Matthildur Messíana Gísladóttir fæddist á Ísafirði 9. desember 1945. Hún andaðist á Sunnuhlíð í Kópavogi 19. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Gísli Hoffmann Guðmundsson, f. 1907 á Ísafirði, d. 1964, og Þorbjörg Líkafrónsdóttir, f. 1908 í Kvíum, Grunnavíkurhreppi, d. 1995. Systkini Matthildar eru Rannveig, f. 1932, d. 2020, Jón Kristinn, f. 1933, d. 2013, Guðmundur Hilaríus, f. 1935, d. 1974, og Guðrún, f. 1940, d. 2011.

Matthildur giftist í Langholtskirkju árið 1967 Sigurði Þorkelssyni vélvirkja, f. 19. september 1943. Börn þeirra eru: 1) Þorkell málari, f. 1966, d. 1993. 2) Þorbjörg ferðafræðingur, f. 1969, gift Sigurði Helga Hlöðverssyni, f. 1968. Börn þeirra eru a) Hlöðver, f. 1989, í sambúð með Io Athinu Alexandropoulou, f. 1982, þau eiga Elísabetu, f. 2023. b) Matthildur, f. 1994, í sambúð með Þóri Óskari Björnssyni, f. 1992, þau eiga Viktoríu, f. 2023. 3) Víðir verktaki, f. 1972. 4) Rakel sölumaður, f. 1977, gift Rögnvaldi Rögnvaldssyni, f. 1965. Börn þeirra eru a) Daníel, f. 1993, hann á Míu Margréti, f. 2022, b) Eiríkur Atli, f. 1996, í sambúð með Ragnheiði Sóllilju, f. 1999, c) Bjartur, f. 2005.

Matthildur gekk í grunnskólann á Ísafirði og vann eftir það við fiskverkun á Ísafirði. Matthildur fór 17 ára gömul í húsmæðraskólann á Laugalandi. Matthildur flytur svo til Reykjavíkur árið 1964 og vinnur þar ýmis umönnunarstörf, lengst af hjá Hrafnistu í Reykjavík og eftir það á Sunnuhlíð og Roðasölum í Kópavogi.

Útför Matthildar fer fram frá Lindakirkju í dag, 5. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma okkar fékk loksins hvíldina eftir sex ára langa baráttu við alzheimer.

Okkur systkinin langar að þakka henni fyrir að vera alltaf til staðar fyrir okkur.

Umönnun var hennar ævistarf bæði í vinnunni og með fjölskyldunni. Hún þjónaði okkur út í eitt, við þurftum ekki mikið að gera heima hjá okkur annað en að þrífa herbergin okkar.

Svo öflug var hún við heimilisstörfin að hún skar ofan í okkur matinn fram yfir unglingsárin og lengur ef við hefðum leyft henni það.

Mamma var mjög skipulögð í okkar uppeldi, fjögur börn og ekki með mikið á milli handanna og þá kom námið úr húsmæðraskólanum sér vel.

Rútína skipti öllu máli, sami matseðillinn fyrir hverja viku, tvíréttað á hverju kvöldi, súpa eða grjónagrautur á undan aðalrétti kvöldsins.

Á hverju ári var sultað, pikklað, slátur tekið, bakað í hverri viku fyrir kaffið út vikuna. Allt straujað, allt hreint og fínt, ekkert rugl, allt upp á 10.

Mamma kom oft í heimsókn til okkar systkina að taka út þrifin okkar og í leiðinni að grandskoða hvort allt væri ekki snyrtilegt. Hún átti það svo til að endurraða inni á heimilum okkar ef einhverju var ábótavant.

Við höfum ávallt hent gaman að þessum heimsóknum og Rakel snillingur í að leika hana í þessum aðstæðum.

Móðir okkar var mjög gjafmild, óeigingjörn og vildi gera allt fyrir alla.

Mamma hafði líka mjög ákveðnar skoðanir á engu og öllu, gat stundum verið erfið þegar hún beit eitthvað í sig.

Lengst af vann hún á Hrafnistu við umönnun, ekki auðveld vinna, hugsaði vel um gamla fólkið og talaði alltaf fallega um það.

Mamma var frábær amma, elskaði það hlutverk og við elskuðum hvað hún reyndist okkur mikill klettur þegar kom að krökkunum.

Að lokum langar okkur að þakka starfsfólki Landakots, Roðasala og Sunnuhlíðar sem reyndist henni og okkur gríðarlega vel alveg fram á síðasta dag.

Guð geymi þig, elsku mamma.

Þín börn,

Þorbjörg, Víðir og Rakel.

Kæra tengdamamma.

Loksins fékkstu hvíldina þína og laus úr klóm alzheimer.

Fyrir mér varst þú miklu meira en bara tengdamóðir mín, þú varst eins og aukamamma mín.

Ég var aðeins 20 ára þegar ég fór að gera mig heimakominn í Auðbrekkunni í Kópavogi.

Hvernig þú tókst mér opnum örmum verður seint þakkað nægilega fyrir.

Ég varð nánast eins og aukabarn á heimilinu, þú reyndir að brytja niður í mig matinn minn, settir alltaf eftirréttinn í skál áður en ég náði að fá mér fyrsta bita af aðalréttinum.

Það var aldrei neitt bruðl í kringum ykkur en ég náði þó að breyta því að ég fékk pulsur á föstudögum í pulsubrauði en ekki steiktar á pönnu eins og hinir. Þessi breyting þótti kraftaverk á heimilinu.

