavík, og Aðalbjörg Vagnsdóttir húsmóðir, f. 14. febrúar 1893, d. 16. ágúst 1951.

Dætur þeirra eru: 1) Aðalbjörg, f. 1952, kennari og forleifafræðingur. Maki Guttormur Ólafsson, f. 1943, rekstrarhagfræðingur. Börn þeirra eru: a) Geirþrúður, f. 1977, gift Hafsteini Hafsteinssyni, f. 1976. Börn þeirra eru Guðný Helga Georgiou, f. 1997, Aðalbjörg Emma, f. 2006, og Hafsteinn Ari, f. 2013. b) Höskuldur Hrafn, f. 1990, unnusta hans er Lauren Gaultier, f. 1993, búsett í Tókýó. Stjúpbörn Aðalbjargar eru: a) Guttormur, f. 1966, maki hans er Guðlaug Helga Jónsdóttir. b) Sigríður Elísabet, f. 1968, maki hennar er Jón Þórðarson. 2) Ragnheiður, f. 1956, jarðfræðingur. Maki Jóhannes Geir Sigurgeirsson, f. 1952, ferðaþjónustubóndi og fyrrverandi alþingismaður. Sonur Ragnheiðar og Peters Torssander, f. 1952, d. 2018, er Ólafur Ragnar, f. 1984, búsettur í Stokkhólmi.

Ólafur lauk Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1948, Iðnskólanum í Reykjavík 1951, vélvirkjanámi í Vélsmiðjunni Héðni hf. 1953, vélstjóraprófi frá Vélskólanum í Reykjavík 1954 og rafmagnsdeild 1955.

Hann var vélstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, síðar Landsvirkjun, í rafstöðinni Írafossi 1955-1967, og í gufuaflsstöðinni við Elliðaár 1967-1990 og síðan yfirverkstjóri Vélamiðstöðvar Landsvirkjunar 1990-1999.

Útför Ólafs fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 5. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi okkar er nú látinn eftir 94 góð ár. Pabbi og tvíburabróðir hans, Kristján, voru aldir upp af ástríkum foreldrum og eldri systur, Guðnýju, en þau bjuggu lengst af á Hverfisgötu 40 í Reykjavík. Þau mamma kynntust ung og bjuggu þar fyrstu búskaparárin sín. Á meðan afi lifði var Hverfisgatan miðstöð fjölskyldunnar þar sem vestfirskar hefðir voru í fyrirrúmi. Þar voru einnig rifjuð upp bernskubrek þeirra bræðra og vina þeirra og okkur skildist að uppeldið hafi verið nokkuð frjálslegt og þeir alluppátækjasamir.

Á Hverfisgötunni eignuðust þeir bræður sína bestu vini og hélst sú vinátta og fjölskyldna þeirra alla tíð. Hópurinn ferðaðist saman um landið og hélt í mörg ár upp á áramótin með annál, söng, leikjum og skemmtiatriðum. Sérstaklega var vinátta þeirra Heimis sterk og varaði yfir áttatíu ár.

Pabbi lærði til vélfræðings og vann alla sína starfsævi sem vélfræðingur við orkuvinnslu og hjá Landsvirkjun frá stofnun. Fjölskyldan bjó á Írafossi á æskuárum okkar systra og nutum við þeirra forréttinda að hafa bæði mömmu og pabba alltaf á staðnum, því í þá daga voru aflstöðvarnar okkur krökkunum á staðnum opin svæði. Þar eignuðust þau vini sem þau héldu alltaf sambandi við.

Pabbi hafði mikinn áhuga á útivist og ferðalögum og fór ungur með vinum sínum í hjólaferðir um landið. Þá þótti honum ákaflega gaman að fara til rjúpna og vorum við ekki gamlar systurnar þegar hann fór að taka okkur með. Einnig var oft farið á skauta og stjörnur himinsins skoðaðar. Á sumrin var svo farið í tjaldferðalög um landið og auðvitað í Skagafjörðinn hennar mömmu. Eftir að við fluttum í Kópavoginn bættist skíðaiðkunin við og pabbi fylgdist einnig vel með skátaútilegum okkar systra. Gat birst óvænt uppi í skála til að tékka á olíukyndingunni. Þá var pabbi ákaflega fróðleiksfús og las mikið. Mest hafði hann gaman af alls konar fræðiritum og var mikill ættfræðingur. Hann var stálminnugur fram á síðasta dag og kynnti sér alltaf vel staðhætti, menn og málefni fyrir ferðalög þeirra mömmu erlendis.

