Magnús Valdimar Ármann fæddist í Reykjavík 7. janúar 1933. Hann lést á Landspítalanum 22. desember 2023.

Foreldrar Magnúsar Valdimars voru Sigbjörn Ármann athafnamaður frá Viðfirði, f. 12. nóvember 1884, d. 14. ágúst 1950, og Pálína Ágústa Sæmundsdóttir Ármann húsfrú frá Lækjarbotnum í Landsveit, f. 14. ágúst 1904, d. 19. júní 1958. Systir Magnúsar var Sigríður Theódóra Ármann ballettkennari, f. 26. maí 1928, d. 14. ágúst 2009.

Magnús kvæntist árið 1957 eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Tryggvadóttur, f. 25. september 1936. Synir Magnúsar og Helgu eru þrír:

1) Sigbjörn viðskiptafræðingur og skipamiðlari, f. 1960, kvæntur Sigrúnu Hauksdóttur, f. 1961 og eiga þau þrjú börn: Helgu Þóru, f. 1987, sem á Mirru Björt, f. 2020, með sambýlismanni sínum Hilmari Erni Óskarssyni, f. 1975. Magnús Valdimar, f. 1992, og Heiðu Valdísi, f. 1995, sem á Ezra Mugg, f. 2021, og Leon Þór, f. 2023, með sambýlismanni sínum Jóni Þór Sigurðssyni, f. 1990.

2) Páll Þór rekstrarhagfræðingur, f. 1962, kvæntur Hönnu Sigríði Sigurðardóttur, f. 1967, og eiga þau tvær dætur, Þórunni Evu, f. 2002, og Töru Dís, f. 2006. Einnig á Páll tvær dætur með fyrri eiginkonu sinni Huldu Björnsdóttur, f. 1964. Ásta Hulda, f. 1988, er búsett í Austurríki, gift Florian Dahel, f. 1980, og eiga þau tvær dætur, Jönu Líf, f. 2014, og Emmu Sól, f. 2018. Ágústa, f. 1992, á Henry Þór f. 2022 með sambýlismanni sínum Prabin Gurung f. 1992.

3) Valdimar hagfræðingur f. 1977, kvæntur Jóhönnu Helgadóttur, f. 1977, og eiga þau þrjú börn, Ingu Huld, f. 2000, í námi í London ásamt sambýlismanni sínum Vilhjálmi Jónssyni, f. 2000, Óðin Valdimar, f. 2010, og Iðunni Rut, f. 2011.

Magnús Valdimar, eða Maggi eins og hann var oftast kallaður, ólst upp á Njálsgötunni en á sumrin vel fram á unglingsárin var hann í sveitinni hjá frændfólki sínu að Austvaðsholti í Landsveit. Hann gekk í Austurbæjarskóla sem strákur, síðan lá leiðin í MR og loks í Háskóla Íslands í viðskiptafræði þaðan sem hann útskrifaðist viðskiptafræðingur 1961.

Fljótlega eftir að Magnús kláraði viðskiptafræðina hóf hann störf hjá sameiginlegri skrifstofu S. Árnasonar og Co og Skipamiðlun Gunnars Guðjónssonar sf. Þar kynntist hann skipamiðluninni sem átti síðan hug hans og starfaði hann sem skipamiðlari allan sinn starfsferil hjá Gunnari Guðjónssyni sf., og seinni árin sem eigandi þess, og síðar eigandi MS Armann skipamiðlunar ehf. Þá var Magnús virkur meðlimur í Lionsklúbbi Reykjavíkur í tugi ára.

Magnús var mikill og góður skíðamaður, æfði og keppti á unglingsárum með skíðadeild Ármanns, og smitaði flesta í fjölskyldunni af skíðabakteríunni. Einnig stundaði hann golf og badminton og var mikill laxveiðimaður en þann áhuga erfði hann frá föður sínum. Landsveitin var Magnúsi hugleikin og reistu þau hjónin sér sumarbústað á Mosum.

Magnús Valdimar verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í dag, 5. janúar 2024, kl. 15.

Pabbi kvaddi okkur fyrir jólin eftir veikindi en hans tími var kominn eftir góða og viðburðaríka ævi. Eftir að læknarnir komust að því að þeir gætu ekki gert neitt meir fyrir þig, þá ákvaðstu að vera ekkert að ílengjast rúmfastur og þjáður heldur kvaddir okkur hratt og vel.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann. Mikið var gert saman; skíðafrí og veiðar standa upp úr, þú áttir brekkuna þegar þú skíðaðir niður hana og þrælaðir okkur mömmu niður löngu brekkurnar jafnvel í lok dags og við síðust niður fjallið en síðan fór ég að draga þig meira í hólana og púðrið. Þú kenndir flugukasttæknina samhliða hófsemi og yfirvegun við árbakkann, veiddir alltaf bara í klofstígvélunum og þurftir ekkert að komast lengra út í. Þoldir ekki mokveiði, dorg og montsögur.

Þá var alltaf nóg að gera og alls konar verkefni og vinna m.a. á skrifstofunni að sendast og seinna meir í tölvuvinnu og tengt Lions að selja rauðu fjöðrina. Þá vantaði ekki verkefnin í sumarbústaðnum, þar var endalaus girðingarvinna en alltaf komust rollurnar inn fyrstu árin, skógrækt, smíða, mála og breyta og bæta við. Alltaf voru börn og barnabörn velkomin í bústaðinn og alltaf mátti fjölskyldan fá hann lánaðan.