Velferð annarra var alltaf í fyrirrúmi. Gjafmildi þín ótrúleg. Fjölskyldan alltaf í fyrsta sæti. Umönnun var þín vinna og fólkið á Hrafnistu heppið að hafa þig þar í vinnu.

Mér finnst alltaf gaman að rifja upp söguna þegar ég lá heima með flensu og þú komst heim, flettir af mér sænginni og hélst á hitalækkandi stíl í hendinni, klár að stinga honum á þann stað sem til er ætlast. Þá afþakkaði ég í skyndi þjónustu þína enda tengdasonur þinn. Þetta reyndar lýsir þér mjög vel því umönnun fólks var þín allra sterkasta hlið og vinna og ég nánast dónalegur að afþakka svona gott boð.

Ég tel mig hafa verið þinn uppáhaldstengdason enda áttum við hvort annað í 35 ár og fyrir það er ég mjög þakklátur en þú varst ekki bara frábær móðir og tengdamóðir, þvílík amma sem þú varst. Við hjónin eignuðumst okkar börn mjög ung og þá kom sér vel að eiga þig að. Aldrei kom maður að lokuðum dyrunum, fengum mjög góð uppeldisráð, jafnvel þegar maður var ekki einu sinni að óska eftir þeim. Sækja, skutla, passa, gefa að borða, þetta var alltaf minnsta mál í heimi.

Elsku tengdamamma, far þú í friði og takk fyrir allt.

Þinn tengdasonur,

Sigurður
Hlöðversson.

Amma Matthildur var í persónuleika og stíl einstök innan fjölskyldunnar. Hún lét verkin tala á heimilinu og varði litlum tíma í að segja brandara eða leyfa sjálfri sér að slappa af. Á slaginu 18 var alltaf kominn kvöldmatur. Þessi daglega rútína, sem amma hélt uppi með miklum aga og nákvæmni, var fastur liður frá því ég man eftir mér þar til ég flyt út til Berlínar.

Hvar sem hamingju hennar ömmu var að finna í öllu þessu húshaldi er ég ekki í vafa um að það hafi veitt henni mikla hamingju að fæða og klæða mig. Þegar ég fæðist búa mamma og pabbi í kjallaranum hjá ömmu og afa í Auðbrekku. Vissulega var ég of ungur til að muna eftir því að búa þarna en minningarnar frá Auðbrekkunni eru vissulega margar, því ósjaldan var ég settur í pössun hjá ömmu á bernskuárunum, oft yfir dag og nótt. Það er líklega þarna þar sem ást mín á eldamennsku ömmu hefst og líklega fékk ég mér ábót af matnum á diskinn hvort sem ömmu hafði tekist vel til eða ekki.

Af ástæðum sem mikið er spekúlerað í hafði amma mín sérstakt dálæti á mér og sá mig næstum sem eigið barn sitt og ég hana sem einhvers konar mömmu númer tvö. Hugsanlega er svarið við þessari spurningu að ég er fyrsta barnabarn ömmu og aldursmunur minn og Rakelar frænku minnar rétt rúmur áratugur, þar að auki var ég í kringum hana ömmu daglega á fyrstu árum lífs míns.

Það er þessi mikli tími sem ég ver með ömmu sem sker sig úr í sambandi mínu við aðra fjölskyldumeðlimi, þ.e.a.s. aðra fjölskyldumeðlimi en foreldra mína sjálfa. Ég á margar móðurlegar minningar frá ömmu, t.d. að vera vafinn í sæng á sófanum í stofunni að sofna við einhverja kvikmynd, að liggja uppi í rúmi að fara með faðirvorið og syngja vögguvísur og að vera borinn matur upp í rúm þegar ég ligg með flensu.

Ég á minningar af ömmu og afa í mörgum ferðalögum um Ísland sem oft áttu sér stað með tjaldvagn í eftirdragi þannig að það voru ófáar helgar og dagsferðir farnar um og í kringum höfuðborgarsvæðið. Það voru einnig nokkuð tíðar dagsferðir til Eyrarbakka til Helgu frænku og Kalla frænda.

Ég kveð ömmu mína með mikilli sorg og söknuði, og jafnvel smá samviskubiti yfir að ég gat ekki varið meiri tíma með henni og afa á þessum síðustu árum þar sem ég bý í Berlín. Í hvert einasta skipti sem ég kom til Íslands eftir að ég flutti út þurfti ég að útskýra hvers vegna ég bý erlendis, einnig þurfti ég að koma með ágiskun um hvenær ég ætlaði mér að flytja aftur heim sem svo aldrei stóðst. Ég hef innilega saknað ömmu einmitt vegna þess hve duglega ég ræktaði samband mitt við þau afa og heimsótti þau eins oft og ég mögulega gat. Jafnvel daglega um stutt tímabil þegar ég geymdi rafmagnspíanóið mitt í einu herberginu í Hásölum og æfði ég mig þar klukkustundum saman eftir hjólreiðaæfingar.

Hvað sem gekk á í mínu lífi gat ég alltaf verið viss um að dyrnar heima hjá ömmu stæðu ólæstar og opnar fyrir mig, að koma án fyrirvara, taka í hurðarhúninn, labba inn og fá heitan kvöldmat klukkan sex hjá ömmu.

Elsku amma, Guð geymi þig.

Þinn

Hlöðver
Sigurðsson.

• Fleiri minningargreinar um Matthildi Messíönu Gísladóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.