Pabbi hafði ótrúlega mikið verkvit og var einstaklega handlaginn, smíðaði bæði úr járni og tré og gat gert við hreinlega allt. Það sem hann gat ekki gert við var ónýtt. Það eru ófáir smíðisgripir sem liggja eftir hann, innréttingar, barnavagga, húsgögn, skraut- og nytjamunir sem enn eru í notkun auk ómetanlegrar aðstoðar sem hann hefur veitt okkur systrum við alls kyns byggingarbras og viðgerðir. Rétt fyrir starfslok tóku þau mamma upp á að byggja sér sumarbústað í Landsveitinni og ræktuðu þar algeran sælureit. Bústaðurinn sýnir vel verkvit pabba og handlagni. Þar byggðist á sama tíma upp lítið samfélag nokkurra sumarbústaðaeigenda og hjónanna á Galtalæk. Hefur hjálpsemi, traust vinátta og stuðningur þessa fólks verið foreldrum okkar ómetanlegur.

Pabbi var ákaflega ljúfur maður, heiðarlegur og hreinskiptinn. Hann var mikil félagsvera og vissi fátt betra en að hitta vini og fá gesti, en hann elskaði mömmu og okkur dætur sínar meira en allt annað.

Hvíldu í friði elsku besti pabbi.

Aðalbjörg og Ragnheiður.

Í dag fylgjum við tengdaföður mínum, Ólafi Bjarnasyni, til grafar. Hann fæddist á þriðja áratug síðustu aldar og tók virkan þátt í þróun íslensks samfélags frá örbirgð til bjargálna og síðar allsnægta. Samfélags sem við seinni kynslóðir njótum í dag.

Einstök hjálpsemi við fjölskyldu og vini er það sem fyrst kemur upp í hugann. Hann var alltaf tilbúinn þegar einhvers þurfti við og skipti ekki máli hvort um var að ræða nýbyggingar eða viðhald húsa, húsmuna eða vélbúnaðar og var jafnvígur á allar iðngreinar þar sem fjölþætt vélstjóramenntunin kom að góðum notum: Hann klifraði stiga og hljóp um þök níræður.

Annað sem einkenndi Olla var óseðjandi fróðleiksfýsn sem hann ræktaði með lestri og einlægum áhuga á öllu í kringum sig. Birtingarmyndin var oft á tíðum spurningaflóð sem á stundum jaðraði við forvitni og það sem meira var; hann mundi þetta allt saman. Það var hægt að fletta upp í honum eins og alfræðiorðabók.

Fróðleiksfýsnin kom einnig fram í ferðalögum bæði innan- og utanlands sem þau hjónin stunduðu um árabil. Ferðuðust meðal annars á bíl þvers og kruss um Evrópu; oft á tíðum voru þetta tjaldferðalög. Olli hafði alla staðhætti og sögu staðanna á hreinu þegar heim kom enda búið að vinna heimavinnuna af kostgæfni áður en lagt var upp.

Ólafur með Geirþrúði konu sinni ræktaði vinskap við ótrúlegan fjölda ættingja og vina, til dæmis var vélstjórakaffið fastur liður þar sem haldið var kunningsskap við skólabræður og vinnufélaga frá löngum starfsferli.

Sumarbústaðurinn í Landsveitinni sem þau hjónin byrjuðu að byggja upp undir lok starfsferils síns ber ástundun og verkviti þeirra fagurt vitni. Það var endalaust verið að endurbæta og byggja við; bæði húsakost og lóð. Frægt er hitaveitukerfið þar sem vélstjórahæfileikarnir voru nýttir til hins ýtrasta. Það hefur verið haft sem gamanmál í fjölskyldunni að það sé einungis á færi vélstjóra af hæstu gráðu að kunna skil á öllum eiginleikum kerfisins.

Olli tók ekki virkan þátt í stjórnmálum en hafði ákveðnar skoðanir sem skipuðu honum klárlega vinstra megin í litrófi þjóðmálanna og hann vandaði þeim sem honum fannst ekki standa sig sem skyldi við stjórn landsins oft á tíðum ekki kveðjurnar þegar talið barst í þá átt við eldhúsborðið.

Ég vil að lokaum þakka Olla fyrir rúmlega tveggja áratuga samfylgd og er þess fullviss að hann mun verða hrókur alls fagnaðar í vélstjórakaffinu á nýjum lendum.

Jóhannes Geir
Sigurgeirsson.

• Fleiri minningargreinar um Ólaf Bjarnason bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.