[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleiksmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Magdeburg í Þýskalandi, var í gærkvöld útnefndur íþróttamaður ársins 2023 af Samtökum íþróttafréttamanna en hann vann nokkuð öruggan sigur í kjörinu og fékk samtals 500 stig

Íþróttamaður ársins

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Handknattleiksmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Magdeburg í Þýskalandi, var í gærkvöld útnefndur íþróttamaður ársins 2023 af Samtökum íþróttafréttamanna en hann vann nokkuð öruggan sigur í kjörinu og fékk samtals 500 stig.

Keppinautar hans um titilinn voru Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, sem fékk silfurverðlaun í 200 metra bringusundi á Evrópumótinu í 25 metra laug í desember, og Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og fyrirliði Bayern München sem hún varð þýskur meistari með í vor.

Þau fengu 372 og 326 stig í öðru og þriðja sætinu og voru langt á undan frjálsíþróttakonunni Andreu Kolbeinsdóttur sem hafnaði í fjórða sæti með 101 stig en heildarstigin má sjá hér til hliðar.

Frábært tímabil

Gísli Þorgeir átti frábært tímabil með Magdeburg og náði hátindi sínum í júní 2023. Hann hafði þá þegar verið valinn besti leikmaður þýsku 1. deildarinnar tímabilið 2022-23 þar sem liðið hafnaði í öðru sæti eftir einvígi við Kiel um meistaratitilinn.

Gísli fór síðan á kostum á lokaspretti Meistaradeildar Evrópu dagana 17. og 18. júní þegar úrslitahelgin fór fram í Köln í Þýskalandi.

Magdeburg bar þar sigurorð af Barcelona í undanúrslitum í vítakastkeppni eftir að framlengdur leikur liðanna endaði 38:38. Gísli átti þar mjög góðan leik og skoraði fimm mörk en var borinn af velli skömmu fyrir leikslok eftir að hafa farið úr axlarlið.

Mun aldrei gleyma þessu

Fyrir vikið var talið að hann myndi missa af úrslitaleiknum daginn eftir en Gísli náði þrátt fyrir meiðslin að leika með Magdeburg sem vann Kielce, 30:29, eftir framlengingu og tryggði sér Evrópumeistaratitilinn. Hann var í algjöru lykilhlutverki í leiknum, skoraði sex mörk og kom að fjórum marka liðsins í framlengingunni en þurfti síðan að fara í aðgerð á öxlinni og var frá keppni í tæplega hálft ár.

„Mér fannst ég geta einhvern veginn hjálpað liðinu í þessum úrslitaleik, viljinn var einbeittur til þess, og ég vildi heldur ekki bregðast sjálfum mér eftir að hafa dreymt um það sem ungur strákur að vinna þennan titil. Þessi helgi er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma, og ég sé ekki eftir neinu í dag. Eftir á að hyggja var það þess virði að geta ekki spilað handbolta í marga mánuði eftir þennan leik,“ sagði Gísli við Morgunblaðið að kjörinu loknu um þessa stærstu stund ársins hjá sér en ítarlegar er rætt við hann á íþróttavef mbl.is.

Bestur í Meistaradeildinni

Í kjölfarið var hann valinn besti leikmaðurinn á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar en til viðbótar við afrekin í Köln varð Gísli sjöundi markahæsti leikmaður keppninnar í heild sinni á tímabilinu 2022-23 með 87 mörk í 18 leikjum fyrir Magdeburg.

Þetta er annað árið í röð þar sem Gísli er í hópi þriggja efstu í kjörinu. Hann komst í fyrsta skipti í tíu manna hópinn í fyrra og hafnaði þá í þriðja sæti.

Hann hefur með þessum sigri náð skrefi lengra en faðir hans, Kristján Arason, sem níu sinnum var á meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins en Kristján hafnaði tvisvar í öðru sæti, 1989 og 1992, og einu sinni í þriðja sæti, 1986.

Handbolti í 15. skipti

Þetta er í fimmtánda skipti sem handknattleiksmaður verður fyrir valinu sem íþróttamaður ársins, og þriðja árið í röð, en Ómar Ingi Magnússon, samherji Gísla hjá Magdeburg, var kjörinn bæði 2021 og 2022.

Aðeins frjálsíþróttafólk hefur orðið oftar fyrir valinu á þeim 68 árum sem kjörið hefur farið fram, í 21 skipti, en síðan kemur knattspyrnan í þriðja sæti með 13 skipti.

Besti árangur Antons

Anton Sveinn náði sínu besta sæti í kjörinu, öðru sæti, en þetta er í fjórða sinn á fimm árum sem hann er í hópi fimm efstu. Anton varð fjórði 2019, fjórði 2020 og hafnaði í fimmta sæti í kjörinu árið 2022.

Glódís Perla er í fjórða sinn á meðal átta efstu en hún varð í áttunda sæti í kjörinu árið 2019, í sjötta sæti 2020 og hafnaði síðan í öðru sæti í kjörinu 2022. Hún fékk um eitt hundrað stigum minna árið 2022 en hún fékk í ár þótt hún hafi endað í þriðja sæti.

Efstur hjá 21 af 28

Atkvæði í kjörinu greiddu 28 íþróttafréttamenn og af þeim setti 21 Gísla Þorgeir í fyrsta sætið. Þrír aðrir fengu atkvæði í efsta sætið. Alls fengu 23 íþróttamenn atkvæði og komu allir við sögu á að minnsta kosti tveimur atkvæðaseðlum.