Línan „nú er ég glaður á góðri stund“ á vel við þig. Gamlárskvöldin voru t.d. alltaf svo skemmtileg ásamt öðrum fjölskylduboðum um jól og páska. Og þú kenndir mér að meta klassíska tónlist og ósjaldan voru spilaðar óperur, sinfóníur og djass sem ekki varð komist hjá að hlusta á; stundum þurfti að biðja þig að lækka í græjunum.

Og ávallt hafði pabbi áhuga á því að vita hvernig allir hefðu það, hvað barnabörnin væru að gera, hvernig þeim liði og hvort einhvern vantaði eitthvað.

Bless, pabbi minn,

Valdimar.

Í dag kveðjum við föður og tengdaföður. Gamli, eins og hann var oftast kallaður á meðal okkar, er farinn en hann skilur eftir fjölmargar og góðar minningar.

Gamli var ekki maður margra orða en þegar við sátum og spjölluðum var hann ávallt áhugasamur um velgengni, yfirleitt var hann þá að athuga hvort ekki væri allt í lagi hjá okkur. Hvernig gengur í vinnunni? Er nóg að gera í hárgreiðslunni? Hann vildi alltaf vita hvort það væri ekki allt í lagi. Þegar kom að stelpunum þá varð hann að fá að vita hvernig gengi í skólanum, vinnunni eða íþróttunum því gamla var mikið í mun að öllum gengi vel í sínu og bauð fram aðstoð ef eitthvað bjátaði á. Alveg fram á síðasta dag var farið yfir stöðuna og að öllum stelpunum liði vel og gengi vel.

Það má segja að áhugamál okkar endurspegli vel áhugamál gamla, sérstaklega þó skíðin og veiðin. Hann var flottur á skíðum og þekktist langar leiðir í brekkunni fyrir flottan skíðastíl. Laxveiði var eitt af stórum áhugamálum hans enda alinn upp við laxveiði. Það er ómetanlegt að rifja upp okkar árlegu stórfjölskylduveiðiferð í Gljúfurá í Borgarfirði en þar hefur fjölskyldan veitt í yfir þrjá áratugi og minningunni verður haldið á lofti á komandi sumri. Seinni árin var hann hættur að kasta en rúntaði um og fylgdist með hvaða veiðistaði var verið að fara í, hvað menn væru að gera og hvernig gengi.

Sumarbústaðurinn, Mosar, var gamla hugleikinn. Þar átti hann ófáar stundir við að brasa eitthvað og leysa málin með alls konar reddingum. Þarna var gaman að koma og ávallt var útdeilt einhverjum verkefnum sem þurfti að græja. Að fá bústaðinn lánaðan var auðsótt hjá þeim gömlu, bara fínt ef við myndum sinna einhverjum smáverkefnum. Það var líka gaman að koma og vera með þeim í bústaðnum, eiga þar notalega stund í heita pottinum eða spjall á pallinum.

Það var alltaf stutt í grínið hjá gamla. Hafði hann sérstaklega gaman af að fíflast í okkur með tvíræðni orða og orðaleikjum. Ávallt var hann hress og lífsglaður og lifði lífinu lifandi. Við kveðjum þann gamla í dag en minningin um góðan mann lifir. Hvíl í friði.

Páll Þór og
Hanna Sigríður.

„Nú var afi að kveðja.“

Með þessum orðum fengum við þær fréttir að afi Maggi hefði kvatt okkur. Það er alltaf erfitt að kveðja, sérstaklega þá sem standa manni næst.

Afi Maggi var alltaf svo vingjarnlegur og með einstakt jafnaðargeð. Það var sérstaklega stutt í húmorinn hjá honum og afi var líklegast Íslandsmeistari í að snúa út úr.

Afi Maggi sýndi öllum okkar áhugamálum óendanlegan áhuga. Hann var alltaf með réttu spurningarnar tilbúnar og það besta var að hann hlustaði alltaf á svarið. Hann spurði okkur alltaf hvernig gengi í skóla, á skíðum, í ballett, í fótbolta, í söng, að teikna og lengi mætti telja. Það sem okkur var mikilvægt var mikilvægt fyrir hann. Hann mætti til dæmis á allar ballettsýningar mörg ár í röð og það má nú alveg deila um það hversu mikinn áhuga afi virkilega hafði á ballett.

Minningar sem koma efst upp í huga okkar systra um afa eru veiðiferðirnar sem stórfjölskyldan fer í á hverju ári. Einna helst það sem hann gerði var að fylgjast með hvort einhver fiskur væri kominn á land. Hann sýndi veiðinni mikinn áhuga enda var það hans helsta áhugamál.

Jóladagur á Sunnubrautinni var fjölskylduhefð sem okkur þótti ótrúlega vænt um. Þar var alltaf dansað í kringum jólatréð og afi Maggi sá um tónlistina en við gætum sagt að þetta hafi ávallt verið hans hátindur í plötusnúðabransanum. Á hverju ári var sama Laddaplatan sett í gang, á hverju ári setti afi á vitlaust lag, og á hverju ári hlógum við yfir viðbrögðum ömmu eins og „æi Maggi!“ eða „ég á ekki til eitt aukatekið orð!“ á innsoginu. Það kæmi ekki á óvart ef afi hefði innst inni gert þetta viljandi til að fá okkur til að hlæja.

Með söknuði en samt sem áður gleði í hjarta kveðjum við elsku afa Magga okkar.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Ásta Hulda, Ágústa, Þórunn Eva og Tara Dís.