Á Boðnarmiði er Ólafur Stefánsson með skemmtilega upprifjun og skýringu: „Ég heyrði fyrst af Leifi Haraldssyni frá Háeyri á Eyrarbakka, og vísu hans um ungu skáldin, í tíma hjá Þórði Kristleifssyni 1957 eða 8

Á Boðnarmiði er Ólafur Stefánsson með skemmtilega upprifjun og skýringu: „Ég heyrði fyrst af Leifi Haraldssyni frá Háeyri á Eyrarbakka, og vísu hans um ungu skáldin, í tíma hjá Þórði Kristleifssyni 1957 eða 8. Leifur mun hafa ort þessa vísu í kringum 1940, þegar hann var kostgangari á Ingólfskaffi í Reykjavík. Vísan fór á flug, og sagði Þórður okkur að hann hefði hitt á Leif á götu, stuttu á eftir, og óskað honum til hamingju með landsfleyga vísu, Leifur hafði verið nemandi Þórðar í Héraðsskólanum hálfum áratug fyrr.

Þórður hafði vísuna áreiðanlega svona: „Ungu skáldin yrkja kvæði“.

Ekki gat það verið „Atómskáldin yrkja kvæði“ því það orð sást fyrst í Atómstöðinni hjá HKL 1948, og í nútímamerkingu tveimur árum síðar.

Að byrja „Ótal fávitar yrkja kvæði“ er eins og hver önnur dauðans vandræði, og hefði aldrei dugað til að lyfta vísunni á flug. Gæti þó verið betrumbæting höfundar, sem ekki vildi styggja kunningja í skáldahópi.

Í bók Daníels Ágústínussonar um æskuvin sinn, Leif, nefnir hann allar þrjár útgáfurnar og lætur nokkuð laust og bundið með að gera upp á milli, en laumast svo til að að hafa vísuna svona á bókarkápu undir mynd af Leifi.

Ungu skáldin yrkja kvæði

án þess að geta það.

Á Ingólfskaffi ég er í fæði

án þess að éta það.

Það segir sína sögu.“

Gunnar Hólm Hjálmarsson segir að byrjað sé að ræða um mögulega forsetaframbjóðendur, þar á meðal eru nefndir fyrrverandi og núverandi ráðherrar.

Ráðherrana ræða má

sem reyndu dægurskarkið

en yfirstíga þurfa þá

13% markið.

Steinn Kristjánsson yrkir limru:

Ástvaldur kyssti hana Unnsu,

Óliver, Pétur og Gunnsu

og Katrínu og Geir

en hann kyssir ei meir,

kominn með þvílíka frunsu.

Öfugmælavísan:

Krumma sá í krambúð ég

kaupa varning nýjan,

út á borðið elskuleg

að honum rétti krían.