Skjálftahrina hófst í Grímsvötnum í gær um klukkan 16 og mældust sex jarðskjálftar af stærðinni 1 eða stærri. Var það talið óvenjulegt að mati Veðurstofu Íslands og var því fluglitakóða fyrir svæðið breytt úr grænum í gulan

Skjálftahrina hófst í Grímsvötnum í gær um klukkan 16 og mældust sex jarðskjálftar af stærðinni 1 eða stærri. Var það talið óvenjulegt að mati Veðurstofu Íslands og var því fluglitakóða fyrir svæðið breytt úr grænum í gulan. Gul­ur flug­litakóði merk­ir í þessu til­felli að eld­stöðin sýni merki um virkni, um­fram venju­legt ástand.

Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, sagði skjálftana óvenjulega marga á þetta skömmum tíma, í samtali við mbl.is.

Veðurstofan gaf út tilkynningu með skýringu á breytingunni á litakóðanum stuttu seinna. Þar sagði að síðustu fjóra mánuði hefði jarðskjálfta­virkni í Gríms­vötn­um verið meiri en það sem teldist til venju­legr­ar bak­grunns­virkni. Frá því í byrj­un des­em­ber hefði vatn runnið úr Grím­svötn­um sjálf­um en síðustu tvær vik­ur hefði ekki verið hægt að mæla breyt­ing­ar vegna bil­un­ar í búnaði. Hugs­an­legt þykir að þetta sé vegna los­un­ar vatns en erfitt mun vera að staðfesta að svo stöddu. Litakóðinn verður met­inn að nýju í dag.

Grím­svötn eru lang­virk­asta eld­stöð lands­ins og um nokk­urra ára skeið hef­ur hún verið tal­in til­búin í enn eitt eldgosið. Í ágúst var eldstöðin þegar komin í hærri stöðu en hún var fyrir síðasta gos sem varð 21. maí árið 2011.