Stigagjöfin í kjörinu er á þá leið að hver íþróttafréttamaður velur tíu íþróttamenn. Sá efsti fær 20 stig, næsti 15, þriðji tíu og svo aðrir frá sjö og niður í eitt stig. Í ár var því mest hægt að fá 560 stig. Stigamet í kjörinu var sett í fyrra þegar Ómar Ingi fékk 615 stig af 620 mögulegum.

Yfirburðasigur Víkings

Karlalið Víkings í knattspyrnu var kjörið lið ársins 2023 af Samtökum íþróttafréttamanna og vann þá kosningu með nokkrum yfirburðum.

Víkingar unnu tvöfaldan sigur í kjörinu því kvennalið félagsins í knattspyrnu hafnaði í öðru sæti.

Víkingar áttu einstaklega gott tímabil í fótboltanum árið 2023 því karlalið félagsins varð bæði Íslands- og bikarmeistari, og vann bikarkeppnina í fjórða skiptið í röð, og kvennalið Víkings varð bikarmeistari í fyrsta skipti, ásamt því að vinna 1. deildina og tryggja sér sæti í efstu deild.

Í þriðja sæti varð síðan karlalið Tindastóls í körfuknattleik sem varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti vorið 2023 eftir magnað einvígi við Valsmenn.

Arnar þjálfari ársins

Víkingar hrepptu einn titil í viðbót því Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs félagsins í knattspyrnu, var kjörinn þjálfari ársins 2023.

Hann vann yfirburðasigur í kjörinu því hann fékk um það bil þrisvar sinnum fleiri atkvæði en næsti maður sem var sigurvegari tveggja síðustu ára, Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, sem hlaut silfurverðlaunin á heimsmeistaramótinu 2023.

Sáralitlu munaði á Þóri og Pavel Ermolinskij sem hafnaði í þriðja sæti. Undir stjórn Pavels vann Tindastóll sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í körfuknattleik karla.

ATKVÆÐATÖLURNAR Í KJÖRINU Á ÍÞRÓTTAMANNI ÁRSINS

1. Gísli Þorgeir Kristjánsson, Magdeburg, handknattleikur 500

2. Anton Sveinn McKee, Sundfélagi Hafnarfjarðar, sund 372

3. Glódís Perla Viggósdóttir, Bayern München, knattspyrna 326

4. Andrea Kolbeinsdóttir, ÍR, frjálsíþróttir/skíðaganga 101

5. Sveindís Jane Jónsdóttir, Wolfsburg, knattspyrna 94

6. Elvar Már Friðriksson, PAOK Saloniki, körfuknattleikur 93

7. Jóhann Berg Guðmundsson, Burnley, knattspyrna 73

8. Sóley Margrét Jónsdóttir, Breiðabliki, kraftlyftingar 69

9. Thelma Aðalsteinsdóttir, Gerplu, fimleikar 53

10. Snæfríður Sól Jórunnardóttir, Aalborg Svömmeklub, sund 47

11. Baldvin Þór Magnússon, UFA, frjálsíþróttir 37

12. Jóhanna Margrét Snorradóttir, hestaíþróttir 35

13. Albert Guðmundsson, Genoa, knattspyrna 31

14. Kristín Þórhallsdóttir, ÍA, kraftlyftingar 30

15. Snorri Einarsson, Skíða, skíðaganga 28

16. Eygló Fanndal Sturludóttir, Lyftingafélagi Reykjavíkur, lyftingar 27

17. Bjarki Már Elísson, Veszprém, handknattleikur 26

18. Viktor Gísli Hallgrímsson, Nantes, handknattleikur 24

19. Hákon Rafn Valdimarsson, Elfsborg, knattspyrna 22

20. Hákon Arnar Haraldsson, FCK/Lille, knattspyrna 20

21. Haraldur Franklín Magnús, Golfklúbbi Reykjavíkur, golf 19

22. Ragnhildur Kristinsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur, golf 10

23. Sandra Erlingsdóttir, Metzingen, handknattleikur 7

ATKVÆÐATÖLURNAR Í KJÖRINU Á ÞJÁLFARA ÁRSINS

1. Arnar Gunnlaugsson, Víkingur, knattspyrna 122

2. Pavel Ermolinskij, Tindastóll, körfuknattleikur 42

3. Þórir Hergeirsson, Noregur, handknattleikur 40

4. Heimir Hallgrímsson, Jamaíka, knattspyrna 28

5. Freyr Alexandersson, Lyngby, knattspyrna 16

6. Óskar Hrafn Þorvaldsson, Breiðablik, knattspyrna 2

7-8. Pétur Pétursson, Valur, knattspyrna 1

7-8. Guðmundur Þ. Guðmundsson, Fredericia, handknattleikur 1

ATKVÆÐATÖLURNAR Í KJÖRINU Á LIÐI ÁRSINS

1. Víkingur, karla, knattspyrna 116

2. Víkingur, kvenna, knattspyrna 59

3. Tindastóll, karla, körfuknattleikur 50

4. Breiðablik, karla, knattspyrna 23

5. Valur, kvenna, knattspyrna 3

6. ÍBV, karla, handknattleikur 1